Sænski fataframleiðandinn Asket byrjaði á dögunum að birta upplýsingar um umhverfisáhrif fatnaðar á kvittunum sem fylgja vörunni til kaupenda. Á kvittununum má sjá loftslagsáhrif, vatnsnotkun og orkunotkun hvers þreps í framleiðslu vörunnar, en þessar upplýsingar byggja á lífsferilsgreiningum (LCA) sem rannsóknarfyrirtækið Rise hefur gert fyrir Asket. Til að byrja með fylgja kvittanir af þessu tagi fjórum mest seldu flíkum fyrirtækisins, en um mitt næsta ár verða allar vörur komnar inn í þetta kerfi. Með þessu framtaki vill Asket auka meðvitund neytenda um áhrif vörunnar, þannig að fólk fari að kaupa minna og nota fötin sín lengur.
(Sjá frétt tískutímaritsins Habit 24. september).
Greinasafn fyrir merki: umhverfisvitund
Minni innkaup gera fólk hamingjusamara en grænni innkaup
Umhverfismeðvituðu ungu fólki sem kaupir lítið af vörum líður að meðaltali betur en umhverfismeðvituðum jafnöldrum þeirra sem kaupa umhverfisvænar vörur. Þetta kom fram í langtímarannsókn Sabrínu Helm og félaga við Háskólann í Arizona, sem sagt er frá í tímaritinu Young Consumers. Í rannsókninni voru ýmsar spurningar lagðar fyrir fólk af Þúsaldarkynslóðinni (f. 1980-2000) sem allt hafði tamið sér umhverfisvæn gildi. Að mati rannsakendanna má skipta þessum hópi í tvo undirhópa, annars vegar þau sem hafa dregið úr neyslu, m.a. með því að forðast óþörf innkaup og með því að gera við hluti til að láta þá endast lengur og hins vegar þau sem „kaupa grænt“, þ.e. kaupa hluti sem hafa minni neikvæð áhrif á umhverfið en aðrir hlutir til sömu nota. Fyrrnefndi hópurinn var hamingjusamari og upplifði minni streitu. Sabrína Helm og félagar draga m.a. þá ályktun af þessu að efnishyggju fylgi aukið álag, jafnvel þótt efnishyggjan sé „græn“. Álagið getur stafað af meiri skuldum og flóknara lífi sem fylgir eignarhaldi og rekstri hluta.
(Sjá frétt Science Daily 8. október).
Bátur úr endurunnu plasti sjósettur í London
Á dögunum sjósettu umhverfissamtökin Hubbub bát sem er að 99 hundraðshlutum gerður úr endurunnu plasti. Báturinn, sem nefndur hefur verið Poly-Mer, verður notaður til að safna plastrusli af hafnarsvæðum Lundúna og vekja fólk í leiðinni til vitundar um mikilvægi þess að umgangast plast af ábyrgð og varúð þannig að það lendi ekki í sjónum. Poly-Mer er fyrsti báturinn í heiminum sem smíðaður er úr plastúrgangi.
(Sjá frétt á heimasíðu Recycling & Waste World 2. nóvember).
Umhverfismeðvituð aldamótabörn
Svíar sem fæddir eru á fyrsta áratug 21. aldar eru umhverfismeðvitaðri og félagssinnaðri en fólk sem fæddist á 10. áratugnum og leggja meiri áherslu á jafnrétti, umhyggju, velferð og sjálfbærni. Aldamótakynslóðin er almennt þeirrar skoðunar að árið 2040 verði meira borðað af heimaræktuðum mat og grænmetisfæði en nú og að heimili og borgir verði að meira leyti sjálfum sér nóg um fæðu. Þetta kom fram í viðamikilli viðhorfskönnun sem sænska verslunarkeðjan ICA lét gera í vetur og vor.
(Sjá frétt Aktuell Hållbarhet 10. maí).
Konur grænni en karlar
Norskar konur hugsa meira um umhverfið en karlkyns landar þeirra ef marka má reglubundna neytendakönnun sem Respons Analyse gerði fyrir Svaninn í Noregi. Sem dæmi um þetta má nefna að 57% kvenna svipast um eftir Svansmerkinu þegar þær kaupa inn, en aðeins 39% karla. Konur eru einnig líklegri en karlar til að flokka úrgang og sniðganga einnotavörur. Í þeim þjóðfélagshópi sem hugsar mest um umhverfismál eru konur í miklum meirihluta.
(Sjá frétt á heimasíðu Svansins í Noregi 8. mars).