Hættuleg efni algeng í snyrtivörum fyrir börn

Dönsku neytendasamtökin Tænk könnuðu nýlega innihaldslýsingar á allmörgum tegundum af snyrtivörum sem ætlaðar eru börnum. Í 27 tilvikum reyndust þessar vörur innihalda efni sem eru talin geta valdið ofnæmi, truflað hormónastarfsemi líkamans og haft neikvæð áhrif á frjósemi, nánar tiltekið efnin BHT, própýlparaben og etýlhexýlmetoxýcinnamat. Tænk bendir á að börn á vaxtarskeiði séu einkar viðkvæm fyrir efnum af þessu tagi og jafnvel þótt hvert efni um sig geri lítinn skaða til skamms tíma geti samverkandi áhrif fleiri efna (kokteiláhrif) valdið heilsutjóni. Foreldrum er ráðlagt að velta fyrir sér þörfinni á að börn noti snyrtivörur, að nota smáforritið Kemiluppen til að skanna þær vörur sem keyptar eru og velja helst svansmerktar vörur og vörur með viðurkenndum ofnæmismerkjum á borð við Bláa kransinn.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk 30. nóvember).

HICC bannað vegna ofnæmishættu

Framkvæmdastjórn ESB hefur samþykkt að ilmefnið HICC (hýdroxýísóhexýl 3-sýklóhexen karboxaldehýð) verði bannað í hvers konar snyrtivörum, þar sem efnið getur valdið ofnæmi og þar af leiðandi skaðað heilsu manna. Framleiðendur fá hins vegar tveggja ára aðlögunartíma og seljendur fá tvö ár til viðbótar til að hætta sölu á vörum sem innihalda efnið. Bannið tekur því í reynd ekki gildi fyrr en eftir 4 ár. Samkvæmt gagnagrunni dönsku neytendasamtakanna (Tænk) finnst HICC í rúmlega 500 snyrtivörutegundum, svo sem í sturtusápu, eftirsólaráburði og svitalyktareyði.
(Sjá frétt Tænk Kemi 3. október).

Þalöt enn algeng í plastvörum

test-kemi-i-plastik-produkter-160x85Þalöt fundust í helmingi allra vörutegunda úr plasti sem skoðaðar voru í nýrri rannsókn dönsku neytendasamtakanna (Tænk). Í rannsókninni var leitað að þalötum í 58 vörum og reyndust 29 þeirra innihalda slík efni. Í 24 tilvikum var þar um að ræða þalöt sem sett hafa verið á svonefndan kandídatslista Evrópusambandsins, en á þeim lista eru efni sem talin eru sérlega hættuleg en hafa þó ekki verið bönnuð. Í 5 tilvikum var um önnur þalöt að ræða. Þalöt hafa lengi verið notuð sem mýkingarefni í plast, en þau eru talin geta raskað hormónastarfsemi líkamans.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk í gær).

Óleyfileg efni í E.l.f.-snyrtivörum

elf-160x80Dönsku neytendasamtökin (Tænk) hafa sent kæru til Umhverfisstofnunar Danmerkur (Miljøstyrelsen) vegna óleyfilegra efna sem fundust í 18 tegundum af E.l.f.-snyrtivörum í athugun samtakanna. Efnin sem um ræðir eru ísóbútýlparaben, metýlísóþíasólínón (MI) og metýlklóróísóþíasólínón (MCI). Notkun ísóbútýlparabens í snyrtivörur hefur verið bönnuð innan ESB frá 30. júlí 2015, en hætta er talin á að efnið geti raskað hormónastarfsemi líkamans. Frá árinu 2016 hefur verið óheimilt að nota MI og MCI í vörur sem ætlað er að liggja á húð, en þessi efni eru kunnir ofnæmisvaldar. Innflytjandi umrædds varnings segist hafa fengið ranga sendingu frá framleiðandanum.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk 26. janúar).

Ofnæmisvaldar algengir í hreingerningarefnum

test-kemi-i-universalrengoering160Flest hreingerningarefni innihalda ofnæmisvaldandi ilmefni eða rotvarnarefni samkvæmt nýrri könnun Neytendasamtaka Danmerkur (Tænk). Skoðaðar voru upplýsingar um innihald 25 vörutegunda og reyndust aðeins 6 þeirra (allar Svansmerktar) lausar við efni af þessu tagi. Rotvarnarefnið MI (metýlísóþíasólínón) fannst í 5 vörutegundum en á hverju ári eru rúmlega 1.000 Danir greindir með ofnæmi fyrir efninu. Tænk ráðleggur fólki að kaupa hreinsiefni sem fengið hafa vottun Norræna svansins eða Umhverfismerkis Evrópusambandsins og eru jafnframt merkt með Bláa kransinum, sem felur í sér viðurkenningu dönsku astma- og ofæmissamtakanna.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk í dag).

