Nýjar byggingar franska ríkisins að hálfu úr timbri

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, hefur tilkynnt að frá og með árinu 2022 skuli allar nýbyggingar sem fjármagnaðar eru af franska ríkinu vera að minnsta kosti að hálfu leyti byggðar úr timbri. Þetta er liður í viðleitni ríkisstjórnarinnar til að ýta undir sjálfbæra borgarþróun. Áður höfðu borgaryfirvöld í París lýst því yfir að timbur verði notað í auknum mæli sem byggingarefni fyrir Ólympíuleikana í París 2024. Þannig verða allar byggingar sem reistar verða í tengslum við leikana, og eru 8 hæðir eða minna, alfarið reistar úr timbri.
(Sjá frétt Planet/Ark Reuter 7. febrúar).

Fyrsti Svansmerkti skóli Noregs opnaður

Á dögunum var fyrsta Svansmerkta skólabyggingin í Noregi tekin í notkun í Røyken, en til að fá Svaninn þurfa byggingar að uppfylla strangar kröfur um byggingarefni, byggingaraðferðir, efnanotkun, orkunýtingu, lýsingu, loftræsingu, hljóðvist og sitthvað fleira. Skólinn er byggður úr timbri og rúmar 130 nemendur í 14 skólastofum. Byggingartíminn var tvö ár og byggingarkostnaður um 170 milljónir norskra króna (tæplega 2,4 milljarðar ísl. kr.). Þetta er „skóli fyrir framtíðina“, eins og Anita Winsnes, framkvæmdastjóri Svansins í Noregi, orðaði það við opnunarathöfnina.
(Sjá frétt á heimasíðu Svansins í Noregi 23. ágúst).

Norska ríkið styrkir loftslagsverkefni sveitarfélaga

md-byggplass-160x78Í dag úthlutaði Umhverfisstofnun Noregs (Miljødirektoratet) 98 milljónum norskra króna (rúmlega 1,3 milljörðum ísl. kr.) til samtals 142 loftslagsverkefna í 89 þarlendum sveitarfélögum, en samtals bárust stofnuninni 332 umsóknir um styrki af þessu tagi. Þarna er um að ræða svonefnt „Klimasats-fé“ sem var sérstaklega eyrnamerkt í fjárlögum til að styðja við aðgerðir sveitarfélaga sem miða að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og vísa veginn til kolefnishlutlausrar framtíðar. Verkefnin sem í hlut eiga eru margvísleg, en sem dæmi má nefna útblásturslaus byggingarsvæði, nýtingu timburs sem byggingarefnis í stað stáls og steinsteypu, hleðslustöðvar fyrir bíla í eigu sveitarfélaga, tilraunir með rafknúnar vinnuvélar, innviði fyrir rafhjól, reiðhjólahótel við lestarstöðvar og skipulagsverkefni með sérstakri áherslu á loftslagsmál. Auk loftslagsáherslunnar eru mörg verkefnanna til þess fallin að bæta loftgæði og þar með heilsu fólks á viðkomandi svæðum.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljødirektoratet í dag).

Skýrari hugsun í umhverfisvottuðum byggingum

109buildings-160Fólk sem starfar í umhverfisvottuðum byggingum virðist skýrara í kollinum en þeir sem vinna í sambærilegum byggingum sem ekki uppfylla skilyrði umhverfisvottunar. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn vísindamanna í Harvard sem kynnt var á árlegri ráðstefnu Vistbyggðaráðs Bandaríkjanna sem haldin var í Los Angeles á dögunum. Rannsóknin náði til 109 einstaklinga í 10 byggingum í 5 borgum í Bandaríkjunum. Fólkið í umhverfisvottuðu byggingunum fékk að meðaltali 26% hærri einkunnir í prófum sem reyna á starfsemi hugans en þeir sem unnu í hinum byggingunum. Fólkið í fyrrnefnda hópnum reyndist hafa mun meiri hæfni til að bregðast við áreiti, hélt athyglinni betur, bjó við betri heilsu og svaf betur á næturnar, svo eitthvað sé nefnt. Umhverfisvottun bygginga virðist sem sagt ekki bara koma umhverfinu að gagni, heldur stuðlar hún jafnframt að meiri framleiðni og betri líðan.
(Sjá frétt United Technologies 5. október).

Eftirlit með bílaflotanum minnkar losun um 22%

emission cutBreski byggingarverktakinn J.Murphy & Sons hefur dregið úr losun fyrirtækisins um 22% með því að koma fyrir tækjabúnaði í bílaflotanum til að fylgjast með aksturshegðun ökumanna fyrirtækisins. Um 1.900 mælum var komið við í bílaflota fyrirtækisins og skráði búnaðurinn hraða, lausagang og ferðaleiðir. Eftir að mælingartímanum lauk voru niðurstöðurnar teknar saman og kynntar bílstjórum og þeim sýndar leiðir til hagkvæmari og öruggari aksturs. Aukin vitund bílstjóranna um áhrif akstursmynsturs á losun gróðurhúsalofttegunda, bensíneyðslu og öryggi hafði í för með sér þessa stórbættu nýtingu.
(Sjá frétt Planning & Building Control Today 15. febrúar).

