Enska leikhússamstæðan Royal Shakespeare Company (RSC) hefur ákveðið að rifta styrktarsamningi við olíurisann BP frá og með næstu áramótum, en BP hefur styrkt leikhúsin með fjárframlögum allt frá árinu 2011. Ákvörðun RSC er til komin vegna þrýstings frá ungu fólki sem hefur gefið til kynna að tengsl leikhúsanna við olíurisann dragi úr áhuga þeirra á að njóta þess sem leikhúsin hafa að bjóða. Að sögn forsvarsmanna RSC eru þetta skilaboð sem ekki sé hægt að horfa framhjá og því hafi þessi ákvörðun verið tekin, þrátt fyrir þann fjárhagslega missi sem henni fylgir.
(Sjá frétt á heimasíðu RSC 2. október).
Greinasafn fyrir merki: England
Einn tauþvottur skilar allt að 700.000 plastögnum út í fráveituna
Föt úr gerviefnum geta gefið frá sér mikinn fjölda plastagna í hvert sinn sem þau eru þvegin. Þannig getur einn tauþvottur skilað allt að 700.000 smásæjum plastögnum út í umhverfið að því er fram kom í rannsókn vísindamanna við háskólann í Plymouth í Englandi. Föt úr akrýlefnum reyndust langverst hvað þetta varðar og skiluðu frá sér hátt í 730.000 ögnum í hverjum þvotti sem var um 1,5 sinnum meira en föt úr pólýester og 5 sinnum meira en föt úr blöndu af pólýester og bómull. Talsvert af þessum ögnum stöðvast í skólphreinsistöðvum og endar þar í seyru, en aðrar skolast út í ár og höf með fráveituvatninu. Margt bendir til að plastagnir geti haft víðtæk neikvæð áhrif á lífverur og þar með á fæðukeðju manna. Ekki er fullljóst hvaða þættir hafa mest áhrif á losun agna úr fatnaði við þvott, en magnið kann að ráðast af þvottatíma, hönnun á síum og vinduhraða.
(Sjá frétt The Guardian 27. september).
Ostrusveppir ræktaðir í kaffikorgi
Samtök með aðsetur í Devon í Englandi hófu nýlega að nýta kaffikorg til ræktunar á ostrusveppum í ónotuðu skrifstofuhúsnæði í Exeter. Áætlað er að Bretar drekki um 80 milljón bolla af kaffi daglega, en innan við 1% af kaffibaununum kemst í raun alla leið í bollann. Afgangurinn fer að mestu leyti í urðun. Kaffikorgur er næringarríkur og sveppirnir góður próteingjafi. Aðstandendur verkefnisins benda á að ræktun af þessu tagi henti einkar vel í borgum þar sem mest fellur til af úrgangi og mest eftirspurn er eftir fæðu. Það er von þeirra að verkefnið stuðli jafnframt að eflingu landbúnaðar í öðrum borgum.
(Sjá umfjöllun Waste Management World 19. september).