Tíðatappar yfirleitt lausir við hættuleg efni

test-kemi-i-tamponer-1-160Tíðatappar sem fást í dönskum verslunum eru flestir lausir við hættuleg efni að því er fram kemur í nýrri úttekt dönsku neytendasamtakanna Tænk. Hins vegar kann annað að gilda um tappa sem keyptir eru á netinu. Í úttekt Tænk voru 11 tegundir tíðatappa efnagreindar í leit að ilmefnum, glýfosati, lausum trefjum, klórleifum, formaldehýði og nónýlfenólefnum. Aðeins ein tegund (TAMPAX C Active Fresh) féll á prófinu, þar sem hún innihélt ilmefni og slík efni geta valdið ofnæmi. Í annari tegund fundust leifar af plöntueitrinu glýfosati, en magnið var svo lítið að það var ekki talið geta verið skaðlegt. Hinar tegundirnar níu voru lausar við umrædd efni. Tænk bendir á að Svansmerktir tíðatappar séu góður valkostur, en úrvalið af þeim er enn mjög takmarkað.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk í dag).

Neytendur vilja sjálfbærari föt

2020-toj-160Um 60% danskra neytenda vilja að föt séu framleidd með sjálfbærari hætti en nú tíðkast og 56% segjast reiðubúin að borga meira fyrir slíkan fatnað. Um 22% myndu ekki setja það fyrir sig þótt sjálfbærari fötin væru allt að 20% dýrari í innkaupum, en nær allir eru sammála um að úrvalið sé lítið og að erfitt sé að finna föt sem framleidd eru með sjálfbærni að leiðarljósi. Þetta kom fram í rannsókn sem Neytendasamtök Danmerkur (Tænk) gerðu nýlega meðal rúmlega 1.000 danskra neytenda sem valdir voru af handahófi. Samtökin beina því til fataframleiðenda að koma betur til móts við eftirspurn eftir sjálfbærum fatnaði en benda jafnframt á að greiðsluvilji sem fram kemur í könnunum skili sér ekki alltaf þegar á hólminn er komið.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk 5. september).

Hormónaraskandi efni í vítamíni fyrir börn

vitaminHormónaraskandi efni fannst í þremur tegundum af vítamínum fyrir börn sem könnuð voru í nýlegri rannsókn dönsku neytendasamtakanna Tænk, en samtals voru 12 vörur af þessu tagi teknar til skoðunar. Efnið sem um ræðir nefnist BHT (bútýlhýdroxýtólúen). Vitað er að efnið hefur áhrif á hormónastarfsemi dýra og er því einnig talið hormónaraskandi í fólki. Notkun efnisins sem aukaefnis í matvælum er lögleg en ekki æskileg, en efnið er yfirleitt merkt sem E321 í innihaldslýsingum. Áhrif vítamínsins eins og sér á hormónastarfsemina eru lítil en það getur átt sinn þátt í kokteiláhrifum þar sem fleiri hormónaraskandi efni eru til staðar í daglegu umhverfi barna.
(Sjá frétt Tænk 17. febrúar).

Varasöm efni í kerrupokum

babysoveposer-test (2) (160x77)Fjórar af 10 tegundum kerrupoka og burðarpoka sem skoðaðir voru í nýlegri úttekt dönsku neytendasamtakanna Tænk reyndust innihalda efni sem talin eru krabbameinsvaldandi eða hormónaraskandi. Efnin sem um ræðir eru þalöt, flúorsambönd og naftalín, sem tilheyrir flokki PAH-efna. Verst var ástandið í Dania Oxford-kerrupokanum sem innihélt þalatið DEHP langt yfir leyfilegum mörkum. Tænk ráðleggur neytendum að þvo kerrupoka áður en þeir eru teknir í notkun og að velja poka með umhverfismerkjum á borð við Öko-Tex, Umhverfismerki Evrópusambandsins og GOTS.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk 9. febrúar).

Lítið um hættuleg efni í drykkjarbrúsum

drikkedunke-artikel-webFlestir drykkjarbrúsar á borð við þá sem gjarnan eiga sér vísan stað í skólatöskum barna og unglinga standast þær kröfur sem eðlilegt er að gera til slíkrar vöru um efnainnihald og hugsanlegan leka efna í drykki. Þetta kom fram í nýrri rannsókn á vegum dönsku neytendasamtakanna Tænk, þar sem kannaðar voru 8 tegundir drykkjarbrúsa úr plasti, gleri og málmum. Gerð var sérstök leit að þungmálmum og hormónaraskandi efnum á borð við þalöt og BPA. Allir brúsarnir stóðust prófið í öllum aðalatriðum en úr einum brúsanum lak óverulegt magn af áli út í viðkomandi drykk. Í einu öðru tilviki varð vart við óverulega efnamegnun þegar í hlut áttu súrir drykkir. Allt var þetta þó innan marka.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk 20. janúar).