Vísindamenn við Háskólann í Kaliforníu hafa fyrstir manna skipt áætluðum kostnaði samfélagsins vegna loftslagsbreytinga („social cost of carbon“ (SCC)) niður á einstök þjóðlönd. Niðurstaðan er sú að kostnaður Bandaríkjanna verði mestur, eða um 250 milljarðar dollara á ári (um 28.000 milljarðar ísl. kr.). Kostnaður á hvert tonn sem losað er í Bandaríkjunum verður um 50 dollarar, sem er hærra en miðað hefur verið við í flestum greiningum hingað til (12-62 dollarar á tonn). Kostnaður á hvert tonn á heimsvísu verður þó miklu hærri samkvæmt útreikningum vísindamannanna eða 180-800 dollarar. Indland og Sádí-Arabía eru næst Bandaríkjanum hvað varðar heildarkostnað, en Evrópusambandið sleppur mun betur. Vísindamennirnir draga þá ályktun af niðurstöðum sínum að stjórnvöld í ríkjum heims hafi ekki gert sér grein fyrir þeirri miklu ógn sem stafar af loftslagsbreytingum og að þær þjóðir sem munu bera stærstan hluta kostnaðarins hljóti að verða að sýna meira frumkvæði en þær hafa gert.
(Sjá frétt Science Daily 24. september).