Á næstu þremur árum ætlar danski leikfangaframleiðandinn LEGO að verja 2,5 milljörðum danskra króna (um 54 milljörðum ISK) til að gera reksturinn og framleiðsluvörurnar umhverfisvænni. Þetta verður m.a. gert með því að hætta að nota poka úr einnota plasti utan um lausa kubba og nota þess í stað FSC-vottaða bréfpoka. Þá er stefnt að því að fyrirtækið verði orðið kolefnishlutlaust árið 2022, en því verður m.a. náð með eigin raforkuframleiðslu með sólarskjöldum. Þá er ætlunin að minnka vatnsnotkun um 10% fram til 2022 – og frá og með árinu 2025 verður enginn úrgangur sendur til urðunar. Loks má nefna viðleitni til að kenna börnum um sjálfbæra þróun í gegnum leik þeirra að LEGO-kubbum. Allt er þetta liður í viðleitni LEGO til að styðja við Sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna nr. 4 (Menntun fyrir alla) og 12 (Ábyrg neysla og framleiðsla).
(Sjá frétt á heimasíðu LEGO 15. september).
Greinasafn fyrir merki: sameinuðu þjóðirnar
Fyrstu styrkveitingar Græna loftslagssjóðsins
Stjórn Græna loftslagssjóðsins (e. Green Climate Fund (GCF)) samþykkti fyrstu átta styrkveitingar sjóðsins á dögunum, samtals að fjárhæð 168 milljónir Bandaríkjadala (um 22 milljarðar ísl. kr.). Þar með er starfsemi sjóðsins formlega hafin, en sjóðurinn var stofnaður á loftslagsráðstefnunni COP16 í Cancún haustið 2010. Sjóðurinn er að mestu fjármagnaður af iðnríkjunum og er ætlað að styðja við loftslagsverkefni í þróunarlöndum, bæði til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og til að auðvelda aðlögun samfélaga að loftslagsbreytingum. Af þessum fyrstu átta verkefnum eru þrjú í Afríku, þrjú á Kyrrahafssvæðinu og tvö í Suður-Ameríku. Gert er ráð fyrir að þessi verkefni muni leiða af sér fjárfestingar fyrir samtals 1,3 milljarða dala (um 170 milljarða ísl. kr.) á næstu fimm árum.
(Sjá frétt á heimasíðu Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna í dag).
Aukinn styrkur lítt þekktra ósoneyðandi efna
Styrkur díklórómetans og fleiri lítt þekktra skammlífra ósoneyðandi efna í andrúmsloftinu hefur hækkað verulega samkvæmt rannsókn sem sagt var frá í Nature Geoscience á dögunum. Ekki var tekið tillit til þessara efna við gerð Montreal bókunarinnar um ósoneyðandi efni, þar sem þau þóttu síður mikilvæg en önnur efni sem staldra lengur við í andrúmsloftinu. Styrkur þessara efna hefur hins vegar hækkað svo hratt að vísindamenn óttast að þróunin dragi úr árangri bókunarinnar. Í greininni í Nature kemur einnig fram að þörf sé á auknum mælingum til að hægt sé að greina betur uppsprettu vandans og grípa til viðeigandi ráðstafana. Að öðrum kosti blasi við vaxandi óvissa í spám um þróun ósonlagsins og loftslagsins á jörðinni.
(Sjá frétt ENN 17. febrúar).
Síðasta kynslóðin sem getur spornað gegn loftslagsbreytingunum
„Kynslóðin okkar er sú fyrsta sem getur útrýmt fátækt og sú síðasta sem getur tekið skref til að komast hjá verstu afleiðingum loftslagsbreytinga“.
(Ban Ki-moon í grein í the Guardian 12. janúar).