Nýjar byggingar franska ríkisins að hálfu úr timbri

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, hefur tilkynnt að frá og með árinu 2022 skuli allar nýbyggingar sem fjármagnaðar eru af franska ríkinu vera að minnsta kosti að hálfu leyti byggðar úr timbri. Þetta er liður í viðleitni ríkisstjórnarinnar til að ýta undir sjálfbæra borgarþróun. Áður höfðu borgaryfirvöld í París lýst því yfir að timbur verði notað í auknum mæli sem byggingarefni fyrir Ólympíuleikana í París 2024. Þannig verða allar byggingar sem reistar verða í tengslum við leikana, og eru 8 hæðir eða minna, alfarið reistar úr timbri.
(Sjá frétt Planet/Ark Reuter 7. febrúar).

Á tréfákum um Stokkhólm

Frá því í maí í vor hafa ferðamenn í Stokkhólmi átt þess kost að ferðast um borgina á reiðhjólum úr tré og kynna sér í leiðinni ýmis verkefni sem stuðla að sjálfbærni borgarinnar. Hjólin voru smíðum hjá grísku fyrirtæki sem alla jafna framleiðir umhverfisvæn rúm. Þau hafa reynst vel og dregið athygli að því sem hægt er að gera til að draga úr áhrifum mannsins á umhverfið. Aðstandendur verkefnisins hafa m.a. verið tilnefndir til sérstakra frumkvöðlaverðlauna Stokkhólmsborgar.
(Sjá frétt Aktuell Hållbarhet 23. nóvember).

Húsgögn og gólf úr ólöglegu timbri til sölu

SiberiutigurMiklar líkur eru á að húsgögn og gólfefni úr ólöglegu timbri séu seld í Evrópu þrátt fyrir reglur sem banna slík viðskipti. Í nýrri úttekt WWF kemur fram að á síðan um aldamót hafi útflutningur á timbri frá austasta hluta Rússlands verið tvöfalt til fjórfalt það magn sem leyft er að fella og vinna á þeim slóðum. Timbrið er að mestu leyti flutt til Kína þar sem framleidd eru úr því húsgögn og gólfefni, sem síðan eru m.a. flutt út til Evrópu. Skógarhöggið spillir búsvæðum Síberíutígursins, sem er í mikilli útrýmingarhættu, auk þess sem það bitnar á frumbyggjum og samfélögum þeirra. Stjórnvöld í Rússlandi hafa ekki náð að stöðva þessa starfsemi og því brýnir WWF það fyrir vestrænum fyrirtækjum og neytendum að huga betur að uppruna varnings úr timbri og kaupa helst FSC-vottaðar vörur.
(Sjá frétt á heimasíðu WWF í Svíþjóð í gær).