Amazon kynnir loftslagsmerki

Á dögunum hleypti vefverslunin Amazon af stokkunum nýju verkefni sem ætlað er að gera kaupendum auðveldara fyrir að velja vörur sem samræmast markmiðum í loftslagsmálum. Verkefnið nefnist „Climate Pledge Friendly“ (eða „Loftslagsviljavænt“ í mjög lauslegri íslenskri þýðingu). Með þessu verkefni er vakin sérstök athygli á umhverfisvottuðum vörum með því að auðkenna þær með merki verkefnisins. Til að byrja með spannar verkefnið rúmlega 40.000 vörur með 18 mismunandi umhverfismerki eða önnur merki af svipuðum toga, þ.á m. Norræna Svaninn og Umhverfismerki ESB. Í fyrstu verður verkefnið sýnilegt fyrir kaupendur í Frakklandi, Þýskalandi, Ítalíu, Spáni og Bretlandi.
(Sjá frétt á heimasíðu Amazon 28. október).

Svanaðu lífið

Á dögunum hleypti skrifstofa Svansins í Svíþjóð af stokkunum nýju átaki undir yfirskriftinni „Svana ditt liv“, eða „Svanaðu lífið“. Tilgangurinn með átakinu er að fá fleiri neytendur til að taka upp sjálfbærari lífsstíl. Sögnin „að svana“ er nýyrði sem nær yfir hvers konar aðgerðir í anda sjálfbærrar þróunar, þ.m.t. að flokka úrgang, ferðast saman, neyta sparlega og kaupa svansmerktar vörur. Orðinu er ætlað að hvetja fólk og gera því auðveldara fyrir, bæði að tala um og lifa sjálfbærara lífi.
(Sjá frétt á heimasíðu Svansins í Svíþjóð 27. janúar).

Fyrstu Svansmerktu drykkjarumbúðirnar

Umbúðafyrirtækið Tetra Pak í Svíþjóð varð á dögunum fyrst allra fyrirtækja til að fá vottun Norræna svansins fyrir drykkjarumbúðir. Ef allir Norðurlandabúar myndu velja þessar tilteknu drykkjarumbúðir (Tetra Rex® Plant-based) í stað umbúða sem nú eru notaðar í sama tilgangi, myndi losun koldíoxíðs minnka um 30.000 tonn á ári. Meðal krafna sem Svanurinn gerir til drykkjarumbúða er að þær samanstandi af a.m.k. 90% endurnýjanlegu efni (fernur) eða a.m.k. 80% endurunnu efni (gler,ál) eða a.m.k. 80% endurunnu/endurnýjanlegu efni (plast). Auk þess eru gerðar strangar kröfur um efnanotkun o.fl.
(Sjá frétt á heimasíðu Svansins í Svíþjóð 23. janúar).

Fyrstu Svansmerktu útileiktækin

Danska fyrirtækið CADO hóf nýlega framleiðslu á fyrstu Svansmerktu útileiktækjunum í heiminum, en þessi tæki henta vel í „útiræktina“, þ.e. á líkamsræktarsvæði utandyra. Til þess að fá vottun Svansins þurfa útileiktæki að uppfylla ýmsar kröfur sem ná til alls lífsferils tækjanna. Sem dæmi má nefna að efni sem notuð eru í yfirborðsmeðhöndlun þurfa að uppfylla tilteknar kröfur, mæta þarf viðmiðum um notkun endurunninna málma og þegar tækin hafa lokið hlutverki sínu þarf að vera auðvelt að aðskilja málma og önnur efni þannig að hægt verði að nota þau á nýjan leik. Auk þess eru gerðar kröfur um notagildi og öryggi tækjanna, um endingu þeirra og veðraþol.
(Sjá frétt á heimasíðu Svansins í Svíþjóð 16. október).

Fyrsti Svansmerkti skóli Noregs opnaður

Á dögunum var fyrsta Svansmerkta skólabyggingin í Noregi tekin í notkun í Røyken, en til að fá Svaninn þurfa byggingar að uppfylla strangar kröfur um byggingarefni, byggingaraðferðir, efnanotkun, orkunýtingu, lýsingu, loftræsingu, hljóðvist og sitthvað fleira. Skólinn er byggður úr timbri og rúmar 130 nemendur í 14 skólastofum. Byggingartíminn var tvö ár og byggingarkostnaður um 170 milljónir norskra króna (tæplega 2,4 milljarðar ísl. kr.). Þetta er „skóli fyrir framtíðina“, eins og Anita Winsnes, framkvæmdastjóri Svansins í Noregi, orðaði það við opnunarathöfnina.
(Sjá frétt á heimasíðu Svansins í Noregi 23. ágúst).

