Evrópskir fólksbílar verða sífellt sparneytnari að því er fram kemur í tölum frá Umhverfisstofnun Evrópu (EEA). Fólksbílar sem skráðir voru á árinu 2015 í löndum ESB losuðu að meðaltali 119,6 grömm af koltvísýringi á hvern ekinn kílómetra, sem er 3% minna en árið áður og vel undir markmiði ESB fyrir árið 2015 þar sem gert var ráð fyrir meðallosun upp á 130 g/km. ESB er nú tveimur árum á undan áætlun í þessum efnum, en næsta markmið er að meðallosun fari undir 95 g/km árið 2021. Við þetta má þó bæta að sala nýrra bíla jókst um 9% milli ára. Aðeins um 1,3% nýrra bíla voru tvinn- eða rafbílar en í einstökum löndum var hlutfallið mun hærra, t.d. 12% í Hollandi. Þrátt fyrir litla markaðshlutdeild fjölgaði nýjum rafbílum um 50% milli áranna 2014 og 2015.
(Sjá frétt Umhverfisstofnun Evrópu 14. apríl).
Greinasafn fyrir merki: CO2
Dregur loks úr kolabrennslu í Kína
Á árinu 2014 varð í fyrsta sinn samdráttur í kolanotkun Kínverja, en þennan samdrátt má rekja til hraðrar uppbyggingar endurnýjanlegra orkuvera, aukinnar orkunýtni og minnkandi áherslu stjórnvalda á uppbyggingu stóriðju. Kolanotkunin minnkaði þannig um 2,1% milli áranna 2013 og 2014, en hafði áður aukist jafnt og þétt síðan í byrjun aldarinnar í takt við vaxandi þjóðarframleiðslu. Aðgerðir stjórnvalda í Kína til að draga úr kolanotkun stuðla að bættum loftgæðum en eru jafnframt undirstaða þess að Kína geti staðið við nýgerðan samning við Bandaríkin varðandi losun gróðurhúsalofttegunda. Helmingur af þeirri aukningu sem orðið hefur á CO2-losun í heiminum síðustu 10 ár á rætur að rekja til vaxandi kolabrennslu í Kína.
(Sjá frétt EDIE í dag).
Loftslagsaðgerðir borga sig í lægri heilbrigðiskostnaði
Kostnaður við að lágmarka losun gróðurhúsalofttegunda getur skilað sér í sparnaði í heilbrigðiskerfinu ef marka má nýja rannsókn frá Tækniháskólanum í Massachusetts (MIT). Lægri tíðni astma og annarra kvilla sem tengjast loftmengun eru meðal algengra jákvæðra aukaverkana af aðgerðum sem ætlað er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, þar sem slíkar aðgerðir leiða gjarnan jafnframt til samdráttar í losun annarra efna og bæta þannig loftgæði. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til að sparnaður í heilbrigðiskerfinu vegna lægri sjúkrakostnaður og fleiri þátta sem tengjast betri loftgæðum geti numið allt að tíföldum kostnaði stjórnvalda vegna loftslagsaðgerða. Rannsóknin gefur einnig til kynna að aðgerðir sem beinast að losun gróðurhúsalofttegunda geti bætt loftgæði jafn mikið eða meira en aðgerðir sem beinast sérstaklega að bættum loftgæðum, enda hafi aukin áhersla á minni notkun jarðefnaeldsneytis sjálfkrafa í för með sér minni losun svifryks og lækkaðan styrk yfirborðsósons og fleiri heilsuskaðlegra efna.
(Sjá frétt Science Daily 24. ágúst).
Um 3/4 af þekktum olíu- og gaslindum liggi óhreyfðar
Aðeins má nýta um 25% af þekktum olíu- og gaslindum í heiminum ef takast á að halda hlýnun jarðar innan við 2°C frá því sem var fyrir iðnbyltingu. Hin 75 prósentin verða að liggja óhreyfð eða eru með öðrum orðum „óbrennanlegt kolefni“. Þetta kemur fram í drögum að 3. hluta 5. stöðuskýrslu Vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) sem kemur út 12. apríl nk. Hér er einungis átt við þekktar lindir sem talið er fjárhagslega og tæknilega mögulegt að vinna olíu eða gas úr. Jafnframt gefa fyrstu drög skýrslunnar til kynna að minnka verði losun gróðurhúsalofttegunda um 40-70% fram til ársins 2030 frá því sem hún er í dag.
(Sjá frétt Aftenposten í gær).
