Fyrsti Svansmerkti skóli Noregs opnaður

Á dögunum var fyrsta Svansmerkta skólabyggingin í Noregi tekin í notkun í Røyken, en til að fá Svaninn þurfa byggingar að uppfylla strangar kröfur um byggingarefni, byggingaraðferðir, efnanotkun, orkunýtingu, lýsingu, loftræsingu, hljóðvist og sitthvað fleira. Skólinn er byggður úr timbri og rúmar 130 nemendur í 14 skólastofum. Byggingartíminn var tvö ár og byggingarkostnaður um 170 milljónir norskra króna (tæplega 2,4 milljarðar ísl. kr.). Þetta er „skóli fyrir framtíðina“, eins og Anita Winsnes, framkvæmdastjóri Svansins í Noregi, orðaði það við opnunarathöfnina.
(Sjá frétt á heimasíðu Svansins í Noregi 23. ágúst).

Fyrsti Svansmerkti leikskóli Noregs opnaður

Á dögunum var fyrsti Svansmerkti leikskóli Noregs opnaður í Overhalla í Norður-Þrændalögum. Svansvottun tekur til alls lífsferils viðkomandi vöru eða þjónustu og fyrir leikskóla þýðir þetta m.a. að gerðar eru strangar kröfur bæði til byggingarinnar og rekstrarins. Sem dæmi má nefna að í Svansmerktum byggingum mega hvergi finnast bakteríudrepandi efni, enda geta þau aukið hættuna á þróun lyfjaónæmra baktería. Orkunotkun þarf að vera afar lítil og í leikskólanum í Overhalla er því m.a. náð með sólarsellum, góðri einangrun, endurnýtingu varma úr loftræsi- og fráveitukerfum, orkunýtnum heimilistækjum og lýsingu. Svansmerktir leikskólar þurfa einnig að uppfylla kröfur um hljóðvist til að lágmarka hávaða innan dyra. Þegar Svansleyfið var afhent sagði Per Olav Tyldum, forseti sveitarstjórnar Overhalla, að sveitarfélagið vildi vera í fararbroddi í umhverfismálum og að þetta væri sérlega mikilvægt þegar börn ættu í hlut, þar sem þau væru jú framtíðin okkar.
(Sjá frétt á heimasíðu Svansins í Noregi 2. nóvember).

Nýtt námsefni um hættuleg efni

Umhverfisstofnun Danmerkur (Miljøstyrelsen) hefur látið útbúa nýtt námsefni sem ætlað er að auðvelda nemendur 2.-6. bekkjar grunnskóla að kynna sér varúðarmerkingar á hættulegum efnum, skilja hvers vegna efnin eru hættuleg og læra hvernig hægt sé að verja sig gegn þessum hættum. Námsefnið nefnist „Húsið hennar Hönnu – og hinar leyndu hættur“ og er öllum aðgengilegt á netinu, án aðgangsorðs.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen 18. september).

Skólaeldhús notar 100% lífrænt vottað

personal-byskolan_160Skólaeldhús Byskolans í Södra Sandby í Svíþjóð notar nú eingöngu lífrænt vottaða matvöru, en kostnaður við hverja máltíð hefur þó ekki hækkað frá því sem áður var. Á sama tíma hafa gæði máltíða aukist og matarsóun minnkað. Að sögn kokkanna í eldhúsinu réðu nokkur undirstöðuatriði úrslitum um að svo vel tókst til, þ.á.m. að hætt var að kaupa aðsendan mat frá stóreldhúsum. Í framhaldi af því var lögð mikil vinna í að finna framleiðendur og birgja sem seldu lífrænt vottaða vöru. Þá hefur sveigjanleiki skipt miklu máli, þ.e. að láta framboð á lífrænum vörum á hverjum tíma stýra matseðlinum. Einnig þarf eldhúsið að sjá um hluta framleiðslunnar, svo sem að búa til lífrænar pylsur þar sem slík vara fæst ekki á markaðnum.
(Sjá frétt á heimasíðu KRAV 16. janúar).