Fáir fataframleiðendur fylgja þræðinum

Aðeins 17 af stærstu fataframleiðendum heims hafa gerst aðilar að yfirlýsingu fataiðnaðarins um gagnsæi (e. The Transparency Pledge) að því er fram kemur í nýrri skýrslu sem gefin var út í tilefni þess að í dag eru liðin fjögur ár frá Rana Plaza slysinu í Bangladesh þar sem rúmlega 1.100 verkamenn í fataiðnaði létust þegar verksmiðjubygging hrundi. Með aðild að yfirlýsingunni heita fyrirtækin því að birta upplýsingar sem gera neytendum kleift að finna hvar fötin þeirra eru framleidd. Samtals var 72 fyrirtækjum boðið að gerast aðilar að yfirlýsingunni og í viðauka við skýrsluna er hægt að sjá viðbrögð hvers þeirra um sig. Yfirskrift skýrslunnar er „Follow the Thread: The Need for Supply Chain Transparency in the Garment and Footwear Industry“.
(Sjá fréttatilkynningu Clean Clothes Campaign 20. apríl).

Spilakassar sem ganga á tómum kókflöskum

26215Spilakassar sem taka við tómum kókflöskum voru nýlega settir upp í Dakka, höfuðborg Bangladesh, sem hluti af kynningarverkefni Coca Cola. Settir voru upp sex spilakassar, öðru nafni hamingjukassar, og á þeim sex dögum sem kassarnir voru virkir söfnuðust þúsundir plastflaskna á sama tíma og gangandi vegfarendur skemmtu sér í tölvuleiknum Pong. Aðalmarkmið verkefnisins var þó ekki að safna flöskum, heldur að auka umhverfisvitund íbúa Bangladesh, undirstrika mikilvægi endurvinnslu og senda þau skilaboð að endurvinnsla gæti verið skemmtileg.
(Sjá frétt EDIE í gær).