Árið 2019 nam losun gróðurhúsalofttegunda (GHL) í Noregi samtals 51 milljón tonna CO2ígilda og hafði þá dregist saman um 3% frá árinu 2018. Mestu munar um 7% samdrátt í losun frá samgöngum á landi vegna minnkandi sölu á bensíni og dísli og vegna aukinnar íblöndunar lífeldsneytis í þessar vörur. Losun vegna flugsamgangna minnkaði um 6% milli ára og um 4% í sjóflutningum. Þá minnkaði losun frá olíu- og gasvinnslu um 2% vegna minni framleiðslu. Heildarlosunin hefur minnkað jafnt og þétt frá árinu 2007 og fara þarf aftur til ársins 1993 til að finna jafnlága heildartölu og 2019. Frá 1990 hefur losunin minnkað um 2%.
(Sjá fréttatilkynningu norsku hagstofunnar 2. nóvember).
Greinasafn fyrir merki: Noregur
Stórátak í kolefnisbindingu í Noregi
Í fyrradag kynnti ríkisstjórn Noregs tillögu sína til Stórþingsins um stórátak í föngun, flutningi og bindingu koldíoxíðs. Verkefnið er margþætt, en það felst m.a. í söfnun koldíoxíðs frá sementsverksmiðju í Brevik og frá sorporkuveri í Osló, svo og í stuðningi við svonefnt Norðurljósaverkefni, sem unnið er í samstarfi fyrirtækjanna Equinor, Shell og Total. Norðurljósaverkefnið snýst um flutning fljótandi koldíoxíðs frá söfnunarstöðum til móttökustöðvar í Øygarden, en þaðan verður vökvanum dælt niður í hólf undir hafsbotni. Þetta nýja átak, sem fengið hefur nafnið Langskip, er sagt vera stærsta loftslagsverkefni norsks atvinnulífs frá upphafi. Því er ekki aðeins ætlað að auðvelda Norðmönnum að uppfylla skuldbindingar sínar gagnvart Parísarsáttmálanum, heldur mun það einnig skapa allmörg ný störf. Heildarkostnaður við verkefnið er áætlaður um 25 milljarðar norskra króna (um 370 milljarðar ISK), þar af 17 milljarðar í stofnkostnað og 8 milljarðar í rekstur fyrstu 10 árin. Gert er ráð fyrir að norska ríkið beri um 67% af kostnaðinum.
(Sjá fréttatilkynningu norsku ríkisstjórnarinnar í fyrradag).
Fyrsti Svansmerkti skóli Noregs opnaður
Á dögunum var fyrsta Svansmerkta skólabyggingin í Noregi tekin í notkun í Røyken, en til að fá Svaninn þurfa byggingar að uppfylla strangar kröfur um byggingarefni, byggingaraðferðir, efnanotkun, orkunýtingu, lýsingu, loftræsingu, hljóðvist og sitthvað fleira. Skólinn er byggður úr timbri og rúmar 130 nemendur í 14 skólastofum. Byggingartíminn var tvö ár og byggingarkostnaður um 170 milljónir norskra króna (tæplega 2,4 milljarðar ísl. kr.). Þetta er „skóli fyrir framtíðina“, eins og Anita Winsnes, framkvæmdastjóri Svansins í Noregi, orðaði það við opnunarathöfnina.
(Sjá frétt á heimasíðu Svansins í Noregi 23. ágúst).
Norska ríkið fyrir rétt vegna olíuborana
Á morgun hefjast söguleg réttarhöld í Osló, þar sem tekist verður á um það hvort ný leyfi sem norsk stjórnvöld hafa veitt til olíuvinnslu í Barentshafi standist 112. grein norsku stjórnarskrárinnar um rétt komandi kynslóða til heilsusamlegs og öruggs umhverfis. Dómsmálið, sem er hið fyrsta sinnar tegunar, er höfðað af samtökunum Greenpeace og Nature and Youth. Samtökin halda því fram að með því að leyfa þessa starfsemi stefni norsk stjórnvöld fólki og umhverfi í verulega hættu, auk þess sem leyfisveitingarnar stríði gegn Parísarsamkomulaginu. Meðal þeirra sem komnir eru til Oslóar til að fylgjast með réttarhöldunum eru fulltrúar Fiji, sem er í hópi þeirra eyþjóða sem stafar mest ógn af loftslagsbreytingum. Fiji er einmitt í forsæti loftslagsráðstefnunnar (COP23) sem nú stendur yfir í Bonn.
