Hópur meistaranema við Imperial College og Royal College of Art í London hefur þróað búnað sem fangar örplastagnir úr hjólbörðum um leið og þær myndast. Fyrir þetta fá nemarnir bresku James Dyson verðlaunin og öðlast um leið rétt til að keppa um alþjóðlegu James Dyson verðlaunin sem afhent verða í 16. sinn í nóvember. Flestir vita að hjólbarðar slitna við notkun en færri virðast velta því fyrir sér hvað verður um efnið sem yfirgefur hjólbarðana við slitið. Áætlað er að árlega falli til um 500.000 tonn af örplastögnum úr hjólbörðum í Evrópu – og á heimsvísu er talið að slíkar agnir séu um helmingur af öllu svifryki frá umferð, auk þess að vera næststærsta uppspretta örplastmengunar í hafinu. Búnaðurinn sem um ræðir nýtir stöðurafmagn og loftstreymi frá hjólbörðum á hreyfingu til að soga til sín agnirnar um leið og þær losna. Uppfinningafólkið segir að þeim hafi þannig tekist að fanga 60% af öllum ögnum sem hjólbarðarnir gefa frá sér. Agnirnar má síðan endurvinna til að framleiða nýja hjólbarða og ýmsar aðrar vörur.
(Sjá frétt The Guardian í dag).
Greinasafn fyrir flokkinn: Hafið
Þang til að minnka metanlosun frá mjólkurkúm
Danskir vísindamenn eru þessa dagana að hleypa af stokkunum fjögurra ára rannsóknarverkefni undir yfirskriftinni Climate Feed þar sem ætlunin er að þróa fæðubótarefni úr þörungum sem gæti minnkað metanlosun frá mjólkurkúm um 30%. Verkefnið felur í sér þróun aðferða við að rækta þörunga sem hafa þessi áhrif og vinna úr þeim duft eða köggla sem auðvelt er að bæta í fóður nautgripa, án neikvæðra áhrifa á nyt kúnna eða bragð og gæði mjólkurinnar. Þörungar sem ræktaðir verða á dönskum strandsvæðum ættu m.a. að geta nýtt næringarefni sem skolast í sjóinn frá landbúnaði. Hreinni sjór og sjálfbærari landbúnaður gætu því orðið hliðarafurðir verkefnisins, auk þess sem varan ætti að draga úr fóðurþörf með því að draga úr orkutapi vegna metanlosunar. Háskólinn á Árósum sér um val á tegundum og þróun ræktunaraðferða, en verkefnið er styrkt um 11,7 milljónir danskra króna (um 217 millj. ísl. kr.) af danska nýsköpunarsjóðnum. Heildarkostnaður er áætlaður 17 milljónir DKK (um 315 millj. ísl. kr.).
(Sjá frétt vefmiðilsins Økologisk 6. september).
Tíu verstu plastbófarnir
Með hjálp 10.000 sjálfboðaliða í 42 löndum hafa samtökin Greenpeace og Break Free from Plastic safnað plastrusli og skrásett nöfn fyrirtækjanna sem framleiddu plastið – og nú hafa þessar upplýsingar verið birtar í formi lista yfir 10 stórtækustu plastruslsframleiðendurna. Coca Cola trónir á toppi listans, en rusl þaðan var nánast alls staðar í einu af þremur efstu sætunum. Pepsi lenti í öðru sæti listans og Nestlé í því þriðja. Greenpeace hefur í framhaldi af þessu sett í gang átakið #IsThisYours, þar sem fólk er hvatt til að setja myndir af rusli inn á samfélagsmiðla, merktar framleiðandanum og átakinu.
(Sjá frétt Aktuell hållbarhet í gær).
Örplast safnast upp í sandi á strandsvæðum
Örplast virðist safnast upp á sandströndum, ekki bara á yfirborðinu heldur líka á nokkru dýpi. Þetta kom fram í rannsóknum vísindamanna frá Háskólanum í Exeter á magni örplasts á tiltölulega afskekktum sandströndum á Kýpur. Þar fundust um 130.000 örplastagnir í hverjum rúmmetra sands á yfirborðinu og um 5.300 agnir í hverjum rúmmetra á 60 cm dýpi. Hærri talan er sú næsthæsta sem mælst hefur á strandsvæði. Örplastið getur breytt eðlisfræðilegum eiginleikum sandsins, þ.á.m. hitastigi, sem aftur getur truflað klak skjaldbökueggja sem mikið er af á þessu svæði. M.a. getur þetta hugsanlega skekkt kynhlutfall unganna, en þekkt er að hlutfallslega fleiri kvendýr koma úr eggjum þar sem sandurinn er heitari. Talið er að mest af örplastinu á ströndum Kýpur hafi komið frá fastalandinu við austanvert Miðjarðarhaf.
(Sjá frétt á heimasíðu Háskólans í Exeter 26. september).
Örplast dreifist með moskítóflugum
Örplast sem moskítólirfur innbyrða í vatni er að einhverju marki enn til staðar eftir að lirfan hefur umbreyst í fullvaxna flugu. Dýr sem nærast á lirfum og flugum fá því örplastið í sig og þannig getur það borist upp fæðukeðjuna. Þetta kom fram í rannsókn sem sagt er frá í tímaritinu Biology Letters. Örplast finnst í miklu magni í sjó og vötnum en ekki hefur áður verið sýnt fram á að það geti dreifst loftleiðis með skordýrum.
(Sjá frétt Science-X í dag).
