Leikskólabörn sem leika sér á náttúrulegum leiksvæðum með fjölbreyttum gróðri hafa sterkara ónæmiskerfi en börn sem leika sér í sandkössum og á malarlóðum. Með því að gera leiksvæðin náttúrulegri er meira að segja hægt að styrkja ónæmiskerfi barnanna umtalsvert á aðeins fjórum vikum. Þetta er niðurstaða rannsóknar finnskra vísindamanna sem sagt var frá í tímaritinu Science Advances í fyrradag. Eftir 28 daga höfðu náttúrusvæðabörnin þriðjungi fjölbreyttari örverur á húðinni en sandkassabörnin og munurinn á örveruflórunni í þörmum barnanna var marktækur. Þá sýndu blóðprufur jákvæðar breytingar í mælingum á mörgum próteinum og frumum sem tengjast ónæmiskerfinu, þ.m.t. T-frumum. Jákvæð áhrif náttúrulegu svæðanna eru talin liggja í því að þar eru börnin í snertingu við mun fjölbreyttara lífríki, sem er lykillinn að styrkingu ónæmiskerfisins. Þetta getur hugsanlega skipt máli til að fyrirbyggja sjálfsofnæmissjúkdóma á borð við astma, excem, sykursýki 1, MS og bólgusjúkdóma í meltingarfærum (IBD), en tíðni þessara sjúkdóma hefur vaxið hratt á Vesturlöndum á síðustu árum.
(Sjá frétt The Guardian 14. október).
Greinasafn fyrir merki: leikskóli
Fyrsti Svansmerkti leikskóli Noregs opnaður
Á dögunum var fyrsti Svansmerkti leikskóli Noregs opnaður í Overhalla í Norður-Þrændalögum. Svansvottun tekur til alls lífsferils viðkomandi vöru eða þjónustu og fyrir leikskóla þýðir þetta m.a. að gerðar eru strangar kröfur bæði til byggingarinnar og rekstrarins. Sem dæmi má nefna að í Svansmerktum byggingum mega hvergi finnast bakteríudrepandi efni, enda geta þau aukið hættuna á þróun lyfjaónæmra baktería. Orkunotkun þarf að vera afar lítil og í leikskólanum í Overhalla er því m.a. náð með sólarsellum, góðri einangrun, endurnýtingu varma úr loftræsi- og fráveitukerfum, orkunýtnum heimilistækjum og lýsingu. Svansmerktir leikskólar þurfa einnig að uppfylla kröfur um hljóðvist til að lágmarka hávaða innan dyra. Þegar Svansleyfið var afhent sagði Per Olav Tyldum, forseti sveitarstjórnar Overhalla, að sveitarfélagið vildi vera í fararbroddi í umhverfismálum og að þetta væri sérlega mikilvægt þegar börn ættu í hlut, þar sem þau væru jú framtíðin okkar.
(Sjá frétt á heimasíðu Svansins í Noregi 2. nóvember).
Leikskóli selur foreldrum matarafganga
Foreldrar barna á leikskólanum Dalby Hage utan við Uppsali í Svíþjóð eiga þess nú kost að kaupa matarafganga frá leikskólanum. Matráðskonan á leikskólanum stakk upp á þessu á foreldrafundi og fékk góðar undirtektir. Afgangarnir eru seldir í öskjum og kostar skammturinn 25 sænskar krónur (um 380 ísl. kr.). Foreldrar hafa tekið þessu fagnandi og um leið dregur þetta úr matarsóun á leikskólanum. Tekjunar af sölunni verða nýttar til að auka hlutdeild lífrænna matvæla og staðbundinnar framleiðslu í innkaupum leikskólans.
(Sjá frétt MiljöAktuellt í dag).
Leikskólar með næstum 100% lífrænt fæði
Tveir leikskólar í Moss í Noregi fengu í byrjun þessa árs staðfestingu vottunarstofunnar Debio á því að yfir 90% af öllum mat sem börnin fá í leikskólunum sé lífrænt vottaður. Um er að ræða einkarekna leikskóla, þar sem ákvörðun var tekin fyrir ári síðan um að börnin skyldi eingöngu fá lífrænt vottað fæði. Um leið er börnunum kennt um uppruna fæðunnar, því að allur matur er keyptur inn sem hráefni og unninn á staðnum með virkri þátttöku barnanna. Meðal annars fara börnin í heimsókn á sveitabæi og gera síðan sína eigin osta og baka sín eigin brauð, auk þess sem leikskólarnir hafa sína eigin matjurtagarða. Þá hefur verið haldið sérstakt „lífrænt bakstursnámskeið“ fyrir starfsfólk, svo eitthvað sé nefnt. Stjórnendur leikskólanna vonast til að fleiri leikskólar fylgi í kjölfarið og breyti verklagi við innkaup og matargerð.
(Sjá frétt á heimasíðu Debio 29. janúar).