Jarðeldsneytisbílabann 2030 dugar ekki

Gert er ráð fyrir að Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, kynni í þessari viku 10 aðgerðir sem ætlað er að styðja við loftslagsmarkmið þarlendra stjórnvalda. Ein þessara aðgerða verður væntanlega bann við sölu nýrra bensín- og dísilbíla frá og með árinu 2030. Samkvæmt nýrri skýrslu hugveitunnar New Automotive gæti þetta bann minnkað losun frá umferð úr núverandi 68 milljónum tonna koldíoxíðígilda niður í 46 milljónir tonna árið 2030, sem er eftir sem áður langt frá þeim 32,8 milljónum tonna sem stefnt er að.Til þess að hafa tilætluð áhrif þyrfti bannið að taka gildi árið 2026, eða þá að grípa þyrfti til annarra aðgerða til að minnka notkun bíla af þessu tagi. Bann 2030 myndi þýða að í mörg ár eftir það verði stór floti bensín- og dísilbíla á götunum.
(Sjá frétt The Guardian í dag).

Metvöxtur í endurnýjanlegri orku

Um 90% allra raforkuvera sem sett verða upp í heiminum á þessu ári nýta endurnýjanlega orku, að því er fram kemur í skýrslu sem Alþjóðaorkumálastofnunin (IEA) gaf út í dag. Mikil aukning hefur orðið á þessu sviði á árinu, á sama tíma og samdráttur hefur verið í nýtingu jarðeldsneytis. Með sama áframhaldi verður þriðjungur af allri raforku heimsins af endurnýjanlegum uppruna árið 2025 – og þar með ná endurnýjanlegir orkugjafar toppsætinu af kolum sem hafa verið stærsti einstaki raforkugjafinn í 50 ár. Hlutabréf í endurnýjanlegri orku hafa hækkað hratt samfara þessari öru þróun og sem dæmi má nefna að verð hlutabréfa í sólarorkufyrirtækjum hefur meira en tvöfaldast frá því í desember 2019. Það kemur e.t.v. ekki á óvart þegar haft er í huga að uppsett afl í sólarorku hefur 18-faldast frá árinu 2010. Uppsett afl í vindorku hefur fjórfaldast á sama tíma. Búist er við enn örari vexti í þessum greinum á næsta ári. Þróunin er þó háð stefnu stjórnvalda, en endurreisnarstyrkir vegna Covid-19 virðast renna í mun meira mæli til fyrirtækja í jarðeldsneytisgeiranum en til uppbyggingar endurnýjanlegrar orku.
(Sjá frétt The Guardian í dag).

Bann við sölu jarðeldsneytisbíla í Bretlandi 2030

Gert er ráð fyrir að breska ríkisstjórnin kynni á næstu vikum bann við sölu nýrra bensín- og dísilbíla frá og með árinu 2030. Samkvæmt núverandi stefnu tekur slíkt bann gildi í Bretlandi 2040, en vilji er til að flýta banninu um 10 ár til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, auka loftgæði í borgum og búa til ný tækifæri fyrir breskan bílaiðnað. Þýskaland, Írland og Holland (auk Íslands) stefna öll að banni frá og með 2030 og í Noregi á slíkt bann að taka gildi árið 2025.
(Sjá frétt The Guardian 21. september).

Cambridge fyrst með varúðarmerkingar á bensíndælum

Borgarstjórnin í Cambridge í Massachusetts í Bandaríkjunum hefur samþykkt að setja varúðarmerkingar á allar bensín- og dísildælur í borginni í þeim tilgangi að minna á að brennsla á jarðeldsneyti hefur áhrif á loftslag, umhverfi og heilsu. Með þessu verður Cambridge fyrsta borgin í heiminum þar sem skylt verður að setja upp slíkar merkingar. Varaborgarstjórinn Jan Devereux lagði fyrst fram tillögu um slíkar merkingar árið 2016, en sú tillaga náði ekki fram að ganga. Nú hafa áherslur í borgarstjórninni hins vegar breyst og því var tillagan samþykkt á dögunum. Merkingarnar, sem eru í raun sambærilegar við merkingar á tóbaksumbúðum, verða væntanlega settar upp á næstu mánuðum.
(Sjá frétt Gröna bilister 11. febrúar).

Tugir milljarða í hagsmunagæslu olíurisa

Frá árinu 2010 hafa fimm af stærstu olíufyrirtækjum heims, þ.e.a.s. BP, Shell, Chevron, ExxonMobil og Total, varið samtals 251 milljón evra (um 35 milljörðum ísl. kr.) í hagsmunagæslu til að reyna að hafa áhrif á ákvarðanir innan Evrópusambandsins. Þessu til viðbótar hafa samtök á vegum fyrirtækjanna notað 128 milljónir evra (um 18 milljarða ísl. kr.) í sama tilgangi. Þá hafa fulltrúar fyrirtækjanna haldið 327 fundi með embættismönnum sambandsins frá því á árinu 2014. Þessar tölur koma fram í nýrri skýrslu Corporate Europe Observatory og fleiri aðila. Þar er reyndar bent á að þetta sé bara toppurinn á ískjakanum, því að tölur hafi ekki fengist frá öllum fyrirtækjunum öll árin og auk þess séu útgjöld sem tengjast þjóðþingum og stofnunum einstakra landa ekki meðtalin. Að mati skýrsluhöfunda hefur þessum fyrirtækjum tekist að seinka, veikja og spilla fyrir aðgerðum Evrópusambandsins í loftslagsmálum. Kominn sé tími til að byggja eldvegg á milli fyrirtækjanna og stjórnvalda.
(Sjá frétt The Guardian í dag).

