Metvöxtur í endurnýjanlegri orku

Um 90% allra raforkuvera sem sett verða upp í heiminum á þessu ári nýta endurnýjanlega orku, að því er fram kemur í skýrslu sem Alþjóðaorkumálastofnunin (IEA) gaf út í dag. Mikil aukning hefur orðið á þessu sviði á árinu, á sama tíma og samdráttur hefur verið í nýtingu jarðeldsneytis. Með sama áframhaldi verður þriðjungur af allri raforku heimsins af endurnýjanlegum uppruna árið 2025 – og þar með ná endurnýjanlegir orkugjafar toppsætinu af kolum sem hafa verið stærsti einstaki raforkugjafinn í 50 ár. Hlutabréf í endurnýjanlegri orku hafa hækkað hratt samfara þessari öru þróun og sem dæmi má nefna að verð hlutabréfa í sólarorkufyrirtækjum hefur meira en tvöfaldast frá því í desember 2019. Það kemur e.t.v. ekki á óvart þegar haft er í huga að uppsett afl í sólarorku hefur 18-faldast frá árinu 2010. Uppsett afl í vindorku hefur fjórfaldast á sama tíma. Búist er við enn örari vexti í þessum greinum á næsta ári. Þróunin er þó háð stefnu stjórnvalda, en endurreisnarstyrkir vegna Covid-19 virðast renna í mun meira mæli til fyrirtækja í jarðeldsneytisgeiranum en til uppbyggingar endurnýjanlegrar orku.
(Sjá frétt The Guardian í dag).

Suður-Ástralía keyrð á 100% sólarorku í fyrsta sinn

Síðastliðinn sunnudag var öll raforka sem notuð var í Suður-Ástralíu framleidd með sólarorku og hægt var að selja umframorku til Viktoríufylkis. Suður-Ástralía hefur verið leiðandi í nýtingu sólarorku, en þetta er í fyrsta sinn sem framleiðslan dugar til að sjá öllu fylkinu fyrir orku í heilan dag. Suður-Ástralía hefur einnig verið leiðandi í þróun rafgeyma sem taka við orku þegar framboð er meira en eftirspurn og gefa hana frá sér aftur þegar dæmið snýst við.
(Sjá frétt PlanetArk í dag).

LEGO setur 2,5 milljarða DKK í sjálfbærnistarfið

Á næstu þremur árum ætlar danski leikfangaframleiðandinn LEGO að verja 2,5 milljörðum danskra króna (um 54 milljörðum ISK) til að gera reksturinn og framleiðsluvörurnar umhverfisvænni. Þetta verður m.a. gert með því að hætta að nota poka úr einnota plasti utan um lausa kubba og nota þess í stað FSC-vottaða bréfpoka. Þá er stefnt að því að fyrirtækið verði orðið kolefnishlutlaust árið 2022, en því verður m.a. náð með eigin raforkuframleiðslu með sólarskjöldum. Þá er ætlunin að minnka vatnsnotkun um 10% fram til 2022 – og frá og með árinu 2025 verður enginn úrgangur sendur til urðunar. Loks má nefna viðleitni til að kenna börnum um sjálfbæra þróun í gegnum leik þeirra að LEGO-kubbum. Allt er þetta liður í viðleitni LEGO til að styðja við Sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna nr. 4 (Menntun fyrir alla) og 12 (Ábyrg neysla og framleiðsla).
(Sjá frétt á heimasíðu LEGO 15. september).

Metframleiðsla á sólarorku á tímum Coronaveirunnar

Í fyrrihluta síðustu viku var 40% af raforkuþörf Þjóðverja mætt með sólarorku og hefur þetta hlutfall aldrei verið hærra. Met á þessu sviði voru einnig slegin á Spáni og í Bretlandi. Í síðastnefnda landinu hafa kol ekki verið notuð til raforkuframleiðslu síðustu tvær vikurnar. Ein af ástæðunum fyrir þessum uppgangi í sólarorkuframleiðslunni er sú að nú er loftmengun í Evrópu mun minni en venjulega vegna lítillar umferðar á tímum Coronaveirunnar. Sem dæmi um það má nefna að styrkur köfnunarefnisoxíða í andrúmslofti í Bretlandi er nú um 25% lægri en að meðaltali. Hagstætt veðurfar kemur einnig við sögu, en upp á síðkastið hefur verið fremur kalt og sólríkt í Evrópu. Við slíkar aðstæður ná sólarskildir mestum afköstum.
(Sjá frétt ENN 24. apríl sl.).

Verslunarmiðstöð sjálfri sér nóg með orku

Verslunarmiðstöðin Väla í útjaðri Helsingborgar verður orðin sjálfri sér nóg með orku árið 2023 ef áform stjórnenda ganga eftir. Verslunarmiðstöðin, sem að grunni til var byggð á 8. áratug síðustu aldar, er sögð vera sú stærsta í Svíþjóð. Frá árinu 2012 hefur tekist að minnka orkunotkun í byggingunni um 40% og nú er ætlunin að ná því sem á vantar með enn frekari orkusparnaðaraðgerðum og aukningu á eigin orkuframleiðslu. Väla framleiðir nú þegar stóran hluta af raforkunni sem þarf til rekstrarins í 15.000 fermetra sólarskjöldum á þakinu. Ætlunin er að stækka framleiðslusvæðið enn frekar og taka jafnvel litlar vindmyllur í notkun þar að auki.
(Sjá frétt Aktuell Hållbarhet 4. febrúar).

