IKEA opnar verslun með notaðar vörur

Á næstu vikum opnar húsgagnarisinn IKEA verslun í Eskilstuna, þar sem eingöngu notaðar IKEA-vörur verða boðnar til kaups. Vörurnar mun IKEA sækja á nytjamarkaðinn ReTuna þar í bæ og lagfæra á verkstæði sínu, auk þess sem seldar verða ónotaðar vörur sem hafa skemmst og fengið andlitslyftingu á verkstæðinu. Verðið verður eðlilega mun lægra en á nýjum IKEA-vörum, en opnum verslunarinnar er liður í að laga rekstur IKEA að hringrásarhagkerfinu. Hjá IKEA er gert ráð fyrir að fram til ársins 2027 vaxi markaður fyrir notaðar vörur fjórfalt hraðar en markaður fyrir nýjar vörur.
(Sjá frétt í Aftonbladet 11. september).

Öll bómull hjá IKEA orðin „sjálfbærari“

bomull (160x81)Öll bómull sem húsgagnarisinn IKEA notar í vörur sínar stenst nú kröfur samtakanna Better Cotton Initiative, en að eigin sögn er IKEA fyrsti smásöluaðilinn sem nær þessu markmiði. Better Cotton Initiative var sett á stofn árið 2010 með þáttöku IKEA, WWF og fleiri aðila með það að markmiði að draga úr neikvæðum áhrifum bómullarræktar á umhverfi og samfélag. Upphaflega voru 500 bómullarræktendur í Pakistan með í samstarfinu, en það nær nú til 110.000 ræktenda. Til að uppfylla kröfur samtakanna þarf að draga úr efnanotkun, nýta vatn betur og sækja námskeið um umhverfismál, vinnuumhverfi o.fl. Í fréttatilkynningu frá IKEA kemur fram að umrædd bómull sé „sjálfbærari“ en flest önnur bómull, en hún uppfylli þó ekki kröfur lífrænnar vottunar. Markaðshlutdeild lífrænt vottaðrar bómullar er aðeins um 1% og því nær útilokað fyrir stóra aðila að nýta hana eingöngu sem hráefni í vörur sínar.
(Sjá frétt Miljöaktuellt 16. nóvember).

IKEA sjálfu sér nægt um orku á Norðurlöndunum

WindIKEA_160Með opnun þriðja vindorkulundar IKEA í Svíþjóð í gær er fyrirtækið orðið óháð öðrum um orku fyrir starfsemi sína á Norðurlöndunum, þar sem raforkuframleiðsla fyrirtækisins á svæðinu er orðin meiri en heildarnotkunin. IKEA hefur sett sér það markmið að vera sjálfu sér nægt um orku á heimsvísu árið 2020 og segir talsmaður fyrirtækisins að stórum áfanga hafi verið náð í gær. IKEA hefur til þessa fjárfest fyrir um 1,5 milljarða sænskra króna (SEK) (um 24 milljarða ísl. kr.) í endurnýjanlegri orku í Svíþjóð og í árslok verður heildarfjárfesting þeirra á þessu sviði á heimsvísu væntanlega komin í 14 milljarða SEK (um 222 milljarða ísl. kr.). Fyrirtækið á nú 46 vindmyllur í Svíþjóð og að sögn fulltrúa Orkustofnunar Svíþjóðar er árangur fyrirtækisins dæmi um þann árangur sem atvinnulífið getur náð með frumkvæði og ábyrgð í eigin rekstri.
(Sjá frétt á heimasíðu IKEA 27. maí).

IKEA sjálfbjarga með orku

IKEA ætlar að verða sjálfbjarga með orku árið 2020. Til að ná þessu markmiði hefur fyrirtækið ákveðið að verja 1,5 milljarði evra (um 245 milljörðum ísl. kr) á næstu þremur árum í verkefni á sviði vindorku og sólarorku. Þetta er hluti af metnaðarfullri sjálfbærniáætlun fyrirtækisins sem kynnt var í gær undir yfirskriftinni „The People and Planet Positive“. Þar er einnig að finna markmið um að bæta orkunýtingu fyrirtækisins um 20%, kaupa eingöngu vottaða bómull, bæta hleðslu flutningabíla og endurvinna 90% af öllum úrgangi sem til fellur í verslununum, að ógleymdri LED-ljósavæðingu sem reiknað er með að lækki orkureikning fyrirtækisins um 10% og dragi úr kostnaði um 15 milljónir evra á ári. Þessum aðgerðum er m.a. ætlað að bæta samkeppnisstöðu fyrirtækisins og gera það ónæmt fyrir verðsveiflum á orku- og kolefnismarkaði.
(Sjá frétt The Guardian í gær).

Eingöngu díóðuljós í IKEA 2016

Frá og með árinu 2016 munu hvorki glóperur né sparperur fást í verslunum IKEA, heldur eingöngu díóðuljós (e. light-emitting diodes (LED)). Með þessu gengur IKEA lengra en gerð er krafa um, en sem kunnugt er hefur innflutningur á glóperum af tilteknum styrkleika verið bannaður í löndum ESB. Díóðuljós eru enn talsvert dýrari en glóperur og sparperur, en þau eiga að geta enst í u.þ.b. 20 ár, þurfa mjög litla orku miðað við ljósmagn og innihalda ekki kvikasilfur. Líklegt má telja að ákvörðun IKEA flýti fyrir því að díóðuljós verði fáanleg í góðu úrvali og á viðráðanlegu verði, umhverfi og efnahag til hagsbóta.
(Sjá nánar í fréttatilkynningu IKEA í Svíþjóð 1. október).