(Sjá frétt Aktuell hållbarhet í dag).
Fyrsti Svansmerkti leikskóli Noregs opnaður
Á dögunum var fyrsti Svansmerkti leikskóli Noregs opnaður í Overhalla í Norður-Þrændalögum. Svansvottun tekur til alls lífsferils viðkomandi vöru eða þjónustu og fyrir leikskóla þýðir þetta m.a. að gerðar eru strangar kröfur bæði til byggingarinnar og rekstrarins. Sem dæmi má nefna að í Svansmerktum byggingum mega hvergi finnast bakteríudrepandi efni, enda geta þau aukið hættuna á þróun lyfjaónæmra baktería. Orkunotkun þarf að vera afar lítil og í leikskólanum í Overhalla er því m.a. náð með sólarsellum, góðri einangrun, endurnýtingu varma úr loftræsi- og fráveitukerfum, orkunýtnum heimilistækjum og lýsingu. Svansmerktir leikskólar þurfa einnig að uppfylla kröfur um hljóðvist til að lágmarka hávaða innan dyra. Þegar Svansleyfið var afhent sagði Per Olav Tyldum, forseti sveitarstjórnar Overhalla, að sveitarfélagið vildi vera í fararbroddi í umhverfismálum og að þetta væri sérlega mikilvægt þegar börn ættu í hlut, þar sem þau væru jú framtíðin okkar.
(Sjá frétt á heimasíðu Svansins í Noregi 2. nóvember).
Norska ríkið styrkir loftslagsverkefni sveitarfélaga
Í dag úthlutaði Umhverfisstofnun Noregs (Miljødirektoratet) 98 milljónum norskra króna (rúmlega 1,3 milljörðum ísl. kr.) til samtals 142 loftslagsverkefna í 89 þarlendum sveitarfélögum, en samtals bárust stofnuninni 332 umsóknir um styrki af þessu tagi. Þarna er um að ræða svonefnt „Klimasats-fé“ sem var sérstaklega eyrnamerkt í fjárlögum til að styðja við aðgerðir sveitarfélaga sem miða að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og vísa veginn til kolefnishlutlausrar framtíðar. Verkefnin sem í hlut eiga eru margvísleg, en sem dæmi má nefna útblásturslaus byggingarsvæði, nýtingu timburs sem byggingarefnis í stað stáls og steinsteypu, hleðslustöðvar fyrir bíla í eigu sveitarfélaga, tilraunir með rafknúnar vinnuvélar, innviði fyrir rafhjól, reiðhjólahótel við lestarstöðvar og skipulagsverkefni með sérstakri áherslu á loftslagsmál. Auk loftslagsáherslunnar eru mörg verkefnanna til þess fallin að bæta loftgæði og þar með heilsu fólks á viðkomandi svæðum.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljødirektoratet í dag).
Fyrsta Svansmerkta bílaþvottastöðin í Noregi
Síðastliðinn föstudag varð bílaþvottastöð Shell við Solbråveien í Asker fyrsta svansmerkta bílaþvottastöðin í Noregi. Samtals eiga Norðmenn nú um 2,5 milljónir einkabíla og er áætlað að árlega fari um 10 milljónir rúmmetra af vatni og 100.000 tonn af hreinsiefnum í að þvo alla þessa bíla. Mest af þessu rennur út í nærliggjandi vötn og firði, blandað með tjöruleifum og öðrum óhreinindum af bílunum, auk þess sem eitthvað safnast fyrir í seyru í skólphreinsistöðvum og er síðan gjarnan notað til áburðar á akra. Til að fá Svaninn þurfa bílaþvottastöðvar að uppfylla strangar kröfur um hreinsiefni, vatnsnotkun og hreinsun frárennslis, svo eitthvað sé nefnt. Áætlað er að svansmerktar bílaþvottastöðvar noti um 75% minna vatn en aðrar stöðvar og að þar sé hreinsun fráveituvatns um 90% betri en annars staðar.
