Aukin áhersla á endurvinnslu matarleifa

Á síðustu misserum hafa sífellt fleiri sveitarfélög í Danmörku tekið upp sérstaka söfnun á matarúrgangi. Nú er þessi þjónusta til staðar í 31 sveitarfélagi af 98, en var aðeins í 22 sveitarfélögum fyrir hálfu öðru ári. Með þessu móti opnast möguleikar á að nýta auðlindir í úrganginum betur, bæði með gasframleiðslu og framleiðslu jarðvegsbætis, en hingað hefur mest af þessum úrgangi farið í brennslu. Fyrir skemmstu náðist samkomulag innan Evrópusambandsins um að lögbinda sérstaka söfnun lífræns úrgangs frá og með árinu 2023.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen 23. janúar).

Flokkun lífræns úrgangs komin í tísku

Níu af hverjum tíu Dönum sem eiga þess kost að flokka lífrænan úrgang frá öðrum úrgangi sem til fellur á heimilinu eru ánægðir með fyrirkomulagið samkvæmt niðurstöðum könnunar Umhverfisstofnunar Danmerkur (Miljøstyrelsen). Enn hafa aðeins um 30% þjóðarinnar aðstöðu til slíkrar flokkunar en um helmingur hinna 70 prósentanna segist gjarnan vilja hafa þennan möguleika. Aðeins um 15% segja flokkun úrgangs vera erfiða og um 3% vilja hafa færri flokkunarmöguleika en þeir hafa í í dag. Lífrænn heimilisúrgangur er rúmlega 40% af öllum heimilisúrgangi sem til fellur í Kaupmannahöfn.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen 23. september).

Lyfsölurisi með átak í söfnun lyfjaúrgangs

CVS_lyfLyfsölurisinn CVS í Bandaríkjunum hefur tekið til við að dreifa sérstökum tunnum fyrir lyfjaúrgang til sveitarfélaga og lögregluembætta með það að markmiði að lágmarka neikvæð áhrif úrgangsins á umhverfi og samfélag. Talið er að um 10-30% allra lyfja sem seld eru vestra séu aldrei notuð og safnist því fyrir í skápum eða endi annað hvort í salerninu eða ruslinu. Þaðan berist þau oftar en ekki í vötn og haf og geti þar skaðað vistkerfi og jafnvel heilsu manna ef þau berast inn í fæðukeðjuna. Lyfjaafgöngum á alla jafna að skila í apótek, því að erfitt hefur reynst að tryggja að lyfjaleifum sem skilað er á grenndarstöðvar sé ekki stolið úr gámunum. CVS hefur nú þegar dreift 275 sérstökum söfnunarílátum sem standast kröfur um öryggi og stefnir að því að færa yfirvöldum víðsvegar um Bandaríkin um 700 stykki til viðbótar á næstu misserum.
(Sjá frétt ENN í dag).

Raftækjaúrgangur á villigötum

weee_160Raftækjaúrgangur fyrir 19 milljarða Bandaríkjadala (um 2.500 milljarða ísl. kr.) er seldur árlega á svörtum markaði eða honum fargað á ólöglegan hátt samkvæmt nýrri skýrslu Umhverfisstofnunnar Sameinuðu þjóðanna (UNEP). Samkvæmt skýrslunni er þarna um að ræða 60-90% af öllum raftækjaúrgangi sem til fellur, en samtals verður um 41 milljón tonna af raftækjum að úrgangi á ári hverju. Raftækjaúrgangur er iðulega fluttur ólöglega til þróunarríkja þar sem verðmætir málmar og fleiri efni eru tínd úr og seld. Þetta er oftast gert við mjög slæm skilyrði þar sem starfsmenn eru í daglegri snertingu við skaðleg efni og þungmálma sem geta safnast upp í líkamanum. UNEP bendir einnig á að með þessu séu þjóðir að missa auðlindir úr landi þar sem úrgangsmeðhöndlun og flokkun úrgangs getur verið atvinnuskapandi í heimalandinu og skapað verðmæti með sölu endurvinnanlegra efna. Mikilvægt sé að taka á þessu vandamáli með auknu alþjóðlegu samstarfi og samræmi í löggjöf og eftirfylgni á heimsvísu og í hverju landi fyrir sig.
(Sjá frétt UNEP í dag).

Mikill kolefnissparnaður vegna endurvinnslu plasts og málma

recycling_160Losun gróðurhúsalofttegunda vegna úrgangsmeðhöndlunar sveitarfélaga í Bretlandi minnkaði um 4% á síðasta ári miðað við árið á undan, samkvæmt hinni árlegu skýrslu Recycling Carbon Index Report. Í skýrslunni kemur fram að 64% allra sveitarfélaga í Bretlandi hafi dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda í tengslum við úrgangsmeðhöndlun á síðasta ári þrátt fyrir að endurvinnsluhlutfall hafi ekki hækkað á sama tíma. Árangurinn er talinn stafa af því að tekist hafi að endurvinna meira af plasti og málmum en áður, en söfnun og efnisendurvinnsla þessara flokka hefur í för með sér mikinn kolefnissparnað. Þannig sparast 2,35 tonn af koltvísýringi fyrir hvert tonn af málmum sem safnast og fer í endurvinnslu.
(Sjá frétt EDIE í dag).