Sænski fataframleiðandinn Asket byrjaði á dögunum að birta upplýsingar um umhverfisáhrif fatnaðar á kvittunum sem fylgja vörunni til kaupenda. Á kvittununum má sjá loftslagsáhrif, vatnsnotkun og orkunotkun hvers þreps í framleiðslu vörunnar, en þessar upplýsingar byggja á lífsferilsgreiningum (LCA) sem rannsóknarfyrirtækið Rise hefur gert fyrir Asket. Til að byrja með fylgja kvittanir af þessu tagi fjórum mest seldu flíkum fyrirtækisins, en um mitt næsta ár verða allar vörur komnar inn í þetta kerfi. Með þessu framtaki vill Asket auka meðvitund neytenda um áhrif vörunnar, þannig að fólk fari að kaupa minna og nota fötin sín lengur.
(Sjá frétt tískutímaritsins Habit 24. september).
Greinasafn fyrir flokkinn: Vistvæn hönnun
Örsmá vindorkuver á teikniborðinu
Kínverskir vísindamenn hafa þróað búnað sem getur breytt vindorku í rafmagn, jafnvel þótt vindhraðinn sé ekki nema 1,6 m/sek. Um er að ræða hylki með tveimur plastborðum innan í, sem flaksast til í vindinum. Slík hylki gætu jafnvel framleitt rafmagn úr loftstraumum sem myndast þegar göngufólk sveiflar höndunum. Vonir standa til að hægt verði að nota búnað af þessu tagi til að knýja öryggismyndavélar, skynjara og jafnvel veðurstöðvar á afskekktum stöðum.
(Sjá frétt The Guardian 23. september).
LEGO setur 2,5 milljarða DKK í sjálfbærnistarfið
Á næstu þremur árum ætlar danski leikfangaframleiðandinn LEGO að verja 2,5 milljörðum danskra króna (um 54 milljörðum ISK) til að gera reksturinn og framleiðsluvörurnar umhverfisvænni. Þetta verður m.a. gert með því að hætta að nota poka úr einnota plasti utan um lausa kubba og nota þess í stað FSC-vottaða bréfpoka. Þá er stefnt að því að fyrirtækið verði orðið kolefnishlutlaust árið 2022, en því verður m.a. náð með eigin raforkuframleiðslu með sólarskjöldum. Þá er ætlunin að minnka vatnsnotkun um 10% fram til 2022 – og frá og með árinu 2025 verður enginn úrgangur sendur til urðunar. Loks má nefna viðleitni til að kenna börnum um sjálfbæra þróun í gegnum leik þeirra að LEGO-kubbum. Allt er þetta liður í viðleitni LEGO til að styðja við Sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna nr. 4 (Menntun fyrir alla) og 12 (Ábyrg neysla og framleiðsla).
(Sjá frétt á heimasíðu LEGO 15. september).
Verðlaunabúnaður fangar örplast úr hjólbörðum
Hópur meistaranema við Imperial College og Royal College of Art í London hefur þróað búnað sem fangar örplastagnir úr hjólbörðum um leið og þær myndast. Fyrir þetta fá nemarnir bresku James Dyson verðlaunin og öðlast um leið rétt til að keppa um alþjóðlegu James Dyson verðlaunin sem afhent verða í 16. sinn í nóvember. Flestir vita að hjólbarðar slitna við notkun en færri virðast velta því fyrir sér hvað verður um efnið sem yfirgefur hjólbarðana við slitið. Áætlað er að árlega falli til um 500.000 tonn af örplastögnum úr hjólbörðum í Evrópu – og á heimsvísu er talið að slíkar agnir séu um helmingur af öllu svifryki frá umferð, auk þess að vera næststærsta uppspretta örplastmengunar í hafinu. Búnaðurinn sem um ræðir nýtir stöðurafmagn og loftstreymi frá hjólbörðum á hreyfingu til að soga til sín agnirnar um leið og þær losna. Uppfinningafólkið segir að þeim hafi þannig tekist að fanga 60% af öllum ögnum sem hjólbarðarnir gefa frá sér. Agnirnar má síðan endurvinna til að framleiða nýja hjólbarða og ýmsar aðrar vörur.
(Sjá frétt The Guardian í dag).
Nýjar byggingar franska ríkisins að hálfu úr timbri
Emmanuel Macron, forseti Frakklands, hefur tilkynnt að frá og með árinu 2022 skuli allar nýbyggingar sem fjármagnaðar eru af franska ríkinu vera að minnsta kosti að hálfu leyti byggðar úr timbri. Þetta er liður í viðleitni ríkisstjórnarinnar til að ýta undir sjálfbæra borgarþróun. Áður höfðu borgaryfirvöld í París lýst því yfir að timbur verði notað í auknum mæli sem byggingarefni fyrir Ólympíuleikana í París 2024. Þannig verða allar byggingar sem reistar verða í tengslum við leikana, og eru 8 hæðir eða minna, alfarið reistar úr timbri.
(Sjá frétt Planet/Ark Reuter 7. febrúar).
