LEGO setur 2,5 milljarða DKK í sjálfbærnistarfið

Á næstu þremur árum ætlar danski leikfangaframleiðandinn LEGO að verja 2,5 milljörðum danskra króna (um 54 milljörðum ISK) til að gera reksturinn og framleiðsluvörurnar umhverfisvænni. Þetta verður m.a. gert með því að hætta að nota poka úr einnota plasti utan um lausa kubba og nota þess í stað FSC-vottaða bréfpoka. Þá er stefnt að því að fyrirtækið verði orðið kolefnishlutlaust árið 2022, en því verður m.a. náð með eigin raforkuframleiðslu með sólarskjöldum. Þá er ætlunin að minnka vatnsnotkun um 10% fram til 2022 – og frá og með árinu 2025 verður enginn úrgangur sendur til urðunar. Loks má nefna viðleitni til að kenna börnum um sjálfbæra þróun í gegnum leik þeirra að LEGO-kubbum. Allt er þetta liður í viðleitni LEGO til að styðja við Sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna nr. 4 (Menntun fyrir alla) og 12 (Ábyrg neysla og framleiðsla).
(Sjá frétt á heimasíðu LEGO 15. september).

Stafræn merking efna gefur nýja möguleika

NeilMiklir möguleikar kunna að liggja í svonefndu „sameindalegói“ sem búið er til með því að setja stafræn merki í minnstu einingar sem notaðar eru við framleiðslu á vörum. Þetta auðveldar mjög aðskilnað efna í vörunni og skapar ný tækifæri í endurvinnslu efnis sem annars hefði orðið að úrgangi að notkun lokinni. Þar með stuðlar hugmyndin að hringrásarsamfélagi þar sem úrgangur fellur ekki til. Efnið felur þá í sér upplýsingar um hvað hægt sé að gera við það, öfugt við úrgang sem berst á urðunarstaði samtímans og inniheldur engar upplýsingar. Neil Gershenfeld, prófessor við Tækniháskólann í Massachusetts kynnti þessar hugmyndir á heimsviðskiptaráðstefnunni í Davos í síðustu viku, en tók jafnframt fram að nokkur ár myndu líða áður en þessi þróun færi að hafa veruleg áhrif í heiminum.
(Sjá frétt EDIE í dag).