Á næstu þremur árum ætlar danski leikfangaframleiðandinn LEGO að verja 2,5 milljörðum danskra króna (um 54 milljörðum ISK) til að gera reksturinn og framleiðsluvörurnar umhverfisvænni. Þetta verður m.a. gert með því að hætta að nota poka úr einnota plasti utan um lausa kubba og nota þess í stað FSC-vottaða bréfpoka. Þá er stefnt að því að fyrirtækið verði orðið kolefnishlutlaust árið 2022, en því verður m.a. náð með eigin raforkuframleiðslu með sólarskjöldum. Þá er ætlunin að minnka vatnsnotkun um 10% fram til 2022 – og frá og með árinu 2025 verður enginn úrgangur sendur til urðunar. Loks má nefna viðleitni til að kenna börnum um sjálfbæra þróun í gegnum leik þeirra að LEGO-kubbum. Allt er þetta liður í viðleitni LEGO til að styðja við Sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna nr. 4 (Menntun fyrir alla) og 12 (Ábyrg neysla og framleiðsla).
(Sjá frétt á heimasíðu LEGO 15. september).
Greinasafn fyrir merki: sjálfbærni
Nýjar byggingar franska ríkisins að hálfu úr timbri
Emmanuel Macron, forseti Frakklands, hefur tilkynnt að frá og með árinu 2022 skuli allar nýbyggingar sem fjármagnaðar eru af franska ríkinu vera að minnsta kosti að hálfu leyti byggðar úr timbri. Þetta er liður í viðleitni ríkisstjórnarinnar til að ýta undir sjálfbæra borgarþróun. Áður höfðu borgaryfirvöld í París lýst því yfir að timbur verði notað í auknum mæli sem byggingarefni fyrir Ólympíuleikana í París 2024. Þannig verða allar byggingar sem reistar verða í tengslum við leikana, og eru 8 hæðir eða minna, alfarið reistar úr timbri.
(Sjá frétt Planet/Ark Reuter 7. febrúar).
Svanaðu lífið
Á dögunum hleypti skrifstofa Svansins í Svíþjóð af stokkunum nýju átaki undir yfirskriftinni „Svana ditt liv“, eða „Svanaðu lífið“. Tilgangurinn með átakinu er að fá fleiri neytendur til að taka upp sjálfbærari lífsstíl. Sögnin „að svana“ er nýyrði sem nær yfir hvers konar aðgerðir í anda sjálfbærrar þróunar, þ.m.t. að flokka úrgang, ferðast saman, neyta sparlega og kaupa svansmerktar vörur. Orðinu er ætlað að hvetja fólk og gera því auðveldara fyrir, bæði að tala um og lifa sjálfbærara lífi.
(Sjá frétt á heimasíðu Svansins í Svíþjóð 27. janúar).
Sjóðakosningadagur í Svíþjóð á morgun
Á morgun, 21. febrúar, verður efnt til sérstaks sjóðakosningadags í Svíþjóð, þar sem sænskir sparifjáreigendur verða aðstoðaðir við að kjósa fjárfestingarsjóði sem fjárfesta markvisst í fyrirtækjum sem stuðla að sjálfbærri þróun, eða með öðrum orðum að velja sjálfbærari fjármagnsmarkað og þar með grænni framtíð. Í könnun sem gerð var seint á síðasta ári kom fram að 37% sænskra sparifjáreigenda vilja gjarnan leggja fé sitt í sjálfbæra fjárfestingarsjóði og að það sem helst hindri þá í því sé að þeir hafi ekki tíma til að kynna sér áherslur sjóðanna. Skrifstofa Norræna Svansins í Svíþjóð stendur fyrir sjóðakosningadeginum, en frá því í október 2017 hafa fjárfestingarsjóðir sem uppfylla tiltekin skilyrði getað sótt um Svansvottun.
(Sjá frétt Svansins í Svíþjóð 13. febrúar).
Grænasta sjúkrahús heims rís í Grønneköpingki
Frá og með miðju þessu ári geta forsvarsmenn sjúkrahúsa heimsótt háskólasjúkrahúsið í Grønneköpingki til að fá góðar hugmyndir um umhverfisvænar lausnir í rekstrinum heimafyrir. Grønneköpingki er norræn sýndarveruleikaborg með 453.000 íbúum og háskólasjúkrahúsið þar verður ekki beinlínis áþreifanlegt. Þar verður engu að síður safnað saman dæmum um sjálfbærustu lausnirnar sem fyrirfinnast í rekstri sjúkrastofnana á Norðurlöndunum. Sjúkrahúsinu er ætlað að auðvelda rekstraraðilum að kynna sér slíkar lausnir og sjá hvar hægt sé að nálgast þær í raunheimum. Dómnefnd, sem skipuð er umhverfisstjórum nokkurra norrænna sjúkrastofnana, mun velja þær lausnir og þá söluaðila sem kynntir verða á þessum nýja vettvangi og upplýsingarnar verða uppfærðar árlega. Það er Nordic Center för Sustainable Healthcare sem stendur fyrir þessu verkefni, sem m.a. er fjármagnað af Norrænu nýsköpunarmiðstöðinni. Ætlunin er að sjúkrahúsið verði komið í fulla virkni árið 2021.
(Sjá frétt Aktuell Hållbarhet 11. janúar).
Lífræn matvæli geta brauðfætt alla jarðarbúa
Hægt verður að mæta allri fæðuþörf mannkynsins árið 2050 með lífrænt vottuðum matvælum, að því er fram kemur í nýrri þýskri rannsókn. Lífræn ræktun er sjálfbærari en hefðbundinn landbúnaður samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar, en þar sem hún er alla jafna landfrekari þurfi jafnframt að draga úr kjötframleiðslu og matarsóun. Þá felist stór áskorun í að útvega nægjanlegt köfnunarefni til notkunar í ræktuninni, en aukin ræktun köfnunarefnisbindandi belgjurta væri stórt skref í þá átt. Að óbreyttu stefni landbúnaður heimsins í öngstræti vegna mikillar losunar gróðurhúsalofttegunda, ofauðgunar og minnkandi líffræðilegrar fjölbreytni.
(Sjá frétt á Videnskap.dk 14. nóvember).
Umhverfismeðvituð aldamótabörn
Svíar sem fæddir eru á fyrsta áratug 21. aldar eru umhverfismeðvitaðri og félagssinnaðri en fólk sem fæddist á 10. áratugnum og leggja meiri áherslu á jafnrétti, umhyggju, velferð og sjálfbærni. Aldamótakynslóðin er almennt þeirrar skoðunar að árið 2040 verði meira borðað af heimaræktuðum mat og grænmetisfæði en nú og að heimili og borgir verði að meira leyti sjálfum sér nóg um fæðu. Þetta kom fram í viðamikilli viðhorfskönnun sem sænska verslunarkeðjan ICA lét gera í vetur og vor.
(Sjá frétt Aktuell Hållbarhet 10. maí).