Á næstu þremur árum ætlar danski leikfangaframleiðandinn LEGO að verja 2,5 milljörðum danskra króna (um 54 milljörðum ISK) til að gera reksturinn og framleiðsluvörurnar umhverfisvænni. Þetta verður m.a. gert með því að hætta að nota poka úr einnota plasti utan um lausa kubba og nota þess í stað FSC-vottaða bréfpoka. Þá er stefnt að því að fyrirtækið verði orðið kolefnishlutlaust árið 2022, en því verður m.a. náð með eigin raforkuframleiðslu með sólarskjöldum. Þá er ætlunin að minnka vatnsnotkun um 10% fram til 2022 – og frá og með árinu 2025 verður enginn úrgangur sendur til urðunar. Loks má nefna viðleitni til að kenna börnum um sjálfbæra þróun í gegnum leik þeirra að LEGO-kubbum. Allt er þetta liður í viðleitni LEGO til að styðja við Sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna nr. 4 (Menntun fyrir alla) og 12 (Ábyrg neysla og framleiðsla).
(Sjá frétt á heimasíðu LEGO 15. september).
Greinasafn fyrir merki: einnota
Engar plastflöskur í Lundúnahálfmaraþoninu
Engar plastflöskur verða leyfðar í Lundúnahálfmaraþoninu sem fram fer nk. sunnudag. Þess í stað fá hlauparar afhenta sérstaka vatnspoka á drykkjarstöðvum, en þessir pokar eru gerðir úr þörungum og brotna auðveldlega niður í náttúrunni. Hlaupararnir geta þá hvort heldur sem er bitið gat á pokann og drukkið vatnið eða borðað pokann með innihaldinu. Þetta fyrirkomulag tengist annarri viðleitni borgaryfirvalda í London til að draga úr notkun á einnota plastflöskum, en talið er að á hverri mínútu sé um ein milljón slíkra flaskna seldar í heiminum. Stór hluti af þeim endar í urðun eða úti í sjó.
(Sjá frétt The Guardian í gær).
Enginn latteskattur
Ríkisstjórn Bretlands hefur hafnað tilmælum umhverfisúttektarnefndar breska þingsins frá því í janúar um að taka upp 25 pensa „latteskatt“ á einnota kaffimál. Í svari ríkisstjórnarinnar til nefndarinnar kemur hins vegar fram að stjórnin fagni því að einstök kaffihús bjóði fólki afslátt af kaffi ef það kemur með fjölnota mál. Mary Creagh, formaður umhverfisúttektarnefndarinnar, segir að þessi viðbrögð ríkisstjórnarinnar sýni að þar á bæ sé meira um orð en gjörðir. Einnota umbúðir skapa nú þegar mikinn vanda í Bretlandi og árlega henda Bretar um 2,5 milljörðum einnota kaffimála í ruslið.
(Sjá frétt Independent 9. mars).
Einnota plastpokar bannaðir á Vanuatu
Ríkisstjórn Kyrrahafsríkisins Vanuatu hefur ákveðið að banna innflutning á einnota plastpokum og frauðplastílátum frá og með febrúarmánuði næstkomandi. Þetta er liður í að fylgja eftir stefnu stjórnvalda í málefnum hafsins, en Vanuatu er einmitt fyrsta Kyrrahafsríkið sem samþykkir slíka stefnu. Í framhaldinu er stefnt að því að banna einnig innflutning á plasthnífapörum og drykkjarrörum úr plasti.
(Sjá frétt PlanetArk 18. janúar).
Má búast við latteskatti?
Kaffihúsakeðjan Starbucks í London ætlar að gera tilraun með að rukka viðskiptavini um 5 pens aukalega (um 7 ísl. kr.) fyrir hvern kaffiskammt sem seldur er í einnota málum. Með þessu vill Starbucks draga úr sóun, en árlega henda Bretar um 2,5 milljörðum einnota kaffibolla í ruslið. Ef þessum bollum væri öllum raðað enda við enda myndu þeir ná fimm og hálfan hring í kringum jörðina. Fimmpensagjaldið verður fyrst um sinn bara lagt á til reynslu í 20-25 kaffihúsum í þrjá mánuði, frá og með febrúar. Ágóðinn verður notaður til rannsókna á því hvernig gjaldið hefur áhrif á viðhorf og hegðun viðskiptavina. Ákvörðun Starbucks var kynnt sama dag og umhverfisúttektarnefnd breska þingsins beindi þeim tilmælum til ríkisstjórnarinnar að taka upp 25 pensa „latteskatt“ með það að markmiði að árið 2023 verði allir einnota kaffibollar farnir að skila sér í endurvinnslu.
(Sjá frétt The Sun 5. janúar).
Öll raforka á Kosta Ríka endurnýjanleg í 300 daga á þessu ári
Það sem af er þessu ári hefur Kosta Ríka notað eingöngu endurnýjanlega raforku í samtals 300 daga. Þetta er nýtt met þar í landi, en árið 2015 náðust samtals 299 dagar. Nú koma um 99,6% af raforku landsins frá endurnýjanlegum orkugjöfum, þar af 78,3% frá vatnsorku, 10,3% frá vindorku, 10,2% frá jarðvarma og 0,8% frá sólarorku og lífmassa. Almennt er litið á Kosta Ríka sem fyrirmynd annarra þjóða í umhverfismálum. Þarlend stjórnvöld hafa látið til sín taka á fleiri sviðum en í orkugeiranum og m.a. tekið ákvörðun um að banna allt einnota plast fyrir árið 2021.
(Sjá frétt EcoWatch 21. nóvember).