Royal Shakespeare Company afþakkar styrki frá BP

Enska leikhússamstæðan Royal Shakespeare Company (RSC) hefur ákveðið að rifta styrktarsamningi við olíurisann BP frá og með næstu áramótum, en BP hefur styrkt leikhúsin með fjárframlögum allt frá árinu 2011. Ákvörðun RSC er til komin vegna þrýstings frá ungu fólki sem hefur gefið til kynna að tengsl leikhúsanna við olíurisann dragi úr áhuga þeirra á að njóta þess sem leikhúsin hafa að bjóða. Að sögn forsvarsmanna RSC eru þetta skilaboð sem ekki sé hægt að horfa framhjá og því hafi þessi ákvörðun verið tekin, þrátt fyrir þann fjárhagslega missi sem henni fylgir.
(Sjá frétt á heimasíðu RSC 2. október).

Vaxandi sjálfbærnikröfur hjá sænskum bönkum

Á síðasta ári skerptu allir sænskir bankar á kröfum sínum um sjálfbærniáherslur verkefna og fyrirtækja sem bankarnir fjárfesta í eða veita lán, að því er fram kemur í árlegri úttekt Fair Finance Guides. Ekobanken och JAK eru sem fyrr þeir bankar sem gera mestar kröfur og fá þeir nánast fullt hús stiga í úttektinni. Swedbank og SEB skora hæst af stóru bönkunum, báðir með um 60% frammistöðu. Sem dæmi um nýjar kröfur má nefna að SEB birtir nú skýrslur um kolefnisspor allra sinna sjóða, Handelsbanken hefur sett nokkur fyrirtæki á svartan lista fyrir að spilla umhverfinu og ganga gegn mannréttindum, Länsförsäkringar lækkuðu hámarkshlutdeild kolavinnslu í veltu fyrirtækja úr 50% í 20% og Nordea tók upp ný viðmið til að koma í veg fyrir að bankinn stuðli að skattaflótta með ráðgjöf sinni. Enn gengur bönkunum hins vegar heldur illa að standa við orð sín og fjárfesta sumir hverjir enn í fyrirtækjum sem eyða regnskógum, fjármagna pálmaolíuiðnaðinn og níðast á réttindum frumbyggja í Asíu.
(Sjá frétt Aktuell Hållbarhet 15. janúar).

Kaþólska kirkjan losar fé úr jarðefnaeldsneytisgeiranum

Allmargar stofnanir kaþólsku kirkjunnar ætla að losa sig við hlutabréf sín í kola-, olíu- og gasiðnaði. Heildarupphæð þessara fjármagnsflutninga liggur ekki fyrir en þetta verður stærsta fjárlosunaraðgerð trúartengdra stofnana hingað til. Christiana Figueres, fyrrv. framkvæmdastjóri Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna, hefur fagnað þessu framtaki, enda sé það bæði skynsamlegt frá fjárhagslegu sjónarmiði og siðferðileg nauðsyn. Tilkynningin um þessa aðgerð kirkjustofnananna var birt 3. október, á dánardægri heilags Frans frá Assisi og á rætur í páfabréfinu Laudato Si sem nafni hans, Frans páfi, skrifaði vorið 2015.
(Sjá frétt The Guardian 3. október).

Fjárfestar þrýsta á bílaframleiðendur að gera betur í loftslagsmálum

4096-160Hópur 250 alþjóðlegra fjárfesta, sem samtals ræður yfir hlutabréfum að andvirði meira en 24.000 milljarðar dollara (um 3 milljónir milljarða ísl. kr.) hefur skorað á bílaframleiðendur að flýta aðlögun sinni að kolefnisgrönnum heimi. Kröfur stjórnvalda um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fari vaxandi og hefðbundin bílaframleiðsla muni þurfa að takast á við miklar áskoranir vegna breyttrar eftirspurnar og samkeppni frá aðilum á borð við Tesla og Google sem hafi tekið forystu í þróun og framleiðslu rafbíla og sjálfkeyrandi bíla. Brýn þörf sé á að móta stefnu fyrirtækjanna til langs tíma til að þau verði áfram álitlegur fjárfestingarkostur.
(Sjá frétt The Guardian 12. október).