Croissantbakstur lykillinn að orkugeymslum framtíðar?

Vísindamenn við Queen Mary háskólann í London hafa hugsanlega fundið nýja og afar árangursríka leið til að geyma orku í orkukerfum. Hugmyndin byggir á sömu aðferðum og notaðar eru við croissantbakstur, þar sem deigið er þjappað og flatt út í þunn lög. Vísindamennirnir beittu svipaðri aðferð til að búa til örþunna fjölliðuhúðaða torleiðaraþétta (e. dielectric capacitors), en slíkir þéttar hafa hingað til, auk venjulegra rafhlaðna og rafefnaþétta (e. electrochemical capacitors), verið eitt af þremur helstu tólunum til að geyma raforku. Nýjungin sem hér um ræðir byggir á að þjappa filmunni í þunn lög, en þannig reyndist mögulegt að geyma 30 sinnum meiri raforku en í bestu torleiðaraþéttum sem fengist hafa hingað til. Þéttar af þessu tagi henta einkar vel til að taka við raforku í óreglulegum skömmtum, svo sem frá sólar- og vindorkuverum, og skila henni mjög hratt út í kerfið á nýjan leik þegar orkuþörfin er meiri.
(Sjá frétt Science Daily 18. október).

Svartur kísill gæti lækkað verð á sólarskjöldum um 10%

Joshua Pearce, prófessor við Tækniháskólann í Michigan, hefur fundið leið til nota þurrætingu við framleiðslu á svörtum kísil í sólarsellur, sem skilar sér í 10% lækkun framleiðslukostnaðar á hverja orkueiningu. Þessi svarti kísill er reyndar nær fjórðungi dýrari í framleiðslu en hefðbundnari blár kísill, en hann nær að fanga sólarorkuna mun betur og auka þannig hagkvæmnina. Framleiðsla á sólarorku er þú þegar á pari við aðra endurnýjanlega orku hvað hagkvæmni varðar og 10% lækkun framleiðslukostnaður myndi bæta stöðu greinarinnar enn frekar. Joshua Pearce telur með öllu útilokað að kolaorkuver geti keppt við sólarorkuver í náinni framtíð.
(Sjá frétt Science Daily 4. september).

Öll raforka á Kosta Ríka endurnýjanleg í 300 daga á þessu ári

Það sem af er þessu ári hefur Kosta Ríka notað eingöngu endurnýjanlega raforku í samtals 300 daga. Þetta er nýtt met þar í landi, en árið 2015 náðust samtals 299 dagar. Nú koma um 99,6% af raforku landsins frá endurnýjanlegum orkugjöfum, þar af 78,3% frá vatnsorku, 10,3% frá vindorku, 10,2% frá jarðvarma og 0,8% frá sólarorku og lífmassa. Almennt er litið á Kosta Ríka sem fyrirmynd annarra þjóða í umhverfismálum. Þarlend stjórnvöld hafa látið til sín taka á fleiri sviðum en í orkugeiranum og m.a. tekið ákvörðun um að banna allt einnota plast fyrir árið 2021.
(Sjá frétt EcoWatch 21. nóvember).

Orkugeymslugeirinn gæti sexfaldast fyrir 2030

Áætlað er að árið 2030 verði umsvif í orkugeymslu á heimsvísu sexföld á við það sem þau voru árið 2016. Þetta kemur fram í nýrri greiningu Bloomberg New Energy Finance, þar sem leiddar eru líkur að því að árið 2030 verði samanlögð orkugeymslugeta komin í 305 gígawattstundir. Þetta sé þó aðeins byrjunin. Um þessar mundir sé miklu fjármagni varið í tækniþróun á þessu sviði, kostnaður fari ört lækkandi og stóraukin nýting vindorku og sólarorku ýti undir þróunina. Orkugeymsla muni fyrirsjáanlega gegna veigamiklu hlutverki í orkukerfum framtíðarinnar.
(Sjá frétt CleanTechnica 21. nóvember).

Ódýr hálfleiðari gefur nýjar vonir

polyaniline-160Efnafræðingar við Arlingtonháskólann í Texas hafa sýnt fram á að hægt er nota fjölliðuna pólýanilín sem ljósskaut (e. photocathode) í sólarsellu sem klýfur koltvísýring sem síðan er hægt að vinna áfram í alkóhól til eldsneytis. Kostirnir við þessa aðferð umfram þær sem áður hafa verið notaðar eru m.a. þeir að í þessu tilviki þarf ekki utanaðkomandi efnahvata og auk þess eiga efnahvörfin sér stað við lágan hita. Ef mögulegt reynist að nota þessa aðferð við eldsneytisframleiðslu opnast ýmsir nýir möguleikar, m.a. vegna þess að pólýanilín er ódýrt efni sem auðvelt er að breyta í dúk eða filmu. Slíka dúka eða filmur mætti nota í stórum stíl á þök og á aðra fleti sem þar með gætu nýst við eldsneytisframleiðsluna.
(Sjá frétt Science Daily 20. september).