IKEA opnar verslun með notaðar vörur

Á næstu vikum opnar húsgagnarisinn IKEA verslun í Eskilstuna, þar sem eingöngu notaðar IKEA-vörur verða boðnar til kaups. Vörurnar mun IKEA sækja á nytjamarkaðinn ReTuna þar í bæ og lagfæra á verkstæði sínu, auk þess sem seldar verða ónotaðar vörur sem hafa skemmst og fengið andlitslyftingu á verkstæðinu. Verðið verður eðlilega mun lægra en á nýjum IKEA-vörum, en opnum verslunarinnar er liður í að laga rekstur IKEA að hringrásarhagkerfinu. Hjá IKEA er gert ráð fyrir að fram til ársins 2027 vaxi markaður fyrir notaðar vörur fjórfalt hraðar en markaður fyrir nýjar vörur.
(Sjá frétt í Aftonbladet 11. september).

Sjö flíkur í ruslið frá hverjum Breta

Hver einasti íbúi Bretlands mun senda 7 flíkur í urðun í vor í framhaldi af árlegri tiltekt í þarlendum fataskápum, að því er fram kemur í könnun sem gerð var með stuðningi Sainsbury’s verslunarkeðjunnar. Samtals munu 680 milljón stykki yfirgefa breska fataskápa þetta vorið, þ.e. 19 stykki á mann, og þar af fara væntanlega 235 milljón stykki í ruslatunnuna og þaðan í urðun. Öll þessi föt væri hægt að endurnota eða endurvinna en helsta ástæða þess að þeim er hent engu að síður er að fólk gerir sér ekki grein fyrir að jafnvel ónýt föt nýtist hjálparstofnunum til fjáröflunar. Þegar fólk var spurt um ástæður þess að það hendi fötum í ruslið í stað þess að gefa þau til hjálparsamtaka, svöruðu 49% að þau vissu ekki að ónýt föt kæmu þessum samtökum að gagni, 16% sögðust ekki hafa tíma til að fara með fötin á þar til gerða móttökustaði og 6% vissu ekki að hægt væri að endurvinna textílvörur.
(Sjá frétt The Guardian 6. apríl).

Breytingar á virðisaukaskatti ýta undir aukna endurnotkun

lagaFjármálaráðuneyti Svíþjóðar kynnti á dögunum tillögu að breytingum á virðisaukaskatti sem miðar að því að lengja líftíma vöru m.a. með því að gera viðgerðir ódýrari. Aðgerðirnar eru í þremur liðum. Í fyrsta lagi er stefnt að því að lækka virðisaukskatt á minni háttar viðgerðum og fyrirbyggjandi viðhaldi úr 25% í 12% og lækka þar með kostnað vegna viðgerða á hjólum, skóm, fatnaði, leðurvörum, húsgögnum o.fl. Í öðru lagi á að veita skattafrádrátt vegna viðgerða á heimilistækjum á borð við þvottavélar, ísskápa, uppþvottavélar og eldavélar. Og í þriðja lagi fá minnstu fyrirtækin (með ársveltu undir 30.000 sænskum krónum (um 450.000 ísl.kr.)) undanþágu frá skilum á virðisaukaskatti. Þessar aðgerðir eiga að auðvelda neytendum að láta gera við bilaðar vörur í stað þess að kaupa nýjar, auk þess sem þær auðvelda smáfyrirtækjum að komast inn á markaðinn. Áformað er að breytingarnar taki gildi 1. júní 2017.
(Sjá fréttatilkynningu Regeriengskansliet 24. mars).

Bestu burðarpokarnir eru þeir sem maður notar oftast

b6b7f6dee9d3b68b_800x800arUmhverfisvænstu burðarpokarnir eru þeir sem eru notaðir oftast, að því er fram kemur í nýrri úttekt Neytendafélags Stokkhólms (KfS). Þetta gildir um alla poka, hvort sem þeir eru gerðir úr plasti eða öðrum efnum. Bómullarpokar eru þannig ekki endilega bestir, enda er framleiðsla á bómull mjög frek á auðlindir. Slíkan poka þarf að nota mörghundruð sinnum til að hann komi betur út en lífplastpoki úr sykurreyr sem notaður er einu sinni. KfS mælir helst með pokum úr endurunnu pólýester, svo sem úr gosflöskum eða fatnaði. Slíkan poka þarf að nota 10-40 sinnum til að hann jafnist á við sykurreyrpokann. Þessir pokar eru efnislitlir og því auðvelt að brjóta þá saman og geyma í vasa eða veski. Þar með aukast líkurnar á að þeir séu notaðir aftur og aftur. Árlega nota Svíar um 1,3 milljarða burðarpoka úr plasti og um 60 milljónir poka úr öðrum efnum.
(Sjá fréttatilkynningu KfS 26. janúar).

Dönsk fyrirtæki gætu grætt milljarða á hringrásarhagkerfinu

money-tree_1170x659Aukin áhersla á hringrásarhagkerfi gæti aukið þjóðarframleiðslu í Danmörku um 0,8-1,4%, skapað 7.000-13.000 ný störf og aukið nettóútflutning um 3-6% miðað við árið 2035, að því er fram kemur í nýrri úttekt frá Ellen MacArthur stofnuninni. Áherslur af þessu tagi gætu m.a. aukið tekjur matvælafyrirtækja um samtals 3-6 milljarða danskra króna á ári (56-112 milljarða ísl. kr.). Samhliða þessu myndi notkun nýrra hráefna minnka og kolefnisfótspor Dana sömuleiðis. Hringrásarhagkerfið miðar að því að hámarka verðmæti aðfanga. Þetta er m.a. hægt að gera með aukinni endurnotkun og endurvinnslu, bættri vöruhönnun og áherslu á ný viðskiptalíkön sem byggja á samnýtingu og kaupleigu.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen 26. nóvember).

Nágrannaskiptikassar lífga upp á Genf

IMG_20150427_113927_0 (160x240)Frá því á árinu 2011 hafa íbúar í Genf í Sviss endurnotað 32 tonn af ýmsum vörum sem settar hafa verið í sérstaka nágrannaskiptikassa. Í þessa kassa getur fólk sett hvaðeina sem það kærir sig ekki um að eiga og tekið þaðan annað sem hugur þess girnist. Kassarnir eru hluti af verkefninu Boîtes D’Échange Entre Voisins. Þeim er ekki aðeins ætlað að stuðla að endurnotkun, heldur einnig af hvetja til samskipta fólks og blása lífi í ónotaða staði. Í samræmi við þetta síðastnefnda hlutverk er kössunum komið fyrir á svonefndum „hvergistöðum“ (e. non-places) þar sem fólk hefur hingað til haft litla ástæðu til að staldra við. Í raun er þarna um að ræða tilraunaverkefni, ekki aðeins í umhverfislegu, heldur einnig í félagslegu, menningarlegu og listrænu samhengi.
(Sjá frétt ENN í dag).