Kostnaðurinn við að koma í veg fyrir nýja heimsfaraldra er aðeins örlítið brot af kostnaðinum sem fylgir slíkum faraldri. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu IPBES (Milliríkjanefndar um líffræðilega fjölbreytni og þjónustu vistkerfa). Samkvæmt skýrslunni eru að öllum líkindum til meira en 500.000 veirutegundir í dýrum sem gætu valdið sjúkdómum í mönnum. Ef ekkert verði að gert muni heimsfaraldrar af völdum slíkra veira verða tíðari í náinni framtíð, dreifast hraðar, valda meira tjóni og orsaka fleiri dauðsföll en Covid-19. Ráðast þurfi að rót vandans með því að hætta að eyða skógum til að rýma fyrir framleiðslu á kjöti, pálmaolíu, málmum og öðru slíku fyrir ríkustu þjóðir heims. Þetta kalli á alþjóðlegt eftirlit, skattlagningu og endalok ríkisstuðnings við framkvæmdir sem skerða villta náttúru.
(Sjá frétt The Guardian 29. október).
Greinasafn fyrir merki: pálmaolía
Vaxandi sjálfbærnikröfur hjá sænskum bönkum
Á síðasta ári skerptu allir sænskir bankar á kröfum sínum um sjálfbærniáherslur verkefna og fyrirtækja sem bankarnir fjárfesta í eða veita lán, að því er fram kemur í árlegri úttekt Fair Finance Guides. Ekobanken och JAK eru sem fyrr þeir bankar sem gera mestar kröfur og fá þeir nánast fullt hús stiga í úttektinni. Swedbank og SEB skora hæst af stóru bönkunum, báðir með um 60% frammistöðu. Sem dæmi um nýjar kröfur má nefna að SEB birtir nú skýrslur um kolefnisspor allra sinna sjóða, Handelsbanken hefur sett nokkur fyrirtæki á svartan lista fyrir að spilla umhverfinu og ganga gegn mannréttindum, Länsförsäkringar lækkuðu hámarkshlutdeild kolavinnslu í veltu fyrirtækja úr 50% í 20% og Nordea tók upp ný viðmið til að koma í veg fyrir að bankinn stuðli að skattaflótta með ráðgjöf sinni. Enn gengur bönkunum hins vegar heldur illa að standa við orð sín og fjárfesta sumir hverjir enn í fyrirtækjum sem eyða regnskógum, fjármagna pálmaolíuiðnaðinn og níðast á réttindum frumbyggja í Asíu.
(Sjá frétt Aktuell Hållbarhet 15. janúar).
Pepsi stórgræðir á umhverfisstarfinu
Aukin áhersla á umhverfismál hefur sparað gosdrykkjarisanum Pepsi rúmlega 375 milljónir sterlingspunda (rúmlega 72 milljarða ísl. kr.) frá því á árinu 2010. Sem dæmi um árangur má nefna að á árinu 2014 notaði Pepsi 23% minna vatn á hverja framleiðslueiningu en árið 2006 og á sama tíma batnaði orkunýting bílaflota fyrirtækisins um 16%, m.a. vegna fjölgunar ökutækja sem ganga fyrir rafmagni og lífeldsneyti. Þá minnkaði umbúðanotkun fyrirtækisins um 40.000 tonn á milli áranna 2013 og 2014 og á sama tíma jókst notkun umbúða úr endurunnu efni um 23%. Að sögn Indra Nooyi, forstjóra Pepsi, er sjálfbærni ekki eitthvað sem fyrirtæki styrkja með hluta af hagnaði sínum, heldur stuðlar áhersla á sjálfbærni að auknum hagnaði. Þrátt fyrir þennan mikla árangur liggur Pepsi undir ámæli vegna óábyrgrar notkunar sinnar á pálmaolíu, en ætlunin mun vera að bæta þar úr fyrir árslok.
(Sjá frétt EDIE í dag).
Rauntímavöktun regnskóga á netinu
Framvegis getur almenningur fylgst með ástandi regnskóga heimsins í nánast beinni útsendingu á netinu, en World Resources Institute (WRI) í Washington hefur gert þetta mögulegt með aðstoð Google Earth og nokkurra annarra aðila. Með þessari nýju tækni verður hægt að fylgjast með regnskógum á svæðum sem hingað til hafa verið lítið sem ekkert vöktuð. Verkefnið gengur undir nafninu Global Forest Watch, og þeir sem að því standa vonast til að það skapi þrýsting á ríkisstjórnir að stöðva eyðingu skóga og leiði jafnframt til ábyrgari verslunar með afurðir á borð við pálmaolíu, soja og kjöt, sem hugsanlega eru framleiddar á svæðum þar sem regnskógar hafa verið ruddir.
(Sjá frétt PlanetArk í dag).