Vinnubílaáskorunin hafin!

Í síðustu viku var svonefndri „vinnubílaáskorun“ hleypt af stokkunum í Vänersborg í Svíþjóð. Fyrirtæki, sveitarfélög og samtök sem taka áskoruninni skuldbinda sig til að hafa eingöngu rafbíla, tengiltvinnbíla eða metanbíla til ráðstöfunar fyrir starfsmenn sína og huga jafnframt að því að nýta aðrar samgönguleiðir, svo sem reiðhjól, almenningssamgöngur eða deilibíla. Áskorunin er hluti af átakinu Fossilfritt Sverige, sem hófst í aðdraganda Parísarráðstefnunnar 2015. Fyrirtæki og stofnanir kaupa um helming allra nýrra bíla sem seldir eru í Svíþjóð og því skiptir miklu máli hvers konar bílar verða fyrir valinu. Ástæða þess að áskorunin var kynnt í Vänersborg er sú að sveitarfélögin á því svæði, beggja vegna sænsku/norsku landamæranna, hafa sett sér það takmark að hætta að nota jarðefnaeldsneyti fyrir árið 2030. Yfirskrift þess verkefnis er Hela Gröna Vägen eða „Alla græna leið“.
(Sjá frétt Gröna bilister 5. október).

Kaþólska kirkjan losar fé úr jarðefnaeldsneytisgeiranum

Allmargar stofnanir kaþólsku kirkjunnar ætla að losa sig við hlutabréf sín í kola-, olíu- og gasiðnaði. Heildarupphæð þessara fjármagnsflutninga liggur ekki fyrir en þetta verður stærsta fjárlosunaraðgerð trúartengdra stofnana hingað til. Christiana Figueres, fyrrv. framkvæmdastjóri Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna, hefur fagnað þessu framtaki, enda sé það bæði skynsamlegt frá fjárhagslegu sjónarmiði og siðferðileg nauðsyn. Tilkynningin um þessa aðgerð kirkjustofnananna var birt 3. október, á dánardægri heilags Frans frá Assisi og á rætur í páfabréfinu Laudato Si sem nafni hans, Frans páfi, skrifaði vorið 2015.
(Sjá frétt The Guardian 3. október).

Netflix í slæmum félagsskap

clickclean160Netflix og Amazon eru í hópi þeirra þjónustuaðila á netinu sem nota hlutfallslega mest af kolum og öðru jarðefnaeldsneyti til að knýja starfsemi sína, að því er fram kemur í nýrri skýrslu Greenpeace um orkunotkun internetfyrirtækja (Clicking Clean). Apple, Google og Facebook eru hins vegar í hópi þeirra netfyrirtækja sem komin er lengst í að nota eingöngu endurnýjanlega orku. Upplýsingatæknigeirinn notaði um 7% of allri raforku sem framleidd var í heiminum árið 2012 og er búist við að þessi tala fari jafnvel yfir 12% á árinu 2017. Streymi myndefnis vegur þyngst í þessum efnum. Hlutur þess í netumferð var 63% árið 2015 og samkvæmt spám verður hann kominn í 80% árið 2020. Netfyrirtækin, og þá ekki síst þau sem dreifa myndefni, hafa því mikil áhrif á það hvernig orkumarkaður heimsins og þar með losun gróðurhúsalofttegunda mun þróast næstu ár.
(Sjá fréttatilkynningu Greenpeace 10. janúar).

Osló stefnir að helmingssamdrætti á fjórum árum

74814-160Borgaryfirvöld í Osló kynntu á dögunum „loftslagsfjárlög“ næstu ára þar sem fram kemur hvernig ná skuli losun gróðurhúsalofttegunda í borginni niður fyrir 600.000 tonn árið 2020 í samræmi við markmið sem borgin setti sér fyrr á þessu ári. Árið 2014 nam losunin 1,4 milljón tonna og er ekki vitað til að nokkur borg eða ríki hafi áður tekið svo róttæka ákvörðun um samdrátt í losun. Enn fremur er stefnt að því að Osló verði orðin kolefnishlutlaus árið 2030. Þessum skjóta árangri á m.a. að ná með því að hækka veggjöld á bíla sem aka inn í borgina, fækka bílastæðum, útrýma olíukyndingu á heimilum og skrifstofum, skipta út almenningsfarartækjum sem brenna jarðefnaeldsneyti og fjölga enn hjólreiðastígum. Nýlunda þykir að flétta aðgerðir til að draga úr losun inn í fjárhagsáætlun borga eins og gert er í Osló, en einn af aðstoðarborgarstjórum borgarinnar orðar það svo að „þau ætli að telja kolefni eins og aðrir telja peninga“. Ef markmiðið næst vonast borgaryfirvöld til að árangur Oslóar verði öðrum borgum hvatning.
(Sjá frétt PlanetArk 29. september).

Eldfim á í Ástralíu!

australiaSvo mikið metangas streymir nú inn í Condamine ána í Queensland í Ástralíu að hægt er að kveikja í ánni. Á þessu svæði er mikið af jarðgasi unnið með bergbroti (e. fracking) en ástralski græningjaflokkurinn hefur beitt sér fyrir því að slík starfsemi verði bönnuð í landinu. Formaður flokksins bar sjálfur eld að ánni til að ganga úr skugga um gasinnihaldið. Eldurinn logaði í klukkutíma samfellt.
(Sjá frétt ENN 23. apríl).