Viðgerðir og endurnotkun í brennidepli

73860Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins vinnur að nýrri áætlun sem ætlað er stuðla að því að hlutir, allt frá raftækjum til bygginga, séu lagfærðir eða endurunnir í stað þess að fleygja þeim og taka nýja í notkun í þeirra stað. Þessu á m.a. að ná fram með því að skylda framleiðendur til að gefa ráð um viðgerðir og niðurrif í notkunarleiðbeiningum í stað þess að tilgreina einungis hvernig staðið skuli að förgun. Sjónum verður sérstaklega beint að nýtingu á plasti, en um helmingur alls þess plasts sem tekið er í notkun endar í urðun eða á hafi úti með tilheyrandi hættu fyrir dýralíf. Vonast er til að þetta ýti undir vöxt hringrásarhagkerfisins á kostnað einnotahagkerfisins sem víða er við lýði. Gert er ráð fyrir að umrædd áætlun líti formlega dagsins ljós í næsta mánuði.
(Sjá frétt PlanetArk í dag).

Svansmerktar íbúðir í Kaupmannahöfn fá Óskarsverðlaun byggingariðnaðarins

MIPIM_160Verktakafyrirtækið NCC tók fyrir helgi við MIPIM-byggingarverðlaununum fyrir Svansmerktar íbúðir sem fyrirtækið hefur byggt við Krøyers Plads í Christianshavn í Kaupmannahöfn. Verðlaunin eru veitt í Cannes einu sinni á ári og eru oft kölluð Óskarsverðlaun byggingariðnaðarins. NCC fékk verðlaun í flokknum „Þróun íbúðahverfis“ bæði fyrir áherslur sínar á sjálfbærni verkefnisins og arkitektúr, en meðal keppinautanna voru verkefni frá Dubai, Sydney og Stavanger.
(Sjá frétt NCC 13. mars).

Plastagnir endurnýttar í steypu

27225Hafin er tilraunaframleiðsla á steypu þar sem endurunnar plastagnir eru notaðar í staðinn fyrir 10% af þeim sandi sem hingað til hefur verið notaður í steypuna. Háskólinn í Bath í Englandi stýrir verkefninu í samvinnu við indverska vísindamenn með fjármagni frá Bretland-Indland menntunar- og rannsóknarverkefninu (UKIERI). Afurð verkefnisins verður steypublanda með svipaða eiginleika og hefðbundin steypa hvað varðar styrk, endingu og hitaþol. Verkefnið mun draga úr tveimur umhverfisvandamálum á Indlandi. Annars vegar stuðlar það að minna sandnámi úr árbökkum og þar með minni landeyðingu og hins vegar dregur það úr magni plasts sem fer til urðunar. Indland er annar stærsti steypuframleiðandi heims með um 270 milljón tonna árlega framleiðslu.
(Sjá frétt EDIE í dag).

Ótrúlegur orkusparnaður í Empire State

EmpireState_160Nýstárleg aðgerðaáætlun um orkusparnað í Empire State byggingunni sparaði húseigendum um 3 milljónir bandaríkjadala (um 350 millj. ísl. kr.) á árinu 2013. Frá árinu 2009 hefur verið unnið að endurbótaverkefni til að draga úr orkunotkun byggingarinnar. Á þeim tíma hefur m.a. verið skipt um 6.514 glugga, einangrun komið fyrir bak við ofna og nýtt stýrikerfi tekið í notkun fyrir bygginguna. Þegar öllum endurbótum er lokið er gert ráð fyrir að árlegur orkukostnaður hafi lækkað um 4,4 milljónir bandaríkjadala (um 515 millj. ísl. kr.) sem jafngildir allt að 38% samdrætti í orkunotkun. Þar sem byggingar í Bandaríkjunum nota um 42% allrar orku sem neytt er þarlendis felur þetta tiltekna verkefni í sér mikilvægt dæmi um þann árangur sem hægt er að ná, bæði í fjárhagslegu og umhverfislegu tilliti, ekki síst þegar haft er í huga að þarna á í hlut 103 hæða skýjakljúfur, sem jafnframt er frægasta skrifstofubygging í heimi.
(Sjá frétt EDIE í dag).

Ný vöruhús Bacardi byggð úr byggingarúrgangi

bacardiByggingarúrgangur var notaður sem efniviður í þrjú ný vöruhús rommrisans Bacardi í Púertó Ríkó. Við niðurrif gamalla bygginga á athafnasvæðinu féllu til þúsundir tonna af óvirkum úrgangi á borð við steypu, jarðveg og stál, sem notað var í nýbyggingarnar. Með þessu móti sparaði Bacardi háar upphæðir, auk þess sem aðgerðin féll vel að úrgangsleysisstefnu fyrirtækisins (e. zero waste). Sjálfbærniverkefni Bacardi undir yfirskriftinni Good Spirited hefur það að markmiði að byggingarúrgangur verði úr sögunni árið 2022. Fyrirtækið hefur einnig sett sér það markmið að draga úr vatnsnotkun um 55% og minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 50% fram til ársins 2017.
(Sjá frétt EDIE í dag).