Emmanuel Macron, forseti Frakklands, hefur tilkynnt að frá og með árinu 2022 skuli allar nýbyggingar sem fjármagnaðar eru af franska ríkinu vera að minnsta kosti að hálfu leyti byggðar úr timbri. Þetta er liður í viðleitni ríkisstjórnarinnar til að ýta undir sjálfbæra borgarþróun. Áður höfðu borgaryfirvöld í París lýst því yfir að timbur verði notað í auknum mæli sem byggingarefni fyrir Ólympíuleikana í París 2024. Þannig verða allar byggingar sem reistar verða í tengslum við leikana, og eru 8 hæðir eða minna, alfarið reistar úr timbri.
(Sjá frétt Planet/Ark Reuter 7. febrúar).
Greinasafn fyrir merki: Frakkland
15% stækkun lífræns landbúnaðarlands milli ára
Í árslok 2016 voru 57,8 milljónir hektara landbúnaðarlands í heiminum komnar með vottun til lífrænnar framleiðslu, en þetta samsvarar 15% aukningu milli ára. Á sama tíma fjölgaði bændum í lífrænni framleiðslu úr tæplega 2,4 milljónum í 2,7 milljónir, eða um 12,8%. Lífrænn landbúnaður var stundaður í 178 löndum á þessum tíma og heildarsala lífrænna landbúnaðarafurða á heimsvísu árið 2016 nam 89,7 milljörðum Bandaríkjadala (rúmlega 9.000 milljörðum ísl. kr.). Á flestum stærri markaðssvæðum heimsins var veltuaukningin milli ára yfir 10% og í Frakklandi var hún 22%. Markaðshlutdeild lífrænt vottaðrar matvöru var hæst í Danmörku, 9,7%. Í 15 löndum var hlutfall landbúnaðarlands með lífræna vottun komið yfir 10%. Þessar tölur og margar fleiri koma fram í skýrslunni The World of Organic Agriculture sem kom út í tengslum við vörusýninguna BioFach sem haldin var í Nürnberg á dögunum.
(Sjá frétt á heimasíðu IFOAM 14. febrúar).
5% samdráttur í vínframleiðslu vegna loftslagsbreytinga
Gera má ráð fyrir að vínframleiðsla í heiminum verði 5% minni á þessu ári en hún var í fyrra. Ástæðan eru loftslagsbreytingar sem hafa leikið vínbændur grátt, einkum í Suður-Ameríku. Alþjóðasamtök vínræktenda (OIV) hafa reiknað út að heildarframleiðsla ársins verði 259,5 milljónir hektólítra, sem gerir árið 2016 af einu lakasta vínræktarári síðustu tveggja áratuga. Gert er ráð fyrir 35% samdrætti í Argentínu, 21% í Síle, 19% í Suður-Afríku og 12% í Frakklandi. Hins vegar er gert ráð fyrir 5% aukningu í Ástralíu og 35% aukningu á Nýja-Sjálandi. Ítalía stefnir í að verða mesta vínræktarland ársins.
(Lesið frétt The Guardian í gær).
1.000 km sólarvegur í Frakklandi
Frönsk stjórnvöld hyggjast leggja 1.000 km af sólarvegum á næstu 5 árum, en með sólarvegum er átt við vegi sem þaktir eru sólarsellum til raforkuframleiðslu. Ef allt gengur upp getur þessi alllangi vegarspotti séð um 5 milljónum manns fyrir raforku, en það samsvarar 8% af íbúum Frakklands. Um 4 metrar af sólarvegi eru taldir duga til að fullnægja raforkuþörf einnar fjölskyldu, að upphitun frátalinni. Að sögn Ségolène Royal, umhverfis- og orkumálaráðherra Frakklands, er þegar búið að bjóða verkið út og er gert ráð fyrir að fyrstu tilraunir með þessa nýjung verði gerðar í vor. Yfirborgð sólarveganna er gert úr 7 mm sólarfilmu sem hefur verið í þróun síðustu 5 ár og var tilbúin til framleiðslu í október 2015. Burðarþolið er nóg til að taka við umferð flutningabíla og viðnámið nóg til að vegirnir verði ekki óþægilega hálir. Ségolène Royal hefur lagt til að lagðir verði sérstakir skattar á bensín til að fjármagna vegabætur af þessu tagi, enda sé lag til þess nú þegar olíuverð er lágt.
(Sjá frétt Global Construction Review 26. janúar).
Frakkar hafna erfðabreyttri ræktun
Frönsk stjórnvöld ætla að nýta sér höfnunarkerfi Evrópusambandsins (ESB) til að viðhalda banni við ræktun á erfðabreyttum plöntum í landinu. Höfnunarkerfið, sem samþykkt var í mars, heimilar einstökum aðildarríkjum ESB að sækja um undanþágu frá öllum samþykktum sem heimila ræktun erfðabreyttra plantna í löndum sambandsins. Erfðabreytta maísafbrigðið MON810 frá Monsanto hefur hingað til verið eina erfðabreytta plantan sem ræktuð er í Evrópu, nánar tiltekið á Spáni og í Portúgal, en umsóknir um leyfi til ræktunar fleiri afbrigða bíða nú afgreiðslu hjá ESB. Þar á meðal er skordýraþolinn maís frá DuPont Pioneer og Dow Chemical, sem gengur undir nafninu 1507. Frakkar eru stærstu framleiðendur og útflytjendur korns í Evrópu, en Þjóðverjar hafa einnig ákveðið að beita höfnunarákvæðinu. Sama gildir m.a. um Letta og Grikki.
(Sjá frétt PlanetArk í dag).