(Sjá frétt á heimasíðu Svansins í Noregi 21. október).
Vel heppnuð hreinsun í Oslóhöfn
Hafsbotninn á hafnarsvæðinu í Osló stenst enn mengunarviðmið rúmum fjórum árum eftir að lokið var við hreinsun botnsins. Hreinsunin fór að mestu fram árið 2011. Þar sem því varð við komið var hreinu malarlagi dreift yfir botninn en þar sem tryggja þurfti tiltekið dýpi og þar sem hætta var á að efsta lagið þyrlaðist upp var botninn plægður og menguð jarðefni urðað á meira dýpi, áður en nýju lagi var dreift yfir. Lífríkið á svæðinu er smátt og smátt að ná sér og við síðustu mælingar reyndist mengun innan marka á 39 af 40 vöktunarstöðum. Á einum stað mældist mengun yfir mörkum, skammt frá útrás fyrir ofanvatn sem ævinlega inniheldur mengunarefni frá umferð. Efnin sem greindust voru m.a. kopar, kvikasilfur, blý, sink, PAH og TBT.
(Sjá frétt á heimasíðu Umhverfisstofnunar Noregs (Miljødirektoratet) í dag).
Osló stefnir að helmingssamdrætti á fjórum árum
Borgaryfirvöld í Osló kynntu á dögunum „loftslagsfjárlög“ næstu ára þar sem fram kemur hvernig ná skuli losun gróðurhúsalofttegunda í borginni niður fyrir 600.000 tonn árið 2020 í samræmi við markmið sem borgin setti sér fyrr á þessu ári. Árið 2014 nam losunin 1,4 milljón tonna og er ekki vitað til að nokkur borg eða ríki hafi áður tekið svo róttæka ákvörðun um samdrátt í losun. Enn fremur er stefnt að því að Osló verði orðin kolefnishlutlaus árið 2030. Þessum skjóta árangri á m.a. að ná með því að hækka veggjöld á bíla sem aka inn í borgina, fækka bílastæðum, útrýma olíukyndingu á heimilum og skrifstofum, skipta út almenningsfarartækjum sem brenna jarðefnaeldsneyti og fjölga enn hjólreiðastígum. Nýlunda þykir að flétta aðgerðir til að draga úr losun inn í fjárhagsáætlun borga eins og gert er í Osló, en einn af aðstoðarborgarstjórum borgarinnar orðar það svo að „þau ætli að telja kolefni eins og aðrir telja peninga“. Ef markmiðið næst vonast borgaryfirvöld til að árangur Oslóar verði öðrum borgum hvatning.
(Sjá frétt PlanetArk 29. september).
Ríkissjóður Noregs hættir að fjárfesta í 52 „svörtum“ fyrirtækjum
Norski olíusjóðurinn hefur ákveðið að hætta að fjárfesta í fyrirtækjum sem fá meira en 30% tekna sinna af kolavinnslu. Þetta er fyrsta aðgerðin af þessu tagi eftir að tilkynnt var í júní 2015 að sjóðurinn hygðist draga úr „svörtum“ fjárfestingum. Aðgerðin útilokar 52 fyrirtæki sem sjóðurinn hefur fjárfest í, en flest þeirra eru staðsett í Bandaríkjunum og Kína. Sjóðurinn, sem er sá stærsti sinnar tegundar í heiminum, mun þó áfram eiga hlut í þremur stærstu kolaframleiðendum heims, þar sem umsvif þeirra eru slík að minna en 30% tekna þeirra kemur frá kolavinnslu. Samdráttur í „svörtum“ fjárfestingum mun halda áfram út árið og á næstunni mun Seðlabanki Noregs kynna fleiri aðgerðir í þá veru.
(Sjá frétt the Guardian í dag).