Fernur og aðrar matvælaumbúðir úr pappa hafa lægra kolefnisspor en aðrar umbúðir til sömu nota, þ.m.t. umbúðir úr gleri, áli og plasti. Þetta kemur fram í nýrri ritrýndri lífsferilsgreiningu (LCA) sem Tetra Pak í Eyjaálfu hefur látið gera. Glerumbúðir koma verst út með 5-12 sinnum stærra kolefnisspor en fernurnar. Áldósir sem ekki eru úr endurunnu áli koma álíka illa út og glerið, en dósir úr 70% endurunnu áli eru um tvöfalt „verri“ en fernurnar. Léttar plastflöskur úr 100% endurunnu efni eru nokkurn veginn á pari við fernurnar en flöskur úr nýju plasti hafa a.m.k. tvöfalt stærra kolefnisspor. Greiningin náði til allra helstu umbúða af stærðinni 200 ml – 2 l utan utan um G-mjólk, ferska mjólk, ávaxtasafa, vatn og matvöru sem voru á markaði í Ástralíu og Nýja-Sjálandi 2019-2020.
(Sjá frétt PlanetArk í gær).
Greinasafn fyrir merki: plast
Ný heimasíða um PVC
Umhverfisstofnun Danmerkur (Miljøstyrelsen) hefur opnað nýja heimasíðu með upplýsingum fyrir almenning um PVC-plast í byggingarvörum til eigin nota. Markmiðið er m.a. að hjálpa fólki að finna sambærilegar vörur án PVC, þar sem það er á annað borð mögulegt. PVC finnst enn í ýmsum vörum, allt frá skóm og hlífðarfatnaði yfir í leikföng, húsgögn, vínyldúka og raflagnir. Byggingarvörur eru þó stærsti einstaki vöruflokkurinn í þessu sambandi. PVC-plast er bæði endingargott og ódýrt, en því geta hins vegar fylgt ýmis vandamál fyrir heilsuna og umhverfið, m.a. vegna íblöndunarefna sem notuð hafa verið til að gefa plastinu ákjósanlega eiginleika. Mörg þessara efna hafa nú verið bönnuð, en PVC getur þó innihaldið mýkingarefni á borð við þalöt, sem talin eru geta raskað hormónastarfsemi líkamans. Auk þess er PVC vandmeðfarið í framleiðslu, endurvinnslu og förgun.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen 2. nóvember).
Nýtt ensím sem brýtur niður plast á nokkrum dögum
Vísindamenn við háskólann í Portsmouth í Englandi hafa búið til nýtt ensím sem getur brotið niður plastflöskur á nokkrum dögum. Þetta var gert með því að tengja saman tvö ensím úr bakteríu sem japanskir vísindamenn uppgötvuðu árið 2016. Þessi baktería nærðist á plasti og gat brotið það niður á u.þ.b. 6 vikum. Með því að tengja þessi tvö ensím saman fer niðurbrotstími pólýetýlenplasts (PET) hins vegar niður í nokkra daga. Vísindamennirnir í Portsmouth gera sér vonir um að hægt verði að nýta uppgötvun þeirra í endurvinnsluiðnaði innan tveggja ára og benda jafnframt á að þetta sé enn eitt dæmið um mikilvægi þess að vinna með náttúrunni að lausnum á vandamálum samtímans.
(Sjá frétt PlanetArk 7. október).
Ný nanótækni breytir koldíoxíði í etýlen
Vísindamenn í Los Angeles hafa þróað sérstaka nanóvíra úr kopar sem nýtast sem hvatar í efnahvarfi sem breytir koldíoxíði í etýlen. Etýlen hefur hingað til verið framleitt úr jarðefnaeldsneyti, en efnið er m.a. notað í framleiðslu á plasti. Notkun nanóvíra úr kopar í þessu skyni er ekki ný uppfinning, en með breyttri lögun og áferð víranna hefur tekist að auka nýtingarhlutfallið úr 10% í 70%, auk þess sem minna myndast af aukaefnum á borð við vetni og metan. Aðferðin kann því að nýtast til að minnka losun koldíoxíðs út í andrúmsloftið og breyta því í verðmæta vöru.
(Sjá frétt Science Daily 17. september).
Ný aðferð við endurvinnslu á plasti
Vísindamenn við háskólana í Bath og Birmingham hafa þróað nýja aðferð til að endurvinna plast. Með aðferðinni er mögulegt að brjóta plastið niður í grunnsameindir sínar, sem síðan er hægt að breyta í nýtt plast af sömu gerð og í sömu gæðum og upphaflega plastið. Hingað til hefur endurvinnsla á plasti byggst á því að tæta plastið og bræða það en við það breytist eðli þess og efnasamsetning. Nýja aðferðin krefst minni orku og minna magns af skaðlegum efnahvötum en fyrri aðferðir og með henni er fræðilega séð hægt að endurvinna sama plastið aftur og aftur.
(Lesið frétt á heimasíðu Háskólans í Bath 30. janúar).
