Sky hættir að nota einnota plast

Fréttaveitan Sky ætlar að hætta allri notkun á einnota plasti í nýjum vörum fyrir lok þessa árs og árið 2020 á einnota plast að heyra sögunni til í allri starfsemi fyrirtækisins, svo og hjá birgjum þess. Með þessu vill Sky leggja sitt af mörkum til að koma í veg fyrir að plastrusl endi í hafinu, en átakið er hluti af verkefninu Sky Ocean Rescue. Þegar átakið var kynnt sagði Jeremy Darroch, forstjóri Sky, að Sky þyrfti að axla sinn hluta af ábyrgðinni og að fyrirtækið hefði ótrúlega góðar forsendur til að hafa jákvæð áhrif, þar sem starfsemi þess næði inn á 23 milljónir heimila í Evrópu.
(Sjá frétt Sky 17. október).

Loftslagsbreytingar ógna Evrópu

image_xlarge-160x90Vistkerfum, lýðheilsu og hagkerfum Evrópu stafar vaxandi ógn af loftslagsbreytingum að því er fram kemur í nýrri skýrslu Umhverfisstofnunar Evrópu (EEA). Sum svæði eru þó enn viðkvæmari en önnur. Þannig má búast við að suður- og suðausturhluti álfunnar verði illa úti vegna hækkandi hitastigs og þurrka, sem m.a. eykur líkur á uppskerubresti, skerðingu líffræðilegrar fjölbreytni, skógareldum og útbreiðslu sjúkdóma, m.a. vegna landnáms mítla og skordýra sem bera smit. Við Atlantshafið felst ógnin einkum í aukinni flóðahættu og stórfelldum breytingum á lífríki sjávar vegna súrnunar og svæðisbundins súrefnisskorts. Þá verða heimskautasvæðin hart úti vegna mikilla breytinga á lofthita og sjávarhita með tilheyrandi bráðnun íss og jökla. Jákvæð áhrif, svo sem vegna bættra ræktunarskilyrða, vega létt í þessum samanburði. Samkvæmt skýrslunni er brýn þörf fyrir betri og sveigjanlegri áætlanir um aðlögun að loftslagsbreytingum.
(Sjá frétt á heimasíðu EEA í dag).

Meira en helmingur nýrrar orku endurnýjanleg

5763-160Á árinu 2015 var uppsett afl nýrra orkuvera sem framleiða endurnýjanlega orku í fyrsta sinn meira en nýrra orkuvera sem byggja á brennslu jarðefnaeldsneytis. Nettóviðbótin í endurnýjanlega orkugeiranum var 153 GW, sem er 15% aukning frá árinu áður. Dr Fatih Birol, framkvæmdastjóri Alþjóða orkumálastofnunarinnar (IEA), segir að heimsbyggðin sé að verða vitni að orkuskiptum sem muni gerast mjög hratt. Horfur séu á að Evrópubúar séu að tapa frumkvæðinu á þessu sviði til Kínverja og að líkja megi Evrópu við maraþonhlaupara sem hafi fengið dágóða forgjöf í startinu, verið langfyrstur eftir hálft maraþon en sé nú farinn að þreytast, þannig að hinir hlaupararnir séu að síga fram úr hægt og örugglega.
(Sjá frétt The Guardian í dag).

Ræktun dökkra skóga stuðlar að hnattrænni hlýnun

74116Aukin ræktun barrskóga í Evrópu á kostnað laufskóga virðist flýta fyrir hnattrænni hlýnun að því er fram kemur í nýrri rannsókn sem sagt er frá í vísindatímaritinu Science, en hingað til hefur öll skógrækt verið talin til þess fallin að sporna gegn loftslagsbreytingum. Skóglendi í Evrópu hefur stækkað um 196.000 ferkílómetra (u.þ.b. tvöfalda stærð Íslands) frá því um 1750. Þessa stækkun má rekja til mikillar ræktunar dökkgrænna fljótsprottinna barrtrjáa, svo sem furu og grenis, en á þessu tímabili hafa barrskógar í álfunni stækkað um 633.000 ferkílómetra á sama tíma og ljósari laufskógar hafa minnkað um 436.000 ferkílómetra. Ljós lauftré á borð við eik og birki endurkasta meira sólarljósi út í geiminn en dekkri lauftré og munurinn sem í þessu liggur er sagður gera meira en vega upp á móti meiri kolefnisbindingu í fljótsprottnum barrtrjám. Höfundar rannsóknarinnar telja að stjórnvöldum dugi ekki að taka einungis tillit til kolefnisbindingar í stefnumótun sinni í skógrækt, heldur þurfi líka að taka lit skógarins með í reikninginn, svo og áhrif hans á jarðveg og raka.
(Sjá frétt PlanetArk 5. febrúar).