Engar plastflöskur í Lundúnahálfmaraþoninu

Engar plastflöskur verða leyfðar í Lundúnahálfmaraþoninu sem fram fer nk. sunnudag. Þess í stað fá hlauparar afhenta sérstaka vatnspoka á drykkjarstöðvum, en þessir pokar eru gerðir úr þörungum og brotna auðveldlega niður í náttúrunni. Hlaupararnir geta þá hvort heldur sem er bitið gat á pokann og drukkið vatnið eða borðað pokann með innihaldinu. Þetta fyrirkomulag tengist annarri viðleitni borgaryfirvalda í London til að draga úr notkun á einnota plastflöskum, en talið er að á hverri mínútu sé um ein milljón slíkra flaskna seldar í heiminum. Stór hluti af þeim endar í urðun eða úti í sjó.
(Sjá frétt The Guardian í gær).

Enginn latteskattur

Ríkisstjórn Bretlands hefur hafnað tilmælum umhverfisúttektarnefndar breska þingsins frá því í janúar um að taka upp 25 pensa „latteskatt“ á einnota kaffimál. Í svari ríkisstjórnarinnar til nefndarinnar kemur hins vegar fram að stjórnin fagni því að einstök kaffihús bjóði fólki afslátt af kaffi ef það kemur með fjölnota mál. Mary Creagh, formaður umhverfisúttektarnefndarinnar, segir að þessi viðbrögð ríkisstjórnarinnar sýni að þar á bæ sé meira um orð en gjörðir. Einnota umbúðir skapa nú þegar mikinn vanda í Bretlandi og árlega henda Bretar um 2,5 milljörðum einnota kaffimála í ruslið.
(Sjá frétt Independent 9. mars).

Einnota plastpokar bannaðir á Vanuatu

Ríkisstjórn Kyrrahafsríkisins Vanuatu hefur ákveðið að banna innflutning á einnota plastpokum og frauðplastílátum frá og með febrúarmánuði næstkomandi. Þetta er liður í að fylgja eftir stefnu stjórnvalda í málefnum hafsins, en Vanuatu er einmitt fyrsta Kyrrahafsríkið sem samþykkir slíka stefnu. Í framhaldinu er stefnt að því að banna einnig innflutning á plasthnífapörum og drykkjarrörum úr plasti.
(Sjá frétt PlanetArk 18. janúar).

Má búast við latteskatti?

Kaffihúsakeðjan Starbucks í London ætlar að gera tilraun með að rukka viðskiptavini um 5 pens aukalega (um 7 ísl. kr.) fyrir hvern kaffiskammt sem seldur er í einnota málum. Með þessu vill Starbucks draga úr sóun, en árlega henda Bretar um 2,5 milljörðum einnota kaffibolla í ruslið. Ef þessum bollum væri öllum raðað enda við enda myndu þeir ná fimm og hálfan hring í kringum jörðina. Fimmpensagjaldið verður fyrst um sinn bara lagt á til reynslu í 20-25 kaffihúsum í þrjá mánuði, frá og með febrúar. Ágóðinn verður notaður til rannsókna á því hvernig gjaldið hefur áhrif á viðhorf og hegðun viðskiptavina. Ákvörðun Starbucks var kynnt sama dag og umhverfisúttektarnefnd breska þingsins beindi þeim tilmælum til ríkisstjórnarinnar að taka upp 25 pensa „latteskatt“ með það að markmiði að árið 2023 verði allir einnota kaffibollar farnir að skila sér í endurvinnslu.
(Sjá frétt The Sun 5. janúar).

1.400 einnota kaffimál í breska umhverfisráðuneytinu á degi hverjum

Um 1.400 einnota kaffimál eru notuð í breska umhverfisráðuneytinu á hverjum einasta degi og á síðustu 5 árum keypti ráðuneytið 2,5 milljónir slíkra íláta þrátt fyrir fyrirheit umhverfisráðherrans um að draga úr magni plastúrgangs. Þessar upplýsingar koma fram í gögnum sem Frjálslyndir demókratar hafa fengið afhentar í krafti upplýsingalaga. Hingað til hefur mötuneyti ráðuneytisins ekki boðið upp á neina fjölnotabolla, en 200 slíkir voru loks keyptir 31. október sl. Frjálslyndir demókratar hafa lagt til að lagt verði 5 pensa gjald (7 ísl. kr.) á einnota kaffimál, enda hafi gjaldtaka af plastpokum skilað miklum árangri í baráttunni við sóun. Neðri deild breska þingsins hefur einnig verið stórtæk í einnota málunum, en á síðasta ári keypti kaffistofa þingsins 1.000 slík mál fyrir hvern þingmann. Áætlað er að á hverju ári hendi Bretar um 3 milljörðum einnota mála og að aðeins eitt af hverjum 400 þeirra fari í endurvinnslu.
(Sjá frétt The Guardian 21. nóvember).

Sky hættir að nota einnota plast

Fréttaveitan Sky ætlar að hætta allri notkun á einnota plasti í nýjum vörum fyrir lok þessa árs og árið 2020 á einnota plast að heyra sögunni til í allri starfsemi fyrirtækisins, svo og hjá birgjum þess. Með þessu vill Sky leggja sitt af mörkum til að koma í veg fyrir að plastrusl endi í hafinu, en átakið er hluti af verkefninu Sky Ocean Rescue. Þegar átakið var kynnt sagði Jeremy Darroch, forstjóri Sky, að Sky þyrfti að axla sinn hluta af ábyrgðinni og að fyrirtækið hefði ótrúlega góðar forsendur til að hafa jákvæð áhrif, þar sem starfsemi þess næði inn á 23 milljónir heimila í Evrópu.
(Sjá frétt Sky 17. október).

Fyrstu Svansmerktu einnotaáhöldin

Greenway_745x442Svansmerkt einnotaáhöld eru nú fáanleg í fyrsta sinn, en dansk-norska fyrirtækið Greenway fékk á dögunum leyfi til að merkja nokkrar af vörum sínum með Norræna svaninum. Einnotaáhöldin frá Greenway eru búin til úr pálmablöðum og brotna auðveldlega niður í náttúrunni. Um er að ræða áhöld á borð við diska, skálar og matarföt, en til að fá vottun Svansins þarf að uppfylla strangar kröfur um efnainnihald og sitthvað fleira. Áhöldin mega t.d. ekki innihalda flúorsambönd eða þalöt og mega ekki vera úr endurunnum hráefnum þar sem efnaleifar kunna að leynast í þeim. Stór hluti hráefnanna þarf hins vegar að vera endurnýjanlegur, auk þess sem gerðar eru strangar kröfur um orkunotkun í framleiðslunni og um að hægt sé að jarðgera áhöldin eða endurvinna þau með öðrum hætti. Með því að fá Svansmerkingu á vörurnar er Greenway að bregðast við vaxandi eftirspurn viðskiptavina, svo sem frá mötuneytum, hótelum og dagvöruverslunum.
(Sjá frétt á heimasíðu Svansins í Danmörku í dag).