Örplast lekur úr tepokum úr gerviefnum
Hópur vísindamanna í Kanada hefur sýnt fram á að tepokar úr gerviefnum gefa frá sér gríðarmikið af örplasti þegar þeir eru settir í sjóðheitt vatn. Talning með rafeindasmásjá leiddi í ljós að frá einum slíkum poka bárust u.þ.b. 14,7 milljarðar örplastagna, þar af um 3,1 milljarður nanóplastagna (minni en 100 nanómetrar (nm) í þvermál. (Til samanburðar er þvermál mannshárs um 75.000 nm)). Þessar tölur er mörgþúsund sinnum hærri en áður hefur sést í matvælum. Í tengslum við þetta voru könnuð áhrif mismunandi styrks þessara sömu plastagna á vatnaflær af tegundinni Daphnia magna. Flærnar lifðu tilraunina af en sýndu tiltekin líffærafræðileg og hegðunarleg frávik. Að sögn vísindamannanna þarf meiri rannsóknir til að draga ályktanir um áhrif þessara plastagna á heilsu manna.
(Sjá frétt á heimasíðu American Chemical Society (ACS) 25. september).
Nýtt plast sem hægt er að endurvinna endalaust
Vísindamenn við Berkeley-háskólann í Kaliforníu hafa þróað „næstu kynslóð“ af plasti sem hægt er að endurvinna aftur og aftur án þess að gæðin minnki. Þetta nýja plast, polýdíketóenamín (PDK) hefur þann eiginleika að hægt er að brjóta það niður í grunnsameindir (einliður (e. monomers)) í sterkri sýrulausn sem rýfur jafnframt efnatengi sem binda íblöndunarefni (litarefni, mýkingarefni o.s.frv.) við plastið. Eftir standa þá hreinar einliður sem hægt er að raða saman í nýtt PDK-plast sem er jafngott og það upphaflega og sem hægt er að gefa ákjósanlega eiginleika með nýjum íblöndunarefnum.
(Sjá frétt Waste Management World 17. september).
Örplast heftir vöxt ánamaðka
Örplast í jarðvegi heftir vöxt ánamaðka og leiðir þannig líklega til minni framleiðni viðkomandi vistkerfis. Þetta kemur fram í rannsókn breskra vísindamanna sem birt verður í tímaritinu Environmental Science & Technology. Í rannsókninni var borinn saman vaxtarhraði ánamaðka sem lifðu í mold sem innihélt örplast (HDPE-agnir) og orma sem lifðu í mold án plastagna. Þar sem örplastið var til staðar léttust maðkarnir að meðaltali um 3,1% á 30 daga tímabili, en hinir maðkarnir þyngdust að meðaltali um 5,1% á sama tíma. Ekki er fullljóst hvernig örplastið hefur þessi áhrif en höfundar rannsóknarinnar telja líklegt að plastið trufli upptöku næringarefna í meltingarvegi og leiði þannig til þyngdartaps. Leiða má að því getum að þetta hafi keðjuverkandi áhrif í vistkerfinu, þar sem maðkarnir gegna mikilvægu hlutverki í niðurbroti lífrænna efna og í loftun jarðvegs.
(Sjá frétt Science Daily 11. september).
Tíu verstu plastbófarnir
Með hjálp 10.000 sjálfboðaliða í 42 löndum hafa samtökin Greenpeace og Break Free from Plastic safnað plastrusli og skrásett nöfn fyrirtækjanna sem framleiddu plastið – og nú hafa þessar upplýsingar verið birtar í formi lista yfir 10 stórtækustu plastruslsframleiðendurna. Coca Cola trónir á toppi listans, en rusl þaðan var nánast alls staðar í einu af þremur efstu sætunum. Pepsi lenti í öðru sæti listans og Nestlé í því þriðja. Greenpeace hefur í framhaldi af þessu sett í gang átakið #IsThisYours, þar sem fólk er hvatt til að setja myndir af rusli inn á samfélagsmiðla, merktar framleiðandanum og átakinu.
(Sjá frétt Aktuell hållbarhet í gær).
Engar plastflöskur í Lundúnahálfmaraþoninu
Engar plastflöskur verða leyfðar í Lundúnahálfmaraþoninu sem fram fer nk. sunnudag. Þess í stað fá hlauparar afhenta sérstaka vatnspoka á drykkjarstöðvum, en þessir pokar eru gerðir úr þörungum og brotna auðveldlega niður í náttúrunni. Hlaupararnir geta þá hvort heldur sem er bitið gat á pokann og drukkið vatnið eða borðað pokann með innihaldinu. Þetta fyrirkomulag tengist annarri viðleitni borgaryfirvalda í London til að draga úr notkun á einnota plastflöskum, en talið er að á hverri mínútu sé um ein milljón slíkra flaskna seldar í heiminum. Stór hluti af þeim endar í urðun eða úti í sjó.
(Sjá frétt The Guardian í gær).