Sjóðakosningadagur í Svíþjóð á morgun

Á morgun, 21. febrúar, verður efnt til sérstaks sjóðakosningadags í Svíþjóð, þar sem sænskir sparifjáreigendur verða aðstoðaðir við að kjósa fjárfestingarsjóði sem fjárfesta markvisst í fyrirtækjum sem stuðla að sjálfbærri þróun, eða með öðrum orðum að velja sjálfbærari fjármagnsmarkað og þar með grænni framtíð. Í könnun sem gerð var seint á síðasta ári kom fram að 37% sænskra sparifjáreigenda vilja gjarnan leggja fé sitt í sjálfbæra fjárfestingarsjóði og að það sem helst hindri þá í því sé að þeir hafi ekki tíma til að kynna sér áherslur sjóðanna. Skrifstofa Norræna Svansins í Svíþjóð stendur fyrir sjóðakosningadeginum, en frá því í október 2017 hafa fjárfestingarsjóðir sem uppfylla tiltekin skilyrði getað sótt um Svansvottun.
(Sjá frétt Svansins í Svíþjóð 13. febrúar).

Vaxandi sjálfbærnikröfur hjá sænskum bönkum

Á síðasta ári skerptu allir sænskir bankar á kröfum sínum um sjálfbærniáherslur verkefna og fyrirtækja sem bankarnir fjárfesta í eða veita lán, að því er fram kemur í árlegri úttekt Fair Finance Guides. Ekobanken och JAK eru sem fyrr þeir bankar sem gera mestar kröfur og fá þeir nánast fullt hús stiga í úttektinni. Swedbank og SEB skora hæst af stóru bönkunum, báðir með um 60% frammistöðu. Sem dæmi um nýjar kröfur má nefna að SEB birtir nú skýrslur um kolefnisspor allra sinna sjóða, Handelsbanken hefur sett nokkur fyrirtæki á svartan lista fyrir að spilla umhverfinu og ganga gegn mannréttindum, Länsförsäkringar lækkuðu hámarkshlutdeild kolavinnslu í veltu fyrirtækja úr 50% í 20% og Nordea tók upp ný viðmið til að koma í veg fyrir að bankinn stuðli að skattaflótta með ráðgjöf sinni. Enn gengur bönkunum hins vegar heldur illa að standa við orð sín og fjárfesta sumir hverjir enn í fyrirtækjum sem eyða regnskógum, fjármagna pálmaolíuiðnaðinn og níðast á réttindum frumbyggja í Asíu.
(Sjá frétt Aktuell Hållbarhet 15. janúar).

78% aukning í grænum skuldabréfum

Heildarverðmæti grænna skuldabréfa á markaði var samtals 155,5 milljarðar Bandaríkjadala í árslok 2017 (um 16.135 milljarðar ísl. kr.), eða um 78% hærra en það var ári fyrr, að því er fram kemur í nýrri greiningu Climate Bonds Initiative. Fjárfestingar í endurnýjanlegri orku voru sem fyrr algengasti tilgangur skuldabréfaútgáfunnar (um 33%), en vægi verkefna í byggingariðnaði og bættri orkunýtni fer mjög vaxandi. Sama má segja um ýmis verkefni í tengslum við kolefnisgrannar samgöngur. Gert er ráð fyrir að í árslok 2018 verði heildarverðmæti grænna skuldabréfa komið í 250-300 milljarða Bandaríkjadala, sem samsvarar a.m.k. 60% aukningu milli ára.
(Sjá frétt Investorideas.com 10. janúar).

Orkugeymslugeirinn gæti sexfaldast fyrir 2030

Áætlað er að árið 2030 verði umsvif í orkugeymslu á heimsvísu sexföld á við það sem þau voru árið 2016. Þetta kemur fram í nýrri greiningu Bloomberg New Energy Finance, þar sem leiddar eru líkur að því að árið 2030 verði samanlögð orkugeymslugeta komin í 305 gígawattstundir. Þetta sé þó aðeins byrjunin. Um þessar mundir sé miklu fjármagni varið í tækniþróun á þessu sviði, kostnaður fari ört lækkandi og stóraukin nýting vindorku og sólarorku ýti undir þróunina. Orkugeymsla muni fyrirsjáanlega gegna veigamiklu hlutverki í orkukerfum framtíðarinnar.
(Sjá frétt CleanTechnica 21. nóvember).

Fjárfestar þrýsta á bílaframleiðendur að gera betur í loftslagsmálum

4096-160Hópur 250 alþjóðlegra fjárfesta, sem samtals ræður yfir hlutabréfum að andvirði meira en 24.000 milljarðar dollara (um 3 milljónir milljarða ísl. kr.) hefur skorað á bílaframleiðendur að flýta aðlögun sinni að kolefnisgrönnum heimi. Kröfur stjórnvalda um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fari vaxandi og hefðbundin bílaframleiðsla muni þurfa að takast á við miklar áskoranir vegna breyttrar eftirspurnar og samkeppni frá aðilum á borð við Tesla og Google sem hafi tekið forystu í þróun og framleiðslu rafbíla og sjálfkeyrandi bíla. Brýn þörf sé á að móta stefnu fyrirtækjanna til langs tíma til að þau verði áfram álitlegur fjárfestingarkostur.
(Sjá frétt The Guardian 12. október).