Matarsóun bönnuð í frönskum verslunum
Í síðustu viku samþykkti franska þingið einróma að skylda allar matvöruverslarnir í Frakklandi (stærri en 400 fermetrar) að gefa góðgerðarsamtökum þann mat sem verður afgangs í verslununum. Lög um þetta taka gildi í júlí 2016, en með þeim vill þingið sporna gegn matarsóun og draga úr fátækt í landinu. Ruslurum hefur fjölgað mjög í Frakklandi síðustu ár og hafa verslanir brugðist við með því að hella klóri í ruslagáma eða geyma gámana í læstum skemmum. Mikið af matarúrgangi fellur til í verslunum vegna „best-fyrir“ merkinga og því er ferskum matvælum iðulega hent í umbúðunum. Verslunum sem ekki ganga frá samningum við góðgerðarfélög fyrir gildistöku laganna verður refsað með sektum og fangelsisdómum. Frjáls félagasamtök hafa gagnrýnt löggjöfina þar sem þar sé lögð áhersla á úrgangsmeðhöndlun í stað þess að vekja athygli á offramleiðslu í matvælaiðnaðinum. Samtök verslunarmanna benda hins vegar á að aðeins um 11% af matarsóun í Frakklandi megi rekja til verslana en allt að 67% til neytenda og því ættu stjórnvöld að einblína á matarsóun á heimilum.
(Sjá frétt the Guardian 22. maí).
Veitingahús í París breyta leifum í lífgas
Um 80 veitingahús í París hafa tekið höndum saman um að vinna metan og jarðvegsbæti úr tilfallandi matarleifum. Metanið verður brennt til raforkuframleiðslu og til upphitunar, en bændur í nágrenninu njóta góðs af jarðvegsbætinum. Með þessu eru veitingahúsin m.a. að bregðast við stigvaxandi lagakröfum um endurvinnslu lífræns úrgangs. Frá og með þessu ári nær endurvinnsluskyldan til fyrirtækja þar sem meira en 40 tonn af lífrænum úrgangi falla til á ári, en árið 2016 lækka þessi mörk niður í 10 tonn. Þar með munu lögin ná til veitingahúsa sem selja um og yfir 150 skammta á dag, en í þann flokk fellur um fimmtungur af öllum matsölustöðum Frakklands. Þeir sem ekki hlýða lögunum geta átt von á sektum allt að 75.000 evrum (hátt í 12 milljónir ísl. kr).
(Sjá frétt PlanetArk 13. febrúar).
Skordýramjöl sem skepnufóður
Franska sprotafyrirtækið Ynsect vinnur að því að þróa fóður úr skordýramjöli, sem hugsanlega gæti komið í stað próteingjafa á borð við fiskimjöl, sojamjöl og kjötmjöl. Svarta hermannaflugan, húsflugulirfur, silkiormar og gulir mjölormar þykja hvað vænlegust sem hráefni í þessa framleiðslu. Skordýrin verða ræktuð á staðnum og síðan unnin í áfastri skordýramjölsverksmiðju, og standa vonir til að fyrsti hluti þessarar aðstöðu verði tilbúinn innan tveggja ára. Skordýrin eru auðveld í ræktun og hægt að ala þau á nánast hvaða lífræna úrgangi sem er. Skeljar og aðrar aukaafurðir frá vinnslunni geta nýst m.a. í lyfja- og snyrtivöruiðnaði, og skordýraskítur er ákjósanlegur áburður. Tilraunir benda til að hægt sé að nota engisprettumjöl til helminga á móti fiskimjöli sem fóður í fiskeldi án þess að það komi niður á árangri. Enn er ekki leyfilegt að nota skordýramjöl sem fóður í svínarækt og kjúklingaeldi innan ESB, en hugsanlegt er að slíkt leyfi fáist frá og með 2014.
(Sjá frétt PlanetArk í dag).
Ljósin slökkt í Frakklandi
Frá og með 1. júlí nk. verða verslanir og skrifstofur í Frakklandi að slökkva öll inniljós einni klst. eftir að síðasti starfsmaður yfirgefur bygginguna. Jafnframt verða ljós í búðargluggum að vera slökkt eftir kl. 1 eftir miðnætti. Þessar reglur eru hluti af nýrri löggjöf sem ætlað er að draga úr ljósmengun, auk þess sem losun koltvísýrings mun minnka um 250.000 tonn á ári. Orkan sem sparast dugar fyrir 750.000 frönsk heimili.
(Sjá frétt The Guardian 30. janúar).
Frakkar banna BPA í matarumbúðum
Frá og með 1. janúar 2015 verður efnið bisfenól-A (BPA) bannað í matarumbúðum í Frakklandi. Þetta var ákveðið með lögum sem sett voru á aðfangadag 2012 og kveða á um bann við framleiðslu, innflutningi, útflutningi og markaðssetningu hvers kyns matarumbúða sem innihalda efnið. Nokkur lönd hafa þegar bannað sölu á ungbarnapelum, snuðum o.fl. sem innihalda BPA, en með þessari ákvörðun ganga Frakkar lengra. Þar til bannið tekur gildi verður auk heldur skylt að merkja umbúðir sem innihalda efnið. BPA er grunneiningin í pólýkarbónatplasti og er einnig að finna í epoxýhúð sem stundum er notuð innan á niðursuðudósir. Í háum styrk getur efnið haft margvísleg skaðleg áhrif á heilsu manna, og nýlegar rannsóknir benda til áhrifa á þroskun heila, jafnvel í lágum styrk.
(Sjá frétt á forbrugerkemi.dk 28. janúar).