Lítið um hættuleg efni í drykkjarbrúsum

drikkedunke-artikel-webFlestir drykkjarbrúsar á borð við þá sem gjarnan eiga sér vísan stað í skólatöskum barna og unglinga standast þær kröfur sem eðlilegt er að gera til slíkrar vöru um efnainnihald og hugsanlegan leka efna í drykki. Þetta kom fram í nýrri rannsókn á vegum dönsku neytendasamtakanna Tænk, þar sem kannaðar voru 8 tegundir drykkjarbrúsa úr plasti, gleri og málmum. Gerð var sérstök leit að þungmálmum og hormónaraskandi efnum á borð við þalöt og BPA. Allir brúsarnir stóðust prófið í öllum aðalatriðum en úr einum brúsanum lak óverulegt magn af áli út í viðkomandi drykk. Í einu öðru tilviki varð vart við óverulega efnamegnun þegar í hlut áttu súrir drykkir. Allt var þetta þó innan marka.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk 20. janúar).

Kassarúllur með BPA fjarlægðar úr Coop verslunum

kassarullaVerslunarkeðjan COOP í Danmörku hefur ákveðið að hætta að nota kassarúllur sem innihalda bisfenól-A (BPA) þar sem efnið er talið vera hormónaraskandi og hafa áhrif á frjósemi. Notkun efnisins er lögleg en gæðastjóri keðjunnar segir að það hafi verið ákvörðun fyrirtækisins að starfsmenn og viðskiptavinir ættu ekki að þurfa að verða fyrir hugsanlegum eiturhrifum af skaðlegum efnum. Keðjan hefur sagt „The Dirty Dozen“ stríð á hendur, en „The Dirty Dozen“ eru 12 efni sem talin eru skaðleg en hafa ekki verið bönnuð. Að undanförnu hafa þó birst margar rannsóknir sem benda til að kokteiláhrif efnanna séu stórlega vanmetin. Eins og fram hefur komið á 2020.is hefur COOP nú þegar hætt sölu á örbylgjupoppi, blautklútum, skólavörum úr PVC og Colgate Total tannkremi þar sem allar þessar vörur innihalda eitthvert þessara tólf efna.
(Sjá frétt Samvirke.dk í dag).

Hættuleg efni í pizzukössum

pizzabakke-test-artikel-web (160x77)Pizzukassar geta innihaldið ýmis hættuleg efni að því er fram kemur í nýrri rannsókn dönsku neytendasamtakanna TÆNK. Í rannsókninni voru skoðaðir þrenns konar kassar og reyndust þeir allir innihalda heilsuspillandi flúorsambönd langt yfir viðmiðunarmörkum. Það sem kom þó meira á óvart var að í öllum kössunum fundust efni á borð við þalöt, BPA og nónýlfenól, sem ýmist eru talin geta verið hormónaraskandi eða krabbameinsvaldandi. Talið er líklegt að þessi efni séu ættuð úr endurunnu hráefni sem notað er við framleiðslu á kössunum. Þessar fréttir koma í kjölfar rannsóknar Tænk fyrr á árinu, sem leiddi í ljós að allir pokar utan um örbylgjupopp innihéldu flúorsambönd. Umræddar rannsóknir taka aðeins til matarumbúða og segja því ekki endilega til um hvort efnin berist í matvæli. Tænk ráðleggur fólki þó að borða ekki pizzur beint úr umbúðunum, geyma þær ekki í umbúðunum yfir nótt, forðast örbylgjupopp, kaupa svansmerktan bökunarpappír og geyma mat aðeins í umbúðum sem eru til þess ætlaðar.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk 14. október).

Coop ræðst gegn skaðlegum efnum

Solcreme_og_tandpas_964894y (160x107)Dagvörurisinn Coop í Danmörku hefur hafið sérstakt átak til að ryðja úr vegi skaðlegum efnum úr eigin vörum fyrirtækisins og úr vörum annarra framleiðenda sem seldar eru í verslunum keðjunnar. Á næstu þremur árum munu tólf tilteknir efnaflokkar verða gerðir útlægir úr öllum vörum sem Coop framleiðir og vörur annarra framleiðenda sem ekki fylgja þessu fordæmi verða fjarlægðar úr búðarhillum. Nú þegar hefur örbylgjupoppi, blautklútum og skólavörum úr PVC verið úthýst og nú síðast bættist tannkremið Colgate Total í þann hóp þar sem það inniheldur tríklósan. Efnin sem um ræðir eru öll lögleg, en það sem er löglegt er ekki endilega öruggt, eins og talsmaður Coop orðar það.
(Sjá frétt Politiken 7. september).

Leyfilegur styrkur BPA of hár

bisphenol_160Matvælastofnun danska Tækniháskólans (DTU) telur að viðmið sem Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) gaf út í síðasta mánuði fyrir þolanlegan hámarksdagskammt Bisfenóls-A (BPA) sé of hátt. Að mati EFSA ætti dagleg inntaka á 4 míkrógrömmum á hvert kíló líkamsþyngdar að vera örugg frá heilsufarslegu sjónarmiði, en eftir að hafa rýnt þær heimildir sem EFSA byggir niðurstöðu sína á telur DTU að miða ætti við 0,7 míkrógrömm. Sérfræðingar DTU telja að í ráðleggingum EFSA sé ekki nægjanlegt tillit tekið til vísbendinga úr dýrarannsóknum um áhrif efnisins á brjóstvef, þroskun kynfæra og þroskun heila. Því feli hin nýja skilgreining á þolanlegum hámarksdagskammti (e. tolerable daily intake (TDI)) ekki í sér nægjanlega vernd fyrir neytendur. BPA er einkum að finna í tilteknum plastumbúðum og í kassakvittunum og er talið raska hormónastarfsemi líkamans.
(Sjá frétt á heimasíðu DTU 23. febrúar).

