Engar plastflöskur í Lundúnahálfmaraþoninu

Engar plastflöskur verða leyfðar í Lundúnahálfmaraþoninu sem fram fer nk. sunnudag. Þess í stað fá hlauparar afhenta sérstaka vatnspoka á drykkjarstöðvum, en þessir pokar eru gerðir úr þörungum og brotna auðveldlega niður í náttúrunni. Hlaupararnir geta þá hvort heldur sem er bitið gat á pokann og drukkið vatnið eða borðað pokann með innihaldinu. Þetta fyrirkomulag tengist annarri viðleitni borgaryfirvalda í London til að draga úr notkun á einnota plastflöskum, en talið er að á hverri mínútu sé um ein milljón slíkra flaskna seldar í heiminum. Stór hluti af þeim endar í urðun eða úti í sjó.
(Sjá frétt The Guardian í gær).

Enginn latteskattur

Ríkisstjórn Bretlands hefur hafnað tilmælum umhverfisúttektarnefndar breska þingsins frá því í janúar um að taka upp 25 pensa „latteskatt“ á einnota kaffimál. Í svari ríkisstjórnarinnar til nefndarinnar kemur hins vegar fram að stjórnin fagni því að einstök kaffihús bjóði fólki afslátt af kaffi ef það kemur með fjölnota mál. Mary Creagh, formaður umhverfisúttektarnefndarinnar, segir að þessi viðbrögð ríkisstjórnarinnar sýni að þar á bæ sé meira um orð en gjörðir. Einnota umbúðir skapa nú þegar mikinn vanda í Bretlandi og árlega henda Bretar um 2,5 milljörðum einnota kaffimála í ruslið.
(Sjá frétt Independent 9. mars).

Má búast við latteskatti?

Kaffihúsakeðjan Starbucks í London ætlar að gera tilraun með að rukka viðskiptavini um 5 pens aukalega (um 7 ísl. kr.) fyrir hvern kaffiskammt sem seldur er í einnota málum. Með þessu vill Starbucks draga úr sóun, en árlega henda Bretar um 2,5 milljörðum einnota kaffibolla í ruslið. Ef þessum bollum væri öllum raðað enda við enda myndu þeir ná fimm og hálfan hring í kringum jörðina. Fimmpensagjaldið verður fyrst um sinn bara lagt á til reynslu í 20-25 kaffihúsum í þrjá mánuði, frá og með febrúar. Ágóðinn verður notaður til rannsókna á því hvernig gjaldið hefur áhrif á viðhorf og hegðun viðskiptavina. Ákvörðun Starbucks var kynnt sama dag og umhverfisúttektarnefnd breska þingsins beindi þeim tilmælum til ríkisstjórnarinnar að taka upp 25 pensa „latteskatt“ með það að markmiði að árið 2023 verði allir einnota kaffibollar farnir að skila sér í endurvinnslu.
(Sjá frétt The Sun 5. janúar).

1.400 einnota kaffimál í breska umhverfisráðuneytinu á degi hverjum

Um 1.400 einnota kaffimál eru notuð í breska umhverfisráðuneytinu á hverjum einasta degi og á síðustu 5 árum keypti ráðuneytið 2,5 milljónir slíkra íláta þrátt fyrir fyrirheit umhverfisráðherrans um að draga úr magni plastúrgangs. Þessar upplýsingar koma fram í gögnum sem Frjálslyndir demókratar hafa fengið afhentar í krafti upplýsingalaga. Hingað til hefur mötuneyti ráðuneytisins ekki boðið upp á neina fjölnotabolla, en 200 slíkir voru loks keyptir 31. október sl. Frjálslyndir demókratar hafa lagt til að lagt verði 5 pensa gjald (7 ísl. kr.) á einnota kaffimál, enda hafi gjaldtaka af plastpokum skilað miklum árangri í baráttunni við sóun. Neðri deild breska þingsins hefur einnig verið stórtæk í einnota málunum, en á síðasta ári keypti kaffistofa þingsins 1.000 slík mál fyrir hvern þingmann. Áætlað er að á hverju ári hendi Bretar um 3 milljörðum einnota mála og að aðeins eitt af hverjum 400 þeirra fari í endurvinnslu.
(Sjá frétt The Guardian 21. nóvember).

Viðgerðir og endurnotkun í brennidepli

73860Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins vinnur að nýrri áætlun sem ætlað er stuðla að því að hlutir, allt frá raftækjum til bygginga, séu lagfærðir eða endurunnir í stað þess að fleygja þeim og taka nýja í notkun í þeirra stað. Þessu á m.a. að ná fram með því að skylda framleiðendur til að gefa ráð um viðgerðir og niðurrif í notkunarleiðbeiningum í stað þess að tilgreina einungis hvernig staðið skuli að förgun. Sjónum verður sérstaklega beint að nýtingu á plasti, en um helmingur alls þess plasts sem tekið er í notkun endar í urðun eða á hafi úti með tilheyrandi hættu fyrir dýralíf. Vonast er til að þetta ýti undir vöxt hringrásarhagkerfisins á kostnað einnotahagkerfisins sem víða er við lýði. Gert er ráð fyrir að umrædd áætlun líti formlega dagsins ljós í næsta mánuði.
(Sjá frétt PlanetArk í dag).