Á næstu þremur árum ætlar danski leikfangaframleiðandinn LEGO að verja 2,5 milljörðum danskra króna (um 54 milljörðum ISK) til að gera reksturinn og framleiðsluvörurnar umhverfisvænni. Þetta verður m.a. gert með því að hætta að nota poka úr einnota plasti utan um lausa kubba og nota þess í stað FSC-vottaða bréfpoka. Þá er stefnt að því að fyrirtækið verði orðið kolefnishlutlaust árið 2022, en því verður m.a. náð með eigin raforkuframleiðslu með sólarskjöldum. Þá er ætlunin að minnka vatnsnotkun um 10% fram til 2022 – og frá og með árinu 2025 verður enginn úrgangur sendur til urðunar. Loks má nefna viðleitni til að kenna börnum um sjálfbæra þróun í gegnum leik þeirra að LEGO-kubbum. Allt er þetta liður í viðleitni LEGO til að styðja við Sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna nr. 4 (Menntun fyrir alla) og 12 (Ábyrg neysla og framleiðsla).
(Sjá frétt á heimasíðu LEGO 15. september).
Greinasafn fyrir merki: urðun
Sjö flíkur í ruslið frá hverjum Breta
Hver einasti íbúi Bretlands mun senda 7 flíkur í urðun í vor í framhaldi af árlegri tiltekt í þarlendum fataskápum, að því er fram kemur í könnun sem gerð var með stuðningi Sainsbury’s verslunarkeðjunnar. Samtals munu 680 milljón stykki yfirgefa breska fataskápa þetta vorið, þ.e. 19 stykki á mann, og þar af fara væntanlega 235 milljón stykki í ruslatunnuna og þaðan í urðun. Öll þessi föt væri hægt að endurnota eða endurvinna en helsta ástæða þess að þeim er hent engu að síður er að fólk gerir sér ekki grein fyrir að jafnvel ónýt föt nýtist hjálparstofnunum til fjáröflunar. Þegar fólk var spurt um ástæður þess að það hendi fötum í ruslið í stað þess að gefa þau til hjálparsamtaka, svöruðu 49% að þau vissu ekki að ónýt föt kæmu þessum samtökum að gagni, 16% sögðust ekki hafa tíma til að fara með fötin á þar til gerða móttökustaði og 6% vissu ekki að hægt væri að endurvinna textílvörur.
(Sjá frétt The Guardian 6. apríl).
Engin úrgangur urðaður frá brugghúsum MillerCoors
Bjórframleiðandinn MillerCoors, sem framleiðir m.a. Miller bjórinn, tilkynnti á dögunum að sá árangur hefði náðst að ekkert af þeim úrgangi sem fellur til í brugghúsum fyrirtækisins í Bandaríkjunum sé urðaður. Fyrirtækið ákvað árið 2009 að hefja aðgerðir til að minnka úrgang og hefur nú náð úrgangsmagninu niður um 89%. Á sama tíma hafa þau unnið að því að finna endurvinnslufarveg fyrir þann úrgang sem verður til í brugghúsunum og nú fara næstum 100% alls úrgangs í efnisendurvinnslu en lítill hluti er sendur í orkuvinnslu. Fyrirtækið mun nú leggja áherslu á að gera aðra hluta framleiðslukeðjunnar urðunarlausa til að draga úr umhverfisáhrifum fyrirtækisins í heild.
(Sjá frétt CNBC 17. febrúar).
Um 8 milljón tonn af plasti í hafið árlega
Um 8 milljón tonn af plastúrgangi enda í hafinu á ári hverju samkvæmt nýrri rannsókn National Centre of Ecological Analysis and Synthesis (NCEAS), en hingað til hefum mönnum gengið illa að áætla hversu mikið magn væri þarna um að ræða. Í rannsókninni voru skoðaðar úrgangstölur frá 192 löndum og reiknað út frá þeim að 4,8-12,7 milljónir tonna af plasti hefðu borist á haf út árið 2010. Miðgildið var 8 milljón tonn. Plastrusl er orðið stórt vandamál fyrir vistkerfi sjávar, þar sem það getur kæft eða kyrkt sjávardýr, auk þess sem plastið getur ferjað eiturefni inn í fæðukeðjuna. Plastið í sjónum á m.a. uppruna sinn að rekja til illa rekinna opinna urðunarstaða og rangrar meðhöndlunar almennings á plastúrgangi. Aukin áhersla á úrgangsforvarnir og betri úrgangsstjórnun eru því lykilatriði í viðleitninni til að draga úr þessum vanda.