Þjóðverjar koma í veg fyrir samkomulag um minnkandi útblástur frá bílum
Umhverfisráðherrar ríkja ESB létu í gær undan þrýstingi þýskra stjórnvalda og lögðu til hliðar fyrirliggjandi samkomulag um að meðalkoltvísýringslosun bíla sem framleiddir verða í álfunni eftir 2020 skuli vera að hámarki 95 g/km (sem samsvarar um 4,1 lítra bensíneyðslu á 100 km). Rök Þjóðverja voru þau að slík takmörkun myndi koma hart niður á þýskum bílaframleiðendum. Connie Hedegaard loftslagsstjóri ESB hefur lýst vonbrigðum sínum með þessa niðurstöðu, enda hefði verið unnið að samkomulaginu í 5 ár. Lena Ek umhverfisráðherra Svíþjóðar tekur í sama streng og segir ábyrgð Þjóðverja mikla. Umhverfisverndarsinnar eru einnig mjög ósáttir og benda á að 95 gramma markmiðið hefði sparað Evrópuþjóðum eldsneyti upp á um 70 milljarða evra (um 11.500 milljarða ísl. kr.) árlega, þar af 9 milljarða (1.500 milljarða ísl. kr.) fyrir Þjóðverja sjálfa. Þetta sé óásættanlegur kostnaður sem leggist á evrópska bíleigendur og á jörðina sem hlýni hraðar en ella, auk þess sem þetta kunni að skaða samkeppnishæfni bílaiðnaðarins í Evrópu.
(Sjá frétt PlanetArk í dag).
Sparneytnir bílar í sókn
Fólksbílar sem seldir voru í löndum Evrópusambandsins (ESB) á síðasta ári voru að meðaltali 9% sparneytnari en næstu þrjú ár þar á undan samkvæmt nýrri skýrslu frá Umhverfisstofnun Evrópu (EEA). Tækniframfarir, fjölgun dísilbíla og efnahagsþrengingar eru taldar eiga stærstan hlut í þessu. Meðalbíllinn sem seldur var 2012 losaði 132,2 g CO2/km, en samkvæmt reglum ESB þarf meðallosunin að vera komin niður í 130 g/km 2015 og 95 g/km 2020. Héðan í frá er heimilt að beita bílaframleiðendur sektum ef þeir standast ekki þessar kröfur.
(Sjá frétt á heimasíðu EEA 30. apríl).
Eldsneyti úr sólarljósi og CO2
Miklar vonir eru bundnar við nýja tækni til að framleiða eldsneyti úr koltvísýringi með aðstoð sólarljóssins, en hópur vísindamanna undir stjórn Heriot-Watt háskólans í Edinborg vinnur að þessu. Hópurinn fékk nýlega styrk upp á 1,2 milljónir sterlingspunda (um 226 millj. ísl. kr.) til að auka skilvirkni í framleiðslunni og gera hana samkeppnishæfa á markaði. Afurðin úr ferlinu getur t.d. verið metan eða metanól, og ef vel gengur ætti þetta að geta minnkað kolefnislosun út í andrúmsloftið um 700 milljón tonn á ári, sem er meira en öll árleg losun Bretlands.
(Sjá frétt EDIE í gær).
Ljósin slökkt í Frakklandi
Frá og með 1. júlí nk. verða verslanir og skrifstofur í Frakklandi að slökkva öll inniljós einni klst. eftir að síðasti starfsmaður yfirgefur bygginguna. Jafnframt verða ljós í búðargluggum að vera slökkt eftir kl. 1 eftir miðnætti. Þessar reglur eru hluti af nýrri löggjöf sem ætlað er að draga úr ljósmengun, auk þess sem losun koltvísýrings mun minnka um 250.000 tonn á ári. Orkan sem sparast dugar fyrir 750.000 frönsk heimili.
(Sjá frétt The Guardian 30. janúar).
Koltvísýringslosun minnkar hægar í atvinnugreinum sem versla með losunarheimildir
Koltvísýringslosun minnkar hægar í atvinnugreinum sem versla með losunarheimildir en í greinum sem gera það ekki, að því er fram kemur í nýrri úttekt Umhverfisstofnunar Svíþjóðar (Naturvårdsverket). Á árunum 2005-2007 minnkaði koltvísýringslosun um 0,9% í þeim atvinnugreinum í Svíþjóð sem versla með losunarheimildir, en um 3,2% í öðrum greinum. Svipað er uppi á teningnum frá og með árinu 2008, en á því tímabili hefur samdrátturinn verið 1,0% í fyrrnefndu greinunum og 3,6% í þeim síðarnefndu.
(Sjá fréttatilkynningu Naturvårdsverkets í gær).