Vill banna BPA í kassakvittunum

BPA_Sverige_160Ráðgjafi sænska umhverfisráðuneytisins hefur lagt til að bannað verði að nota BPA (Bisfenól-A) í kassakvittanir og að dregið verði í áföngum úr notkun efnisins í umbúðir fyrir matvæli og henni hætt með öllu fyrir 2020. Í skýrslu ráðgjafans kemur fram að einstaklingar sem vinni við afgreiðslustörf séu margir hverjir ungir að árum og því viðkvæmari en ella fyrir hormónaraskandi efnum á borð við BPA, en afgreiðslufólk sé í mikilli snertingu við efnið þar sem það sé að finna í kassakvittunum. Samhliða þessu ætti einnig að banna BPA í öðru prentuðu efni svo sem í aðgöngumiðum af ýmsu tagi. Sænsk lög um BPA þurfi þó að vera í takti við löggjöf ESB, en líklegt þykir að á þessu ári verði tekin ákvörðun á vettvangi sambandsins um skorður við notkun BPA í neytendavörur.
(Sjá frétt Miljö Aktuellt 16. janúar).

Hormónaraskandi efni í flestum ófrískum konum

Gravid ØkoHormónaraskandi efni fundust í miklum meirihluta blóðsýna sem tekin voru úr 565 ófrískum konum í Odense í nýlegri rannsókn á vegum Syddansk Universitet. Þarna var meðal annars um að ræða þalöt, parabena, BPA, tríklósan og perflúoruð efni. Þessi efni er að finna í margs konar vörum, svo sem í leikföngum, lækningatækjum, sólarvörn, snyrtivörum, plasti, byggingarefnum og yfirborðsefnum á húsgögnum, regnfötum og öðrum fatnaði. Hormónaraskandi efni eru talin hafa sérlega skaðleg áhrif á fóstur. Þeir sem stóðu fyrir rannsókninni telja niðurstöðurnar gefa tilefni til að hafa áhyggjur af stöðu mála, en hins vegar sé jákvætt að styrkur efnanna hafi í flestum tilvikum verið lægri en gerist og gengur hjá verðandi mæðrum í öðrum Evrópulöndum og vestanhafs. Ábendingar um leiðir til að forðast hormónaraskandi efni á meðgöngunni er að finna á heimasíðu Umhverfisstofnunar Danmerkur.
(Sjá frétt á heimasíðu Syddansk Universitet 11. apríl).

Vísbendingar um þátt BPA í brjóstakrabba

140306163359-largeBisfenól-A (BPA) getur stuðlað að brjóstakrabba með því að auka virkni svonefndra RNA HOTAIR-sameinda sem draga úr virkni gena sem vinna gegn krabbameinsmyndun. Náttúruleg kvenhormón hafa þessa sömu virkni, en þegar BPA kemur einnig við sögu virðast efnin hafa samverkandi áhrif þannig að virkni RNA HOTAIR fari úr böndunum. Frá þessu er sagt í febrúarhefti tímaritsins Journal of Steroid Biochemistry and Molecular Biology.
(Sjá  frétt Science Daily 6. mars).

BPA í matarumbúðum kostar samfélagið stórfé

BPAAlgjört bann við notkun efnisins bisfenól-A (BPA) í matarumbúðir í Bandaríkjunum gæti komið í veg fyrir 6.236 tilfelli af offitu barna þarlendis á ári hverju og lækkað jafnframt nýgengi kransæðasjúkdóma um 22.350 tilfelli. Um leið myndu sparast um það bil 1,74 milljarðar Bandaríkjadala (rúmlega 200 milljarðar ísl. kr.) í heilbrigðiskerfinu árlega, og er þá sparnaður vegna annarra sjúkdóma ótalinn. Þetta kemur fram í grein sem birtist í tímaritinu Health Affairs í síðasta mánuði. BPA er m.a. notað við framleiðslu á pólýkarbónatplasti og í epoxýhúð innan á niðursuðudósir. Sparnaðurinn sem hlytist við að hætta notkun efnisins í matarumbúðir er að öllum líkindum meiri en sem nemur kostnaðinum við að nýta öruggari og dýri efni.
(Sjá grein í Health Affairs 16. janúar).

BPA tengt við mígreni

Kona flaska BPABisfenól-A (BPA) kann að stuðla að mígreni ef marka má niðurstöður rannsóknar sem sagt var frá í tímaritinu Toxicological Sciences í síðasta mánuði. Þetta tengist því væntanlega að BPA líkir eftir kvenhormóninu estrógeni, en sveiflur í styrk estrógens í líkamanum eru einn þeirra þátta sem ýta undir tíðari, verri og þrálátari mígreniköst. BPA finnst enn í sumum matarílátum, einkum innan á niðursuðudósum og e.t.v. í plastbrúsum undir vatn, svo sem í svonefndum vatnsvélum. Rannsóknin sem um ræðir var gerð á rottum og leiddi í ljós marktækar hegðunarbreytingar sem líktust mígreni. Rottur sem fengu BPA hreyfðu sig t.d. minna en ella og urðu ljós- og hljóðfælnari.
(Sjá frétt Medical Daily 2. desember).