Úrgangi breytt í verðmætt grafen
Vísindamenn við Rice háskólann hafa fundið leið til að breyta hvaða kolefnisríka úrgangi sem er í grafen með eldsnöggri hitun í hvarftanki upp í rúmlega 2.700°C. Afurðin kallast „blossagrafen“ (e. flash graphene) og hefur m.a. þann kost að auðvelt er að aðskilja grafenlögin og fá þannig grafennet sem er aðeins ein sameind á þykkt. Efnið er firnasterkt og getur m.a. nýst sem styrktarefni í steinsteypu. Að sögn vísindamannanna þarf ekki nema 0,1% af grafeni í steypuna til að minnka kolefnisspor hennar um þriðjung, þar sem með þessu minnkar verulega þörfin fyrir framleiðslu og flutning á sementi. Sementframleiðsla orsakar nú um 8% af allri koldíoxíðlosun af mannavöldum í heiminum. Blossagrafenið er mun ódýrara en það grafen sem nú þekkist. Orkutap frá framleiðslunni er óverulegt þar sem varmaorkan binst nær öll í efninu. Önnur efni en kolefni losna frá hvarftankinum í loftkenndu formi og þau efni, þ.m.t. súefni og köfnunarefni, má auðveldlega fanga og jafnvel nýta.
(Sjá frétt ScienceDaily 27. janúar).
Fyrstu Svansmerktu útileiktækin
Danska fyrirtækið CADO hóf nýlega framleiðslu á fyrstu Svansmerktu útileiktækjunum í heiminum, en þessi tæki henta vel í „útiræktina“, þ.e. á líkamsræktarsvæði utandyra. Til þess að fá vottun Svansins þurfa útileiktæki að uppfylla ýmsar kröfur sem ná til alls lífsferils tækjanna. Sem dæmi má nefna að efni sem notuð eru í yfirborðsmeðhöndlun þurfa að uppfylla tilteknar kröfur, mæta þarf viðmiðum um notkun endurunninna málma og þegar tækin hafa lokið hlutverki sínu þarf að vera auðvelt að aðskilja málma og önnur efni þannig að hægt verði að nota þau á nýjan leik. Auk þess eru gerðar kröfur um notagildi og öryggi tækjanna, um endingu þeirra og veðraþol.
(Sjá frétt á heimasíðu Svansins í Svíþjóð 16. október).
Croissantbakstur lykillinn að orkugeymslum framtíðar?
Vísindamenn við Queen Mary háskólann í London hafa hugsanlega fundið nýja og afar árangursríka leið til að geyma orku í orkukerfum. Hugmyndin byggir á sömu aðferðum og notaðar eru við croissantbakstur, þar sem deigið er þjappað og flatt út í þunn lög. Vísindamennirnir beittu svipaðri aðferð til að búa til örþunna fjölliðuhúðaða torleiðaraþétta (e. dielectric capacitors), en slíkir þéttar hafa hingað til, auk venjulegra rafhlaðna og rafefnaþétta (e. electrochemical capacitors), verið eitt af þremur helstu tólunum til að geyma raforku. Nýjungin sem hér um ræðir byggir á að þjappa filmunni í þunn lög, en þannig reyndist mögulegt að geyma 30 sinnum meiri raforku en í bestu torleiðaraþéttum sem fengist hafa hingað til. Þéttar af þessu tagi henta einkar vel til að taka við raforku í óreglulegum skömmtum, svo sem frá sólar- og vindorkuverum, og skila henni mjög hratt út í kerfið á nýjan leik þegar orkuþörfin er meiri.
(Sjá frétt Science Daily 18. október).
Nýtt plast sem hægt er að endurvinna endalaust
Vísindamenn við Berkeley-háskólann í Kaliforníu hafa þróað „næstu kynslóð“ af plasti sem hægt er að endurvinna aftur og aftur án þess að gæðin minnki. Þetta nýja plast, polýdíketóenamín (PDK) hefur þann eiginleika að hægt er að brjóta það niður í grunnsameindir (einliður (e. monomers)) í sterkri sýrulausn sem rýfur jafnframt efnatengi sem binda íblöndunarefni (litarefni, mýkingarefni o.s.frv.) við plastið. Eftir standa þá hreinar einliður sem hægt er að raða saman í nýtt PDK-plast sem er jafngott og það upphaflega og sem hægt er að gefa ákjósanlega eiginleika með nýjum íblöndunarefnum.
(Sjá frétt Waste Management World 17. september).
Fyrsti Svansmerkti skóli Noregs opnaður
Á dögunum var fyrsta Svansmerkta skólabyggingin í Noregi tekin í notkun í Røyken, en til að fá Svaninn þurfa byggingar að uppfylla strangar kröfur um byggingarefni, byggingaraðferðir, efnanotkun, orkunýtingu, lýsingu, loftræsingu, hljóðvist og sitthvað fleira. Skólinn er byggður úr timbri og rúmar 130 nemendur í 14 skólastofum. Byggingartíminn var tvö ár og byggingarkostnaður um 170 milljónir norskra króna (tæplega 2,4 milljarðar ísl. kr.). Þetta er „skóli fyrir framtíðina“, eins og Anita Winsnes, framkvæmdastjóri Svansins í Noregi, orðaði það við opnunarathöfnina.
(Sjá frétt á heimasíðu Svansins í Noregi 23. ágúst).