(Sjá frétt EDIE í dag).
Umhverfismál í ólestri í Sochi
Umhverfisverndarsamtökin WWF gagnrýna skipuleggjendur vetrarólympíuleikanna í Sochi harðlega og hafa hætt samstarfi við þá vegna þess sem þeir kalla „innantóm orð“ um umhverfismál. Heimamenn í samtökunum Echo Waschta taka undir þessa gagnrýni og telja yfirlýsingar um græna og mengunarlausa leika lítils virði þegar við blasa ólöglegir ruslahaugar, byggingarúrgangur í nærliggjandi vatnsföllum og eyðilögð svæði innan þjóðgarðs. Verst mun ástandið vera í ánni Mzymta sem sér stórum hluta af Sochi fyrir drykkjarvatni. Sagt er að áin hafi verið algjörlega eyðilögð vegna framkvæmda við vegi og járnbrautir.
(Sjá frétt Miljöaktuellt 8. janúar).
Ólögleg urðun við Sochi
Svo virðist sem Rússar standi ekki við fyrirheit um að vetrarólympíuleikarnir í Sochi verði þeir grænustu í sögunni. Þar átti eingöngu að nota endurnýjanlegt efni og engum úrgangi átti að farga, hvorki byggingarúrgangi né öðru. AP-fréttastofan komst hins vegar að því á dögunum að mikið magn af blönduðum úrgangi hefur verið flutt á urðunarstað sem rússnesku járnbrautirnar reka við þorpið Akhshtyr, án starfsleyfis. Reyndar fylgir sögunni að starfsleyfi myndi ekki fást þótt sótt væri um það, þar sem urðunarstaðurinn sé á vatnsverndarsvæði. Haft er eftir talsmanni Greenpeace að þarna snúist „úrgangsforvarnir“ um að koma úrgangi úr augsýn.
(Sjá frétt NewsDaily í gær).
Gríðarleg verðmæti tapast í urðun
Árlega tapast 2,5 milljarðar sterlingspunda (um 470 milljarðar ísl. kr.) út úr bresku hagkerfi vegna urðunar úrgangs sem hefði mátt nýta betur. Þessum verðmætum væri hægt að bjarga með því að takmarka eða banna urðun úrgangsflokka á borð við matvæli, klæði, timbur og plast, með svipuðum hætti og þegar hefur verið gert með úr sér gengna bíla og raftækjaúrgang. Þetta kemur fram í rannsókn sem unnin var af Green Alliance í Bretlandi. Við kynningu á niðurstöðunum kom m.a. fram að urðun væri enn „hin sjálfgefna leið“ og að því þyrfti að breyta.
(Sjá frétt EDIE í gær).
Ör vöxtur í sorpbrennslu
Gert er ráð fyrir að fjárfesting í evrópskum sorporkuverum verði komin í 5 milljarða dollara (tæplega 650 milljarða ísl. kr.) árið 2016. Þetta er afleiðing af viðleitni stjórnvalda til að draga úr urðun og losun gróðurhúsalofttegunda. Á næstu árum þarf fyrirsjáanlega að leggja mikið fé í endurbætur á eldri stöðvum til að þær nái að uppfylla nýjustu kröfur um hreinsun útblásturslofts. Árið 2012 féllu til um 265 milljónir tonna af óflokkuðum heimilisúrgangi í Evrópu, en á heimsvísu var magnið nálægt 1,3 milljörðum tonna. Gert er ráð fyrir að þessi tala verði komin í 2,2 milljarða tonna árið 2025, og að þá verði árlegur kostnaður vegna úrgangsmeðhöndlunar um 375 milljarðar dollara (um 47.000 milljarðar ísl.kr.), sem er um 83% hækkun frá því sem nú er.
(Sjá frétt EDIE 27. febrúar).