RBS dregur verulega úr „svörtum fjárfestingum“

3500Á síðasta ári dró Royal Bank of Scotland úr fjárfestingum í olíu- og gasvinnslufyrirtækjum um 70% og tvöfaldaði á sama tíma lán til uppbyggingar í endurnýjanlegri orku. Bankinn hefur hingað til verið ein helsta uppspretta fjármagns til leitar og vinnslu jarðefnaeldsneytis en félagasamtök sem berjast gegn loftslagsbreytingum hafa beitt miklum þrýstingi til að knýja fram breyttar áherslur. Þessi stefnubreyting bankans hefur einkum áhrif á fyrirtæki í Norður-Ameríku og Asíu en bankinn mun m.a. hætta öllum viðskiptum við fyrirtæki í Kanada sem vinna olíu úr olíusandi. Sú þróun að bankar og aðrar stofnanir dragi úr svörtum fjárfestingum tengist vissulega einnig lækkandi olíuverði og þ.a.l. verri stöðu fyrirtækja í olíu- og gasvinnslu. Óvíst er hvernig þessir aðilar munu bregðist við ef markaðurinn styrkist á næstu misserum.
(Sjá frétt the Guardian 17. apríl).

Ríkissjóður Noregs hættir að fjárfesta í 52 „svörtum“ fyrirtækjum

2000Norski olíusjóðurinn hefur ákveðið að hætta að fjárfesta í fyrirtækjum sem fá meira en 30% tekna sinna af kolavinnslu. Þetta er fyrsta aðgerðin af þessu tagi eftir að tilkynnt var í júní 2015 að sjóðurinn hygðist draga úr „svörtum“ fjárfestingum. Aðgerðin útilokar 52 fyrirtæki sem sjóðurinn hefur fjárfest í, en flest þeirra eru staðsett í Bandaríkjunum og Kína. Sjóðurinn, sem er sá stærsti sinnar tegundar í heiminum, mun þó áfram eiga hlut í þremur stærstu kolaframleiðendum heims, þar sem umsvif þeirra eru slík að minna en 30% tekna þeirra kemur frá kolavinnslu. Samdráttur í „svörtum“ fjárfestingum mun halda áfram út árið og á næstunni mun Seðlabanki Noregs kynna fleiri aðgerðir í þá veru.
(Sjá frétt the Guardian í dag).

28% fjárfestinga Alþjóðabankans í loftslagsaðgerðir

world bankAlþjóðabankinn (World Bank) mun hér eftir láta 28% af fjárfestingum sínum renna til loftslagsverkefna, auk þess allar ákvarðanir um fjármögnun verkefna munu taka mið af loftslagsmálum. Alþjóðabankinn er stærsti aðilinn sem veitir fé til þróunarríkja og því getur þessi áherslubreyting haft gríðarleg áhrif á möguleika þróunarríkjanna til að sporna við loftslagsbreytingum. Þegar þessi áherslubreyting var kynnt sagði Jim Yong Kim, forseti Alþjóðabankans m.a.: „Við erum að bregðast skjótt við til að hjálpa löndum til að auka nýtingu endurnýjanlega orkugjafa, draga úr kolefnisháðum orkugjöfum, þróa sjálfbær samgöngukerfi og byggja sjálfbærar, íbúavænar borgir fyrir sífellt fleiri þéttbýlisbúa. Þróunarríkin vilja hjálp frá okkur við að hrinda landsáætlunum sínum í lofslagsmálum í framkvæmd og við ætlum að gera allt sem við getum til að hjálpa þeim“.
(Sjá frétt the Guardian 7. apríl).

Statoil stofnar tugmilljarða sjóð fyrir græna orku

VindmøllerNorski olíurisinn Statoil setti í dag á stofn sérstakan fjárfestingasjóð sem ætlað er að fjárfesta í verkefnum á sviði endurnýjanlegrar orku fyrir 1,7 milljarða norskra króna (rúmlega 25 milljarða ísl. kr.) á næstu 4-7 árum. Gert er ráð fyrir að þetta fé verði einkum lagt í uppbyggingu vindorku á landi og á hafi, sólarorku, orkugeymslu, orkuflutning, orkusparnað og snjallnetslausnir fyrir raforku.
(Sjá frétt á heimasíðu Statoil í dag).

Fjárfestar gætu tapað 260 þúsund milljörðum

3000Á næstu 10 árum gætu fjárfestar tapað allt að 2.000 milljörðum Bandaríkjadala (um 260.000 milljörðum ísl. kr.) af því fé sem þeir hafa lagt í fyrirtæki og verkefni í jarðefnaeldsneytisgeiranum, þ.e.a.s. ef leiðtogar þjóða heims ná samkomulagi í París í næsta mánuði um aðgerðir sem duga til að halda hitastigshækkun á jörðinni innan við 2°C. Til að ná því marki þarf að draga hratt og mikið úr losun gróðurhúsalofttegunda, sem þýðir m.a. að engin þörf verður fyrir nýjar kolanámur og að eftirspurn eftir olíu mun minnka eftir 2020. Því verða mörg áformuð verkefni tilgangslaus og óarðbær, m.a. olíuboranir á Norðurheimskautssvæðinu og vinnsla á tjörusandi. Þetta kemur fram í skýrslu hugveitunnar Carbon Tracker sem kynnt var í vikunni. Framkvæmdastjóri Carbon Tracker hafði á orði þegar skýrslan var kynnt að viðskiptasagan væri vörðuð dæmum af fyrirtækjum á borð við Kodak, sem hefðu ekki áttað sig á yfirvofandi breytingum og því setið eftir. Skýrslan fæli í sér viðvörun til fyrirtækja í jarðefnaeldsneytisgeiranum um hættuna á verulegu verðmætatapi sem komast mætti hjá.
(Sjá frétt The Guardian í dag).