Gera má ráð fyrir að vínframleiðsla í heiminum verði 5% minni á þessu ári en hún var í fyrra. Ástæðan eru loftslagsbreytingar sem hafa leikið vínbændur grátt, einkum í Suður-Ameríku. Alþjóðasamtök vínræktenda (OIV) hafa reiknað út að heildarframleiðsla ársins verði 259,5 milljónir hektólítra, sem gerir árið 2016 af einu lakasta vínræktarári síðustu tveggja áratuga. Gert er ráð fyrir 35% samdrætti í Argentínu, 21% í Síle, 19% í Suður-Afríku og 12% í Frakklandi. Hins vegar er gert ráð fyrir 5% aukningu í Ástralíu og 35% aukningu á Nýja-Sjálandi. Ítalía stefnir í að verða mesta vínræktarland ársins.
(Lesið frétt The Guardian í gær).
Greinasafn fyrir merki: Argentína
Skordýraeitur en ekki zika-veira orsök dverghöfuðs?
Hópar argentínskra og brasilískra lækna telja að ekki sé hægt að kenna zika-veirunni um fósturskaðafaraldurinn sem nú geisar í Brasilíu, þar sem fjöldi barna hefur fæðst með dverghöfuð (e. microcephaly). Ekki hafi verið sýnt fram á tengsl veirunnar við fósturskaðann, enda hafi veiran aðeins greinst í 17 dverghöfuðtilfellum af 404 sem skoðuð hafi verið. Þá hafi ekki komið upp eitt einasta dverghöfuðtilfelli hjá þeim 3.177 verðandi mæðrum sem greindar hafi verið með zika-veiru í Kólumbíu, og jafnvel á svæðum þar sem 75% íbúa eru smituð af zika-veirunni hafi engin fæðst með dverghöfuð. Læknarnir telja líklegra að fósturskaðann megi rekja til skordýraeitursins pýriproxýfens, sem notað hefur verið í stórum stíl á þeim svæðum þar sem flest dverghöfuðtilfellin hafa komið upp. Þar hefur efninu m.a. verið blandað í drykkjarvatn frá því á árinu 2014 í þeim tilgangi að drepa lirfur moskítóflugunnar.
(Lesið frétt The Ecologist 10. febrúar).
Frá blómlegum sveitum til sandauðna
Sveitir Argentínu eru smám saman að breytast í sandauðnir vegna mikillar sojabaunaræktunar sem víða hefur komið í stað ræktunar á maís og hveiti. Við sojaræktun skilar mun minna af lífrænu efni sér aftur í jarðveginn að uppskeru lokinni en við kornrækt, þar sem stönglarnir sem eftir standa stuðla að betri nýtingu úrkomu og næringarefna. Sé soja ræktað á sama landi ár eftir ár rýrna því gæði jarðvegsins hratt. Takmarkanir argentískra stjórnvalda á kornútflutningi hafa leitt til þess að bændur hafa í vaxandi mæli fært sig yfir í sojarækt – og skiptiræktun hefur verið á undanhaldi.
(Sjá frétt PlanetArk í gær).