Enska leikhússamstæðan Royal Shakespeare Company (RSC) hefur ákveðið að rifta styrktarsamningi við olíurisann BP frá og með næstu áramótum, en BP hefur styrkt leikhúsin með fjárframlögum allt frá árinu 2011. Ákvörðun RSC er til komin vegna þrýstings frá ungu fólki sem hefur gefið til kynna að tengsl leikhúsanna við olíurisann dragi úr áhuga þeirra á að njóta þess sem leikhúsin hafa að bjóða. Að sögn forsvarsmanna RSC eru þetta skilaboð sem ekki sé hægt að horfa framhjá og því hafi þessi ákvörðun verið tekin, þrátt fyrir þann fjárhagslega missi sem henni fylgir.
(Sjá frétt á heimasíðu RSC 2. október).
Greinasafn fyrir merki: styrkir
Norska ríkið styrkir loftslagsverkefni sveitarfélaga
Í dag úthlutaði Umhverfisstofnun Noregs (Miljødirektoratet) 98 milljónum norskra króna (rúmlega 1,3 milljörðum ísl. kr.) til samtals 142 loftslagsverkefna í 89 þarlendum sveitarfélögum, en samtals bárust stofnuninni 332 umsóknir um styrki af þessu tagi. Þarna er um að ræða svonefnt „Klimasats-fé“ sem var sérstaklega eyrnamerkt í fjárlögum til að styðja við aðgerðir sveitarfélaga sem miða að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og vísa veginn til kolefnishlutlausrar framtíðar. Verkefnin sem í hlut eiga eru margvísleg, en sem dæmi má nefna útblásturslaus byggingarsvæði, nýtingu timburs sem byggingarefnis í stað stáls og steinsteypu, hleðslustöðvar fyrir bíla í eigu sveitarfélaga, tilraunir með rafknúnar vinnuvélar, innviði fyrir rafhjól, reiðhjólahótel við lestarstöðvar og skipulagsverkefni með sérstakri áherslu á loftslagsmál. Auk loftslagsáherslunnar eru mörg verkefnanna til þess fallin að bæta loftgæði og þar með heilsu fólks á viðkomandi svæðum.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljødirektoratet í dag).
Miljøstyrelsen styrkir umhverfisvottaða fataframleiðslu
Umhverfisstofnun Danmerkur (Miljøstyrelsen) auglýsti á dögunum eftir umsóknum frá dönskum fyrirtækjum sem vilja framleiða umhverfismerkt föt og aðrar textílvörur. Styrkina geta fyrirtækin notað til að kaupa sérfræðiráðgjöf vegna undirbúnings umhverfisvottunar samkvæmt kröfum Norræna svansins eða Umhverfismerkis ESB. Tilgangurinn með styrkveitingunni er að byggja upp reynslu innanlands í framleiðslu á umhverfisvottuðum klæðnaði og auðvelda fyrirtækjum að kynna sér kosti umhverfismerkjanna. Hæsti styrkur til einstakra fyrirtækja getur numið 99.000 dönskum krónum (tæplega 1,7 milljónum ísl. kr.).
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen 14. október).
G20-ríkin moka fé í olíuiðnaðinn
G20-ríkin verja árlega um 452 milljörðum Bandaríkjadala (um 59.000 milljörðum ísl. kr.) í stuðning við kola-, olíu- og gasiðnaðinn, að því er fram kemur í nýrri skýrslu bresku hugveitunnar Overseas Development Institute. Í skýrslunni eru umrædd ríki gagnrýnd fyrir að fylgja ekki eigin stefnu í loftslagsmálum, en þau hafa öll heitið að vinna gegn loftslagsbreytingum. Stuðningur ríkjanna við jarðefnaeldsneytisgeirann er fjórfalt hærri en allir samanlagðir ríkisstyrkir þjóða heims til framleiðslu á endurnýjanlegri orku, svo sem í sólar- og vindorkuverum. Með afnámi styrkja til jarðefnaeldsneytisgeirans myndi skapast eðlilegt samkeppnisumhverfi á orkumarkaði, að því er fram kemur í skýrslunni.
(Sjá frétt EurActive 12. nóvember).
Breska ríkisstjórnin svíkur grænt loforð
Á valdatíma núverandi ríkisstjórnar í Bretlandi hafa þarlend stjórnvöld veitt 300 sinnum meira fé til stuðnings við vinnslu og nýtingu jarðefnaeldsneytis erlendis en til þróunar sjálfbærra orkugjafa. Yfirvöld hafa þannig rofið hið svokallaða „græna fyrirheit“ í stjórnarsáttmálanum frá 2010, þar sem ríkisstjórnin hét því að ýta undir þróun sjálfbærra orkugjafa erlendis og velja slíka orkugjafa umfram aðra. Í sáttmálanum kom einnig fram að ríkisstjórnin vildi vera leiðandi í útflutningi þekkingar og tækni sem tengist sjálfbærri orku. Stuðningur við óendurnýjanlega orkugjafa er kominn í samtals um 1,13 milljarða punda (um 229 milljarða ísl. kr.) það sem af er, aðallega í formi lána og lánatrygginga vegna verkefna í Brasilíu og Rússlandi. Hins vegar hafa aðeins um 3,6 milljónir punda (um 728 milljónir ísl. kr.) farið í uppbyggingu endurnýjanlegrar orku erlendis, og var þeirri upphæð nánast allri varið í uppbyggingu vindorkuvers í Þýskalandi.
(Sjá frétt the Guardian í dag).