Ósjálfbært súkkulaði í Valentínusargjöf?

Kakóræktun á stóran þátt í eyðingu skóga víða um heim að því er fram kemur í skýrslu samtakanna Mighty Earth. Þetta sést m.a. þegar kort af kakóræktunarsvæðum eru borin saman við kort af skógareyðingu síðustu árin. Ástandið er sérstaklega alvarlegt í Vestur-Afríku og vaxandi eftirspurn eftir súkkulaði gæti leitt til sambærilegra afleiðinga í löndum á borð við Fílabeinsströndina og Gana.
(Sjá frétt Aktuell Hållbarhet í dag).

Vaxandi sjálfbærnikröfur hjá sænskum bönkum

Á síðasta ári skerptu allir sænskir bankar á kröfum sínum um sjálfbærniáherslur verkefna og fyrirtækja sem bankarnir fjárfesta í eða veita lán, að því er fram kemur í árlegri úttekt Fair Finance Guides. Ekobanken och JAK eru sem fyrr þeir bankar sem gera mestar kröfur og fá þeir nánast fullt hús stiga í úttektinni. Swedbank og SEB skora hæst af stóru bönkunum, báðir með um 60% frammistöðu. Sem dæmi um nýjar kröfur má nefna að SEB birtir nú skýrslur um kolefnisspor allra sinna sjóða, Handelsbanken hefur sett nokkur fyrirtæki á svartan lista fyrir að spilla umhverfinu og ganga gegn mannréttindum, Länsförsäkringar lækkuðu hámarkshlutdeild kolavinnslu í veltu fyrirtækja úr 50% í 20% og Nordea tók upp ný viðmið til að koma í veg fyrir að bankinn stuðli að skattaflótta með ráðgjöf sinni. Enn gengur bönkunum hins vegar heldur illa að standa við orð sín og fjárfesta sumir hverjir enn í fyrirtækjum sem eyða regnskógum, fjármagna pálmaolíuiðnaðinn og níðast á réttindum frumbyggja í Asíu.
(Sjá frétt Aktuell Hållbarhet 15. janúar).

Rauntímavöktun regnskóga á netinu

GFW_logo_4cFramvegis getur almenningur fylgst með ástandi regnskóga heimsins í nánast beinni útsendingu á netinu, en World Resources Institute (WRI) í Washington hefur gert þetta mögulegt með aðstoð Google Earth og nokkurra annarra aðila. Með þessari nýju tækni verður hægt að fylgjast með regnskógum á svæðum sem hingað til hafa verið lítið sem ekkert vöktuð. Verkefnið gengur undir nafninu Global Forest Watch, og þeir sem að því standa vonast til að það skapi þrýsting á ríkisstjórnir að stöðva eyðingu skóga og leiði jafnframt til ábyrgari verslunar með afurðir á borð við pálmaolíu, soja og kjöt, sem hugsanlega eru framleiddar á svæðum þar sem regnskógar hafa verið ruddir.
(Sjá frétt PlanetArk í dag).