RBS dregur verulega úr „svörtum fjárfestingum“

3500Á síðasta ári dró Royal Bank of Scotland úr fjárfestingum í olíu- og gasvinnslufyrirtækjum um 70% og tvöfaldaði á sama tíma lán til uppbyggingar í endurnýjanlegri orku. Bankinn hefur hingað til verið ein helsta uppspretta fjármagns til leitar og vinnslu jarðefnaeldsneytis en félagasamtök sem berjast gegn loftslagsbreytingum hafa beitt miklum þrýstingi til að knýja fram breyttar áherslur. Þessi stefnubreyting bankans hefur einkum áhrif á fyrirtæki í Norður-Ameríku og Asíu en bankinn mun m.a. hætta öllum viðskiptum við fyrirtæki í Kanada sem vinna olíu úr olíusandi. Sú þróun að bankar og aðrar stofnanir dragi úr svörtum fjárfestingum tengist vissulega einnig lækkandi olíuverði og þ.a.l. verri stöðu fyrirtækja í olíu- og gasvinnslu. Óvíst er hvernig þessir aðilar munu bregðist við ef markaðurinn styrkist á næstu misserum.
(Sjá frétt the Guardian 17. apríl).

Ríkissjóður Noregs hættir að fjárfesta í 52 „svörtum“ fyrirtækjum

2000Norski olíusjóðurinn hefur ákveðið að hætta að fjárfesta í fyrirtækjum sem fá meira en 30% tekna sinna af kolavinnslu. Þetta er fyrsta aðgerðin af þessu tagi eftir að tilkynnt var í júní 2015 að sjóðurinn hygðist draga úr „svörtum“ fjárfestingum. Aðgerðin útilokar 52 fyrirtæki sem sjóðurinn hefur fjárfest í, en flest þeirra eru staðsett í Bandaríkjunum og Kína. Sjóðurinn, sem er sá stærsti sinnar tegundar í heiminum, mun þó áfram eiga hlut í þremur stærstu kolaframleiðendum heims, þar sem umsvif þeirra eru slík að minna en 30% tekna þeirra kemur frá kolavinnslu. Samdráttur í „svörtum“ fjárfestingum mun halda áfram út árið og á næstunni mun Seðlabanki Noregs kynna fleiri aðgerðir í þá veru.
(Sjá frétt the Guardian í dag).

Osló losar allt sitt fé úr jarðefnaeldsneytisgeiranum

oslodivest750 (160x84)Osló er fyrsta höfuðborgin í heiminum sem ákveður að losa um allar fjárfestingar sínar í kola-, olíu- og gasfyrirtækjum til að sporna gegn loftslagsbreytingum. Þetta þýðir að fjárfesting upp á 9 milljarða Bandaríkjadala (um 1.125 milljarða ísl. kr.) verður færð úr jarðefnaeldsneyti í aðrar greinar. Þessi fjárlosun er hluti af málefnasamningi nýs meirihluta græningja, jafnaðarmanna og vinstri manna í borgarstjórn. Áður hafa 45 borgarstjórnir víða um heim tekið sambærilega ákvörðun um fjárlosun, en sem fyrr segir er Osló fyrsta höfuðborgin sem stígur þetta skref.
(Sjá frétt EcoWatch 19. október).

Ríkissjóður Noregs dregur úr „svörtum fjárfestingum“

deinvestNorska ríkið hefur samþykkt að láta af „svörtum fjárfestingum“, þ.e. fjárfestingum í fyrirtækjum og félögum sem byggja afkomu sína á kolavinnslu. Þessi ákvörðun er talin vera stærsta einstaka skrefið sem tekið hefur verið á heimsvísu til að draga úr svörtum fjárfestingum. Samþykktin þýðir að norska ríkið mun selja eignir upp á u.þ.b. 8 milljarða Bandaríkjadala (um 1.000 milljarða ísl. kr.) og mun aðgerðin hafa áhrif á rúmlega 120 fyrirtæki sem stunda vinnslu jarðefnaeldsneytis. Ráðamenn í Noregi segja ákvörðunina ekki einungis vera tekna til að reyna að sporna við loftslagsvandanum heldur séu slíkar fjárfestingar einnig áhættusamar vegna sífellt strangari krafna Sameinuðu þjóðanna og alþjóðasamfélagsins um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Frjáls félagasamtök sem hafa beitt sér fyrir fjárlosun (e. divestment) í jarðefnaeldsneytisgeiranum telja að ákvörðun Norðmanna muni gefa tóninn fyrir önnur ríki og fjárfestingarsjóði.
(Sjá frétt the Guardian í dag).