Bresku bændasamtökin (NFU), Heathrow flugvöllur og fleiri aðilar hafa tekið höndum saman um að þrýsta á ríkisstjórn Bretlands að móta skýra stefnu um föngun kolefnis og aðrar aðgerðir til að ná fram neikvæðri losun gróðurhúsalofttegunda. Hópurinn bendir á að móta þurfi slíka stefnu strax til að tími gefist til að þróa tækni sem beita má í þessu skyni, með sérstakri áherslu á þær atvinnugreinar þar sem losun er mest. Skjót viðbrögð í þessa átt séu forsenda þess að Bretland geti náð markmiði sínu um kolefnishlutleysi. Góð viðleitni til að draga úr losun frá flugi, stóriðju, landbúnaði o.s.frv. muni ekki duga ein og sér, og því séu mínuslosunarverkefni óhjákvæmilegur hluti þeirra aðgerða sem grípa þurfi til. Um leið snúist málið um samkeppnishæfni Bretlands og virkjun tækifæra sem liggja í nýsköpun á þessu sviði.
(Sjá frétt Business Green 12. október).
Greinasafn fyrir merki: kolefnishlutleysi
LEGO setur 2,5 milljarða DKK í sjálfbærnistarfið
Á næstu þremur árum ætlar danski leikfangaframleiðandinn LEGO að verja 2,5 milljörðum danskra króna (um 54 milljörðum ISK) til að gera reksturinn og framleiðsluvörurnar umhverfisvænni. Þetta verður m.a. gert með því að hætta að nota poka úr einnota plasti utan um lausa kubba og nota þess í stað FSC-vottaða bréfpoka. Þá er stefnt að því að fyrirtækið verði orðið kolefnishlutlaust árið 2022, en því verður m.a. náð með eigin raforkuframleiðslu með sólarskjöldum. Þá er ætlunin að minnka vatnsnotkun um 10% fram til 2022 – og frá og með árinu 2025 verður enginn úrgangur sendur til urðunar. Loks má nefna viðleitni til að kenna börnum um sjálfbæra þróun í gegnum leik þeirra að LEGO-kubbum. Allt er þetta liður í viðleitni LEGO til að styðja við Sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna nr. 4 (Menntun fyrir alla) og 12 (Ábyrg neysla og framleiðsla).
(Sjá frétt á heimasíðu LEGO 15. september).