Í fyrrihluta síðustu viku var 40% af raforkuþörf Þjóðverja mætt með sólarorku og hefur þetta hlutfall aldrei verið hærra. Met á þessu sviði voru einnig slegin á Spáni og í Bretlandi. Í síðastnefnda landinu hafa kol ekki verið notuð til raforkuframleiðslu síðustu tvær vikurnar. Ein af ástæðunum fyrir þessum uppgangi í sólarorkuframleiðslunni er sú að nú er loftmengun í Evrópu mun minni en venjulega vegna lítillar umferðar á tímum Coronaveirunnar. Sem dæmi um það má nefna að styrkur köfnunarefnisoxíða í andrúmslofti í Bretlandi er nú um 25% lægri en að meðaltali. Hagstætt veðurfar kemur einnig við sögu, en upp á síðkastið hefur verið fremur kalt og sólríkt í Evrópu. Við slíkar aðstæður ná sólarskildir mestum afköstum.
(Sjá frétt ENN 24. apríl sl.).
Greinasafn fyrir merki: Spánn
Endurnýjanleg orka komin fram úr kolunum
Á árinu 2017 framleiddu þjóðir Evrópusambandsins í fyrsta sinn meiri raforka úr endurnýjanlegum orkugjöfum en úr kolum, að því er fram kemur í nýrri skýrslu Sandbag. Framleiðsla endurnýjanlegrar raforku á árinu nam samtals 679 terawattstundum (Twh) en 669 Twh komu frá kolum, sem er um helmingi minna en fyrir fimm árum. Bretland og Þýskaland eiga stærstan þátt í auknum hlut endurnýjanlegrar orku, eða um 56% af heildaraukningunni síðustu þrjú ár. Á árinu 2017 ákváðu stjórnvöld í Hollandi, Ítalíu og Portúgal að stefna að því að leggja kol af sem orkugjafa, en á sama tíma jókst kolanotkun á Spáni. Sömuleiðis er þróunin hæg í Austur-Evrópu.
(Sjá fréttatilkynningu Sandbag 2. febrúar).
Bráðinn kísill notaður sem orkugeymsla
Vísindamenn við Tækniháskólann í Madrid (Universidad Politécnica de Madrid (UPM)) vinna nú að þróun orkugeymslu úr bráðnum kísli, en kísill er algengasta efnið í jarðskorpunni. Kísillinn er þá hitaður upp í 1.400°C með hita frá sólföngurum eða með afgangsorku úr raforkukerfinu og einangraður til að lágmarka varmatap. Þegar þörf er á orkunni er hægt að nota sólarsellur til að breyta hitanum aftur í raforku. Einn rúmmetri af bráðnum kísli getur geymt allt að 1 MWst af raforku, sem er mun betri nýting en í öðrum þekktum efnum. Frumgerð að orkugeymslu af þessu tagi er í smíðum og sótt hefur verið um einkaleyfi á hugmyndinni.
(Sjá frétt Science Daily 7. október).
Milljörðum sóað í illa staðsett orkuver
Um 100 milljarðar bandaríkjadala (um 13.000 milljarðar ísl. kr.) hefðu sparast á síðustu árum ef stjórnvöld í Evrópu hefðu skipulagt staðsetningar endurnýjanlegra raforkuvera betur, að því er fram kemur í skýrslu sem kynnt var á efnahagsráðstefnunni í Davos í vikunni. Í skýrslunni kemur einnig fram að spara hefði mátt 40 milljarða bandaríkjadala (um 5.000 milljarða ísl. kr.) til viðbótar með aukinni samræmingu og öflugri rafstrengjum milli nágrannalanda. Betra skipulag hefði komið í veg fyrir byggingu sólarorkuvera í sólarlitlum löndum og vindorkuvera á skjólsælum stöðum. Sem dæmi má nefna að Spánn fær um 65% meiri orku frá sólinni en Þýskaland, en þó hefur Þýskaland byggt upp sólarorkuver með 600% meiri afkastagetu en Spánn á síðustu árum.
(Sjá frétt Planet Ark 21. janúar).
Ný tækni í þörungaræktun
Vísindamenn við Háskólann í Alicante hafa fengið einkaleyfi á nýrri gerð ræktunartanka sem gera það mögulegt að ná meiri afköstum í ræktun smásærra þörunga en áður hefur þekkst. Nýjungarnar í þessum búnaði felast m.a. í minni þörf fyrir reglubundna hreinsun, minna viðhaldi og betri nýtingu koltvísýrings og ljóss, auk þess sem auðvelt er að stækka búnaðinn og auka framleiðsluna að sama skapi. Tæknin er enn of dýr til að teljast markaðsvæn, en fræðilega séð geta þörungar sem ræktaðir eru í þessum tönkum gefið af sér mikið magn lífolíu og verðmætra hráefna til framleiðslu á matvælum, lyfjum og snyrtivörum, þ.m.t. fitusýrur, ensím, prótein, vítamín og andoxunarefni, svo eitthvað sé nefnt, allt eftir því hvaða tegundir eru ræktaðar.
(Sjá frétt Science Daily 24. maí).
Botnskröpun jafnvel enn skaðlegri en talið var
Niðurstöður nýrrar spænskrar rannsóknar, sem sagt var frá á heimasíðu Nature í gær, benda til að veiðar með botnvörpu spilli landslagi og lífríki sjávarbotnsins jafnvel enn meira en áður var talið. Veiðarfærin jafni út ójöfnur á yfirborðinu, þyrli upp setlögum og færi þau til, raski eða útrými botnlífverum á svæðinu, blandi mengandi efnum saman við plöntu- og dýrasvif og þannig inn í fæðukeðjuna og stuðli að skaðlegum þörungavexti og súrefnisþurrð.
(Sjá nánar í frétt PlanetArk í dag).