Sænski fataframleiðandinn Asket byrjaði á dögunum að birta upplýsingar um umhverfisáhrif fatnaðar á kvittunum sem fylgja vörunni til kaupenda. Á kvittununum má sjá loftslagsáhrif, vatnsnotkun og orkunotkun hvers þreps í framleiðslu vörunnar, en þessar upplýsingar byggja á lífsferilsgreiningum (LCA) sem rannsóknarfyrirtækið Rise hefur gert fyrir Asket. Til að byrja með fylgja kvittanir af þessu tagi fjórum mest seldu flíkum fyrirtækisins, en um mitt næsta ár verða allar vörur komnar inn í þetta kerfi. Með þessu framtaki vill Asket auka meðvitund neytenda um áhrif vörunnar, þannig að fólk fari að kaupa minna og nota fötin sín lengur.
(Sjá frétt tískutímaritsins Habit 24. september).
Greinasafn fyrir merki: föt
Fáir fataframleiðendur fylgja þræðinum
Aðeins 17 af stærstu fataframleiðendum heims hafa gerst aðilar að yfirlýsingu fataiðnaðarins um gagnsæi (e. The Transparency Pledge) að því er fram kemur í nýrri skýrslu sem gefin var út í tilefni þess að í dag eru liðin fjögur ár frá Rana Plaza slysinu í Bangladesh þar sem rúmlega 1.100 verkamenn í fataiðnaði létust þegar verksmiðjubygging hrundi. Með aðild að yfirlýsingunni heita fyrirtækin því að birta upplýsingar sem gera neytendum kleift að finna hvar fötin þeirra eru framleidd. Samtals var 72 fyrirtækjum boðið að gerast aðilar að yfirlýsingunni og í viðauka við skýrsluna er hægt að sjá viðbrögð hvers þeirra um sig. Yfirskrift skýrslunnar er „Follow the Thread: The Need for Supply Chain Transparency in the Garment and Footwear Industry“.
(Sjá fréttatilkynningu Clean Clothes Campaign 20. apríl).
Sjö flíkur í ruslið frá hverjum Breta
Hver einasti íbúi Bretlands mun senda 7 flíkur í urðun í vor í framhaldi af árlegri tiltekt í þarlendum fataskápum, að því er fram kemur í könnun sem gerð var með stuðningi Sainsbury’s verslunarkeðjunnar. Samtals munu 680 milljón stykki yfirgefa breska fataskápa þetta vorið, þ.e. 19 stykki á mann, og þar af fara væntanlega 235 milljón stykki í ruslatunnuna og þaðan í urðun. Öll þessi föt væri hægt að endurnota eða endurvinna en helsta ástæða þess að þeim er hent engu að síður er að fólk gerir sér ekki grein fyrir að jafnvel ónýt föt nýtist hjálparstofnunum til fjáröflunar. Þegar fólk var spurt um ástæður þess að það hendi fötum í ruslið í stað þess að gefa þau til hjálparsamtaka, svöruðu 49% að þau vissu ekki að ónýt föt kæmu þessum samtökum að gagni, 16% sögðust ekki hafa tíma til að fara með fötin á þar til gerða móttökustaði og 6% vissu ekki að hægt væri að endurvinna textílvörur.
(Sjá frétt The Guardian 6. apríl).
Fyrstu Svansmerktu gallabuxurnar
Fyrstu Svansmerktu gallabuxurnar í heimi eru á leið á markað undir sænska merkinu Velour by Nostalgi. Buxurnar eru framleiddar úr endurunninni eða lífrænt vottaðri bómull og endurunnu pólýesterefni úr plastflöskum. Við framleiðsluna er beitt svonefndri ”recall-tækni” til að efnið haldi formi sínu betur en ella, sem m.a. stuðlar að því að buxurnar séu sjaldnar settar í þvott. Allir hlutar buxnanna hafa staðist kröfur Svansins og gildir það jafnt um tauið sjálft, rennilása, hnappa og umbúðir. Flíkin inniheldur því engin hormónaraskandi efni, ofnæmisvalda eða þungmálma, auk þess sem gerðar eru kröfur um vinnuumhverfi og nýtingu vatns þar sem buxurnar eru framleiddar. Til að fá Svaninn þurfa buxurnar einnig að standast kröfur um gæði og endingu, sem m.a. er mætt með sérstökum gæðafrágangi á saumum. Sala á buxunum hefst formlega 31. janúar nk. en hægt er leggja inn pantanir frá og með 21. jan.
(Sjá fréttatilkynningu á MyNewsDesk 3. janúar).
Miljøstyrelsen styrkir umhverfisvottaða fataframleiðslu
Umhverfisstofnun Danmerkur (Miljøstyrelsen) auglýsti á dögunum eftir umsóknum frá dönskum fyrirtækjum sem vilja framleiða umhverfismerkt föt og aðrar textílvörur. Styrkina geta fyrirtækin notað til að kaupa sérfræðiráðgjöf vegna undirbúnings umhverfisvottunar samkvæmt kröfum Norræna svansins eða Umhverfismerkis ESB. Tilgangurinn með styrkveitingunni er að byggja upp reynslu innanlands í framleiðslu á umhverfisvottuðum klæðnaði og auðvelda fyrirtækjum að kynna sér kosti umhverfismerkjanna. Hæsti styrkur til einstakra fyrirtækja getur numið 99.000 dönskum krónum (tæplega 1,7 milljónum ísl. kr.).
