Hægt að minnka vistspor þjóða verulega með því að kaupa vörur frá löndum með „sjálfbæra“ framleiðslu

Hægt er að minnka verulega þann hluta af vistspori þjóða sem felst í innfluttum vörum með því að beina viðskiptum til umhverfisvænni landa. Í nýrri rannsókn á vistspori ESB-ríkjanna kom í ljós að ríkin gætu minnkað vatnsnotkun við framleiðslu á innfluttum varningi um 72%, landnotkun um 65%, efnisnotkun um 53% og kolefnisspor um 46% með því að beina viðskiptum sínum til landa sem framleiða vörur með sjálfbærari hætti en núverandi viðskiptalönd. Þannig flytja ESB-ríkin nú inn bíla frá 49 löndum og svæðum innan og utan sambandsins og er kolefnislosun vegna þessarar framleiðslu um 2 gígagrömm (Gg) CO2 fyrir hverjar milljón evrur. Með því að flytja aðeins inn bíla frá 13 völdum löndum og svæðum væri hægt að lækka þessa tölu í 0,4 Gg á milljón evrur, að teknu tilliti til framleiðslugetu upprunalandanna. Rannsóknin er innlegg í umræðu um kolefnisskatta á innflutning (carbon border adjustment (CBA)), þar sem hærri tollar yrðu lagðir á vörur frá löndum með mikla losun gróðurhúsalofttegunda.
(Sjá fréttabréfið Science for Environmental Policy 19. nóvember)

Kolefniskræfnin minnkar allt of hægt

CO2Kolefniskræfni (e. carbon intensity) hagkerfa heimsins minnkaði um 2,7% á árinu 2014, en kolefniskræfni er mælikvarði á koltvísýringslosun á hvern dollar af vergri landsframleiðslu (GDP). Þetta kemur fram í tölum sem endurskoðunarfyrirtækið PWC birti í dag. Hér er um að ræða mestu lækkun á einu ári frá því að tölur af þessu tagi voru fyrst birtar fyrir 7 árum. Á árinu jókst samanlögð landsframleiðsla um 3,2% á sama tíma og kolefnislosun jókst um 0,5%. Þessi samdráttur er þó langt frá því að vera nægjanlegur til að hægt verði að halda meðalhlýnun jarðar innan við 2°C eins og stefnt er að. Til þess þyrfti kolefniskræfnin að minnka um 6,3% árlega. Talsmaður PwC orðar það svo að þörf sé á byltingu í orkugeiranum í öllum ríkjum heims. Frá árinu 2000 hefur kolefniskræfnin aðeins minnkað um 1,3% á ári að meðaltali og ef sú þróun helst verða jarðarbúar að hætta alfarið að losa kolefni út í andrúmsloftið árið 2036 til að komast hjá hlýnun umfram 2°C.
(Sjá frétt PlanetArk í dag).

Úrgangs-, vatns- og kolefnishlutlaus verslun

SainsburysBreska verslunarkeðjan Sainsbury’s opnaði á dögunum nýja verslun í Leicester, sem er sérstök að því leyti að engum úrgangi þaðan er fargað, auk þess sem reksturinn er kolefnishlutlaus og ekkert vatn er notað umfram það sem þegar var til staðar í vatnsveitu svæðisins. Meðal þess sem gert er til að ná þessum árangri má nefna, að í staðinn fyrir gas sem verslunin kaupir úr dreifikerfi svæðisins er sama magni af lífgasi bætt inn í kerfið frá metangasveri keðjunnar, auk þess sem um 70% af venjulegri vatnsþörf er mætt með regnvatni og vatnssparandi aðgerðum en þeim 30% sem á vantar með því að kosta sparnaðaraðgerðir hjá öðrum notendum vatnsveitunnar. Allir matarafgangar sem hæfir eru til manneldis eru gefnir hjálparsamtökum en annað nýtt í fóðurframleiðslu eða í einstaka tilvikum í gasgerð.
(Sjá frétt EDIE í dag).

Kolefniskvótinn uppurinn 2034 með sama áframhaldi

CO2 EDIEStærstu hagkerfi heimsins þurfa að draga úr kolefniskræfni sinni (koltvísýringslosun á hverja framleiðslueiningu (e. carbon intensity)) um 6% á ári ef takast á að viðhalda hagvexti án þess að meðalhitastig í heiminum hækki um meira en 2°C á þessari öld, ef marka má nýja skýrslu frá Pricewaterhouse Coopers. Í skýrslunni kemur einnig fram að á síðustu fimm árum hafi kolefniskræfnin aðeins minnkað um 0,7% á ári, og að jafnvel þótt þessi tala væri tvöfölduð muni hitastig hækka um 4°C fyrir aldamót, þ.e. í líkingu við svörtustu spá IPCC (Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar). Ef svo heldur sem horfir verði kolefniskvóti jarðarbúa uppurinn árið 2034, sem þýðir að þá yrði að hætta losun alfarið til að komast hjá hlýnun umfram 2°C.
(Sjá frétt EDIE 4. nóvember).