Sjóðakosningadagur í Svíþjóð á morgun

Á morgun, 21. febrúar, verður efnt til sérstaks sjóðakosningadags í Svíþjóð, þar sem sænskir sparifjáreigendur verða aðstoðaðir við að kjósa fjárfestingarsjóði sem fjárfesta markvisst í fyrirtækjum sem stuðla að sjálfbærri þróun, eða með öðrum orðum að velja sjálfbærari fjármagnsmarkað og þar með grænni framtíð. Í könnun sem gerð var seint á síðasta ári kom fram að 37% sænskra sparifjáreigenda vilja gjarnan leggja fé sitt í sjálfbæra fjárfestingarsjóði og að það sem helst hindri þá í því sé að þeir hafi ekki tíma til að kynna sér áherslur sjóðanna. Skrifstofa Norræna Svansins í Svíþjóð stendur fyrir sjóðakosningadeginum, en frá því í október 2017 hafa fjárfestingarsjóðir sem uppfylla tiltekin skilyrði getað sótt um Svansvottun.
(Sjá frétt Svansins í Svíþjóð 13. febrúar).

Svansmerking skíðaáburðar á döfinni

Í nánustu framtíð verður væntanlega hægt að kaupa skíðaáburð með vottun Norræna svansins, en drög að viðmiðunarkröfum fyrir þennan varning eru nú í opnu umsagnarferli. Í drögunum er gert ráð fyrir að til að fá Svansvottun þurfi skíðaáburður m.a. að vera laus við flúorefni, gefa gott rennsli, hrinda frá sér óhreinindum, endast vel og standast gæðasamanburð við samsvarandi áburð sem inniheldur flúor. Hægt er að senda inn umsagnir um drögin fram til 10. mars nk.
(Sjá frétt á heimasíðu Svansins í Noregi 10. janúar).

Hættuleg efni algeng í snyrtivörum fyrir börn

Dönsku neytendasamtökin Tænk könnuðu nýlega innihaldslýsingar á allmörgum tegundum af snyrtivörum sem ætlaðar eru börnum. Í 27 tilvikum reyndust þessar vörur innihalda efni sem eru talin geta valdið ofnæmi, truflað hormónastarfsemi líkamans og haft neikvæð áhrif á frjósemi, nánar tiltekið efnin BHT, própýlparaben og etýlhexýlmetoxýcinnamat. Tænk bendir á að börn á vaxtarskeiði séu einkar viðkvæm fyrir efnum af þessu tagi og jafnvel þótt hvert efni um sig geri lítinn skaða til skamms tíma geti samverkandi áhrif fleiri efna (kokteiláhrif) valdið heilsutjóni. Foreldrum er ráðlagt að velta fyrir sér þörfinni á að börn noti snyrtivörur, að nota smáforritið Kemiluppen til að skanna þær vörur sem keyptar eru og velja helst svansmerktar vörur og vörur með viðurkenndum ofnæmismerkjum á borð við Bláa kransinn.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk 30. nóvember).

Fyrsti Svansmerkti leikskóli Noregs opnaður

Á dögunum var fyrsti Svansmerkti leikskóli Noregs opnaður í Overhalla í Norður-Þrændalögum. Svansvottun tekur til alls lífsferils viðkomandi vöru eða þjónustu og fyrir leikskóla þýðir þetta m.a. að gerðar eru strangar kröfur bæði til byggingarinnar og rekstrarins. Sem dæmi má nefna að í Svansmerktum byggingum mega hvergi finnast bakteríudrepandi efni, enda geta þau aukið hættuna á þróun lyfjaónæmra baktería. Orkunotkun þarf að vera afar lítil og í leikskólanum í Overhalla er því m.a. náð með sólarsellum, góðri einangrun, endurnýtingu varma úr loftræsi- og fráveitukerfum, orkunýtnum heimilistækjum og lýsingu. Svansmerktir leikskólar þurfa einnig að uppfylla kröfur um hljóðvist til að lágmarka hávaða innan dyra. Þegar Svansleyfið var afhent sagði Per Olav Tyldum, forseti sveitarstjórnar Overhalla, að sveitarfélagið vildi vera í fararbroddi í umhverfismálum og að þetta væri sérlega mikilvægt þegar börn ættu í hlut, þar sem þau væru jú framtíðin okkar.
(Sjá frétt á heimasíðu Svansins í Noregi 2. nóvember).

Danskir neytendur hugsa grænt

Um 60% danskra neytenda taka mið af umhverfismerkjum þegar þeir kaupa vörur. Vörur sem merktar eru t.d. með Norræna svaninum, Umhverfismerki ESB eða danska Ø-merkinu fyrir lífræna framleiðslu eiga því greiðari leið ofan í innkaupakörfurnar en aðrar vörur. Þetta á sérstaklega við um vörur til daglegra nota, svo sem matvörur, hreinsivörur og húðvörur, en hins vegar virðast umhverfisþættir ekki vega eins þungt við innkaup á heimilistækjum og húsgögnum. Þar eru neytendur e.t.v. ekki orðnir eins vanir því að vörurnar fáist umhverfismerktar.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen 19. september).