Verslunarmiðstöð sjálfri sér nóg með orku

Verslunarmiðstöðin Väla í útjaðri Helsingborgar verður orðin sjálfri sér nóg með orku árið 2023 ef áform stjórnenda ganga eftir. Verslunarmiðstöðin, sem að grunni til var byggð á 8. áratug síðustu aldar, er sögð vera sú stærsta í Svíþjóð. Frá árinu 2012 hefur tekist að minnka orkunotkun í byggingunni um 40% og nú er ætlunin að ná því sem á vantar með enn frekari orkusparnaðaraðgerðum og aukningu á eigin orkuframleiðslu. Väla framleiðir nú þegar stóran hluta af raforkunni sem þarf til rekstrarins í 15.000 fermetra sólarskjöldum á þakinu. Ætlunin er að stækka framleiðslusvæðið enn frekar og taka jafnvel litlar vindmyllur í notkun þar að auki.
(Sjá frétt Aktuell Hållbarhet 4. febrúar).

Fyrsti Svansmerkti leikskóli Noregs opnaður

Á dögunum var fyrsti Svansmerkti leikskóli Noregs opnaður í Overhalla í Norður-Þrændalögum. Svansvottun tekur til alls lífsferils viðkomandi vöru eða þjónustu og fyrir leikskóla þýðir þetta m.a. að gerðar eru strangar kröfur bæði til byggingarinnar og rekstrarins. Sem dæmi má nefna að í Svansmerktum byggingum mega hvergi finnast bakteríudrepandi efni, enda geta þau aukið hættuna á þróun lyfjaónæmra baktería. Orkunotkun þarf að vera afar lítil og í leikskólanum í Overhalla er því m.a. náð með sólarsellum, góðri einangrun, endurnýtingu varma úr loftræsi- og fráveitukerfum, orkunýtnum heimilistækjum og lýsingu. Svansmerktir leikskólar þurfa einnig að uppfylla kröfur um hljóðvist til að lágmarka hávaða innan dyra. Þegar Svansleyfið var afhent sagði Per Olav Tyldum, forseti sveitarstjórnar Overhalla, að sveitarfélagið vildi vera í fararbroddi í umhverfismálum og að þetta væri sérlega mikilvægt þegar börn ættu í hlut, þar sem þau væru jú framtíðin okkar.
(Sjá frétt á heimasíðu Svansins í Noregi 2. nóvember).

Líkamshiti nýttur til húshitunar

Í haust verður hleypt af stokkunum evrópsku verkefni þar sem leitað verður leiða til að nýta afgangsvarma frá ýmsum athöfnum í þéttbýli til upphitunar húsnæðis. Sjónum verður beint að mismunandi hitagjöfum í þeim borgum sem taka þátt í verkefninu, svo sem afgangsvarma frá loftræstikerfum, fráveitukerfum og viftum í lestargöngum. Talið er að nái megi fram verulegum orkusparnaði með því að fullnýta þennan varma í fjarvarmaveitum. Sænska ráðgjafarstofan IVL stýrir verkefninu en heildarkostnaðaráætlun þess hljóðar upp á 4 milljónir evra (um 500 milljónir ísl. kr.).
(Sjá frétt Aktuell hållbarhet 16. ágúst).

Gagnaver á hafsbotni?

01underwater-web1-master675 (160x107)Sérfræðingar hjá Microsoft kanna nú möguleikana á að reisa gagnaver á hafsbotni. Fyrstu tilraunir í þessa veru lofa góðu og benda til að þetta sé ekki aðeins mögulegt heldur einnig ákjósanlegt frá umhverfislegu og rekstrarlegu sjónarmiði. Netþjónum væri þá komið fyrir í rammgerðum neðarsjávarhylkjum, en með því móti mætti draga mjög úr kostnaði og umhverfisáhrifum vegna kælingar sem nú er einn stærsti kostnaðarliðurinn í rekstri gagnavera. Hugmyndin er að framleiða orku fyrir verin með sjávarstrauma- eða sjávarfallavirkjunum, þannig að þau verði sjálfum sér næg hvað það varðar. Hægt yrði að staðsetja gagnaver mun nær stærstu þéttbýlisstöðum en áður, sem myndi m.a. stytta biðtíma notenda, en hingað til hafa gagnaver helst verið byggð á auðum landsvæðum fjarri byggð. Byggingartími veranna gæti einnig styst úr u.þ.b. tveimur árum niður í 90 daga, miðað við að hylkin verði fjöldaframleidd. Fyrstu athuganir benda til að hylkin hafi óveruleg áhrif á sjávarhita og dýralíf í nánasta umhverfi sínu.
(Sjá frétt New York Times 31. janúar).

Orkunotkun í Evrópu dregst saman

EU_orkunotkun_200Orkunotkun innan ESB árið 2013 var sú lægsta sem sést hefur frá því fyrir 1990 að því er fram kemur í tölum frá Hagstofu Evrópusambandsins. Væntanlega á vaxandi áhersla aðildarríkjanna á orkunýtni stóran þátt í þessari þróun, en hluti af skýringunni liggur eflaust einnig í slæmu efnahagsástandi á evrusvæðinu á síðustu árum. Betri orkunýting hefur verið sérstaklega í brennidepli í nýjum aðildarríkjum, þar sem engin áhersla var lögð á slíka þætti áður en ríkin gengu í sambandið. Orkunotkun í Evrópu náði hágmarki árið 2006 þegar hún var um 1.832 milljónir olíuígildistonna, en árið 2013 var hún 9% lægri eða um 1.666 milljón tonn. Þrátt fyrir þetta er ESB ennþá mjög háð jarðefnaeldsneyti og um 50% af orkuþörfinni er mætt með jarðefnaeldsneyti frá löndum utan sambandsins.
(Sjá frétt the Guardian 9. febrúar).