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen 14. október).
Einn tauþvottur skilar allt að 700.000 plastögnum út í fráveituna
Föt úr gerviefnum geta gefið frá sér mikinn fjölda plastagna í hvert sinn sem þau eru þvegin. Þannig getur einn tauþvottur skilað allt að 700.000 smásæjum plastögnum út í umhverfið að því er fram kom í rannsókn vísindamanna við háskólann í Plymouth í Englandi. Föt úr akrýlefnum reyndust langverst hvað þetta varðar og skiluðu frá sér hátt í 730.000 ögnum í hverjum þvotti sem var um 1,5 sinnum meira en föt úr pólýester og 5 sinnum meira en föt úr blöndu af pólýester og bómull. Talsvert af þessum ögnum stöðvast í skólphreinsistöðvum og endar þar í seyru, en aðrar skolast út í ár og höf með fráveituvatninu. Margt bendir til að plastagnir geti haft víðtæk neikvæð áhrif á lífverur og þar með á fæðukeðju manna. Ekki er fullljóst hvaða þættir hafa mest áhrif á losun agna úr fatnaði við þvott, en magnið kann að ráðast af þvottatíma, hönnun á síum og vinduhraða.
(Sjá frétt The Guardian 27. september).
Neytendur vilja sjálfbærari föt
Um 60% danskra neytenda vilja að föt séu framleidd með sjálfbærari hætti en nú tíðkast og 56% segjast reiðubúin að borga meira fyrir slíkan fatnað. Um 22% myndu ekki setja það fyrir sig þótt sjálfbærari fötin væru allt að 20% dýrari í innkaupum, en nær allir eru sammála um að úrvalið sé lítið og að erfitt sé að finna föt sem framleidd eru með sjálfbærni að leiðarljósi. Þetta kom fram í rannsókn sem Neytendasamtök Danmerkur (Tænk) gerðu nýlega meðal rúmlega 1.000 danskra neytenda sem valdir voru af handahófi. Samtökin beina því til fataframleiðenda að koma betur til móts við eftirspurn eftir sjálfbærum fatnaði en benda jafnframt á að greiðsluvilji sem fram kemur í könnunum skili sér ekki alltaf þegar á hólminn er komið.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk 5. september).
Lindex framleiðir strigaskó úr gömlum gallabuxum
Sænska verslunarkeðjan Lindex hefur hafið framleiðslu á strigaskóm úr gömlum gallabuxum sem skilað hefur verið í söfnunargáma Myrorna. Talsmaður Myrorna segir að samtökin taki þátt í verkefninu þar sem þeim finnist spennandi að finna nýja markaði og endurvinnslufarvegi fyrir notaðan fatnað, auk þess sem uppvinnsla (e. upcycling) textílefna feli í sér nýsköpun í handverki og meðferð textílúrgangs. Með uppvinnslu gallabuxnanna lengist líftími vörunnar og neyslumynstur breytist, sem aftur hefur í för með sér minna álag á umhverfið og minni auðlindanotkun. Myrorna safna nú um 21 tonni af textílúrgangi í Svíþjóð á degi hverjum og stefna að því að tvöfalda söfnunina á næstu tveimur árum. Lindex ætti því að hafa nægilegt hráefni í framleiðsluna.
(Sjá frétt á heimasíðu Myrorna 17. febrúar).
90.000 tonnum af fatnaði bjargað frá urðun árlega
Bresku WRAP samtökin um úrgang og auðlindir (Waste & Resources Action Programme) hafa hleypt af stokkunum nýju verkefni til að draga úr fatasóun í Evrópu. Verkefnið, sem gengur undir nafninu ECAP (European Clothing Action Plan), er styrkt af evrópskum sjóðum og nær til 11 Evrópulanda, þ.á.m. allra Norðurlandanna að Íslandi frátöldu. Markmið verkefnisins er að minnka urðun fataúrgangs um 90.000 tonn á ári frá og með árinu 2019.
(Sjá frétt EDIE í dag).
Endurvinnsluátak hjá H&M
Fatarisinn H&M, sem nú er orðin næststærsta fataverslunarkeðja í heimi, ætlar hér eftir að veita árleg verðlaun upp á milljón evrur (um 148 millj. ísl. kr.) fyrir nýja tækni til að endurvinna föt. Í næstu viku mun H&M jafnframt setja á markað nýja gallabuxnalínu með endurunninni bómull. Karl-Johan Persson, forstjóri H&M, sagði af þessu tilefni að ekkert fyrirtæki í fataiðnaði gæti haldið áfram á þeirri braut sem greinin væri nú á og að tilgangurinn með verðlaununum væri ekki síst að finna nýja tækni til að endurvinna textílþræði án þess að gæði þeirra minnkuðu. H&M og fleiri fataframleiðendur hafa vaxandi áhyggjur af yfirvofandi bómullarskorti samfara fjölgun mannkyns og útbreiddum einnotahugsunarhætti. Í þessu felst mikil áskorun fyrir H&M sem hefur lagt megináherslu á ódýr föt. Lágt verð felur í sér aukna hættu á að fötum sé fleygt fyrr en ella og ný keypt í staðinn.
(Sjá frétt PlanetArk í gær).