Amazon kynnir loftslagsmerki

Á dögunum hleypti vefverslunin Amazon af stokkunum nýju verkefni sem ætlað er að gera kaupendum auðveldara fyrir að velja vörur sem samræmast markmiðum í loftslagsmálum. Verkefnið nefnist „Climate Pledge Friendly“ (eða „Loftslagsviljavænt“ í mjög lauslegri íslenskri þýðingu). Með þessu verkefni er vakin sérstök athygli á umhverfisvottuðum vörum með því að auðkenna þær með merki verkefnisins. Til að byrja með spannar verkefnið rúmlega 40.000 vörur með 18 mismunandi umhverfismerki eða önnur merki af svipuðum toga, þ.á m. Norræna Svaninn og Umhverfismerki ESB. Í fyrstu verður verkefnið sýnilegt fyrir kaupendur í Frakklandi, Þýskalandi, Ítalíu, Spáni og Bretlandi.
(Sjá frétt á heimasíðu Amazon 28. október).

Umhverfisáhrif tilgreind á kvittuninni

Sænski fataframleiðandinn Asket byrjaði á dögunum að birta upplýsingar um umhverfisáhrif fatnaðar á kvittunum sem fylgja vörunni til kaupenda. Á kvittununum má sjá loftslagsáhrif, vatnsnotkun og orkunotkun hvers þreps í framleiðslu vörunnar, en þessar upplýsingar byggja á lífsferilsgreiningum (LCA) sem rannsóknarfyrirtækið Rise hefur gert fyrir Asket. Til að byrja með fylgja kvittanir af þessu tagi fjórum mest seldu flíkum fyrirtækisins, en um mitt næsta ár verða allar vörur komnar inn í þetta kerfi. Með þessu framtaki vill Asket auka meðvitund neytenda um áhrif vörunnar, þannig að fólk fari að kaupa minna og nota fötin sín lengur.
(Sjá frétt tískutímaritsins Habit 24. september).

Cambridge fyrst með varúðarmerkingar á bensíndælum

Borgarstjórnin í Cambridge í Massachusetts í Bandaríkjunum hefur samþykkt að setja varúðarmerkingar á allar bensín- og dísildælur í borginni í þeim tilgangi að minna á að brennsla á jarðeldsneyti hefur áhrif á loftslag, umhverfi og heilsu. Með þessu verður Cambridge fyrsta borgin í heiminum þar sem skylt verður að setja upp slíkar merkingar. Varaborgarstjórinn Jan Devereux lagði fyrst fram tillögu um slíkar merkingar árið 2016, en sú tillaga náði ekki fram að ganga. Nú hafa áherslur í borgarstjórninni hins vegar breyst og því var tillagan samþykkt á dögunum. Merkingarnar, sem eru í raun sambærilegar við merkingar á tóbaksumbúðum, verða væntanlega settar upp á næstu mánuðum.
(Sjá frétt Gröna bilister 11. febrúar).

Nýtt námsefni um hættuleg efni

Umhverfisstofnun Danmerkur (Miljøstyrelsen) hefur látið útbúa nýtt námsefni sem ætlað er að auðvelda nemendur 2.-6. bekkjar grunnskóla að kynna sér varúðarmerkingar á hættulegum efnum, skilja hvers vegna efnin eru hættuleg og læra hvernig hægt sé að verja sig gegn þessum hættum. Námsefnið nefnist „Húsið hennar Hönnu – og hinar leyndu hættur“ og er öllum aðgengilegt á netinu, án aðgangsorðs.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen 18. september).

Walmart opnar „sjálfbærniverslun“ á netinu

walmart_160Stórfyrirtækið Walmart hefur nú opnað „sjálfbærniverslun“ í netverslun sinni þar sem neytendum eru gefnar upplýsingar um frammistöðu birgja á sviði umhverfis- og samfélagsmála með tilliti til lífsferils vöru. Netverslunin byggir á sjálfbærnistuðli Walmart sem þróaður var af The Sustainability Consortium (TSC), en þetta er í fyrsta sinn sem neytendur fá aðgang að þeim upplýsingum sem þar er að finna. Fyrirmyndarfyrirtæki og birgjar eru sérstaklega merkt á heimasíðunni sem umhverfisvænir kostir, en á þessu stigi nær einkunnagjöfin einungis til fyrirtækja en ekki einstakrar vöru. Walmart telur að upplýsingamiðlun af þessu tagi gefi tóninn fyrir framtíðina og vonast til að þetta hjálpi neytendum til að taka upplýstar ákvarðanir.
(Sjá frétt EDIE 25. febrúar).

Hvar endar flokkaður úrgangur?

InformpeopleSveitarstjórnir og önnur yfirvöld úrgangsmála þurfa að auka til muna upplýsingagjöf til almennings um afdrif flokkaðs úrgangs. Margir telja að flokkuðum úrgangi sé fargað í miklum mæli í stað þess að senda hann til endurvinnslu. Sú er vissulega ekki raunin, en ástæða er til að ætla að gleggri upplýsingar um afdrifin stuðli að meiri og betri flokkun. Þetta er í öllu falli mat bresks úrgangssérfræðings.
(Sjá frétt EDIE 21. nóvember).