Engar plastflöskur í Lundúnahálfmaraþoninu
Engar plastflöskur verða leyfðar í Lundúnahálfmaraþoninu sem fram fer nk. sunnudag. Þess í stað fá hlauparar afhenta sérstaka vatnspoka á drykkjarstöðvum, en þessir pokar eru gerðir úr þörungum og brotna auðveldlega niður í náttúrunni. Hlaupararnir geta þá hvort heldur sem er bitið gat á pokann og drukkið vatnið eða borðað pokann með innihaldinu. Þetta fyrirkomulag tengist annarri viðleitni borgaryfirvalda í London til að draga úr notkun á einnota plastflöskum, en talið er að á hverri mínútu sé um ein milljón slíkra flaskna seldar í heiminum. Stór hluti af þeim endar í urðun eða úti í sjó.
(Sjá frétt The Guardian í gær).
Horfur á stórfelldum samdrætti í fiskveiðum
Líkur eru á að árið 2300 verði fiskafli í heiminum að meðaltali 20% minni en hann er nú og að í Norður-Atlantshafi verði samdrátturinn um 60%. Þetta kemur fram í grein sem vísindamenn við Háskólann í Kaliforníu rita í nýjasta tölublað Science. Með hækkandi hitastigi sjávar og bráðnun íss á heimskautasvæðunum mun ljóstillífun plöntusvifs við Suðurskautslandið vaxa verulega, sem þýðir að næringarefni (einkum köfnunarefni og fosfór) hætta að berast þaðan til annarra hafsvæða í sama mæli og nú. Þar af leiðandi mun plöntusvifi fara hnignandi á þeim svæðum og sú hnignun mun ganga upp alla fæðukeðjuna.
(Sjá frétt Science Daily 8. mars).
Nýr leiðarvísir um örplast frá gervigrasvöllum
Umhverfisstofnun Svíþjóðar (Naturvårdsverket) hefur tekið saman sérstakan leiðarvísi fyrir rekstraraðila gervigrasvalla um aðgerðir til að koma í veg fyrir að plastkurl úr gervigrasinu berist út í umhverfið. Plastagnir (2-3 mm í þvermál) eru notaðar í miklum mæli sem fyllingarefni í gervigras og í ljós hefur komið að gervigrasvellir eru ein helsta uppspretta örplastmengunar í náttúrunni. Í leiðarvísinum er bent á nokkrar aðgerðir sem mælt er með að verði gripið til, þ.á.m. að safna snjó sem mokað er af gervigrasvöllum á þar til gerð svæði svo að hægt verði að safna plastkurlinu saman þegar snjóa leysir og koma því aftur inn á völlinn eða í úrgangsmeðhöndlun, í stað þess að leyfa því að renna til sjávar með ofanvatni. Þá er lagt til að útbúin verði aðstaða þar sem notendur vallanna geta dustað af sér kurlið á leiðinni útaf og að allir rekstraraðilar gangi frá sérstakri áætlun um mengunarvarnir.
(Sjá frétt á heimasíðu Naturvårdsverket 5. mars).
Hægt að minnka plastmengun hafsins um 77% fyrir árið 2025
Með því að fjárfesta í úrbótum í úrgangsmálum fátækari landa væri hægt að minnka verulega það magn af plastúrgangi sem berst í hafið árlega. Árið 2025 gæti magnið verið komið niður í 2,4-6,4 milljónir tonna, sem samsvarar um 77% samdrætti frá því sem nú er. Þessar tölur koma fram í nýrri skýrslu ráðgjafarfyrirtækisins Nextek sem kynnt var í vikunni. Þar er bent á að enn séu ekki til neinar árangursríkar aðferðir til að hreinsa plast úr hafinu og að því verði að leggja megináherslu á að fyrirbyggja að plastið berist þangað. Skref í þessa átt væri að nota eingöngu endurnýjanlegar umbúðir, enda hafi menn enga afsökun fyrir því að gera það ekki. Þá þurfi ríkari lönd að veita verulegu fé til úrbóta í úrgangsmeðhöndlun í fátækari löndum, en ástandið er einna verst í Kína, Indónesíu, Filippseyjum og Sri Lanka. Þegar skýrslan var kynnt kom fram að plastmengun í hafi væri orðin svo alvarleg að hún þyrfti að vera á dagskrá allra alþjóðlegra funda á borð við fundi G20-ríkjanna, Alþjóðaefnahagsráðsins (World Economic Forum) og Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna.
(Sjá frétt Waste Management World í dag).
Örplast mengar jafnvel ystu afkima úthafanna
Örplast finnst jafnvel á afskekktustu svæðum úthafanna. Þetta kom fram þegar sýni voru tekin á 45,5°S í Suður-Indlandshafi á svæði sem er nánast ókannað og ósnortið af athöfnum manna. Þarna reyndust vera 42 örplastagnir í hverjum rúmmetra sjávar, sem er mun meira en gert hafði verið ráð fyrir. Þetta mun vera í fyrsta sinn sem örplastmælingar eru gerðar á svo afskekktu hafsvæði. Magn örplasts er þó mun meira á fjölfarnari svæðum. Sem dæmi má nefna að 180-307 örplastagnir mælast í hverjum rúmmetra sjávar nálægt ströndum í Norður-Atlantshafi og í Miðjarðarhafi. Talið er að samtals lendi meira en 8 milljón tonn af plasti í hafinu á hverju ári og í raun vita menn lítið um afdrif þess.
(Sjá frétt The Guardian 12. febrúar).