Horfur á stórfelldum samdrætti í fiskveiðum

Líkur eru á að árið 2300 verði fiskafli í heiminum að meðaltali 20% minni en hann er nú og að í Norður-Atlantshafi verði samdrátturinn um 60%. Þetta kemur fram í grein sem vísindamenn við Háskólann í Kaliforníu rita í nýjasta tölublað Science. Með hækkandi hitastigi sjávar og bráðnun íss á heimskautasvæðunum mun ljóstillífun plöntusvifs við Suðurskautslandið vaxa verulega, sem þýðir að næringarefni (einkum köfnunarefni og fosfór) hætta að berast þaðan til annarra hafsvæða í sama mæli og nú. Þar af leiðandi mun plöntusvifi fara hnignandi á þeim svæðum og sú hnignun mun ganga upp alla fæðukeðjuna.
(Sjá frétt Science Daily 8. mars).

15% stækkun lífræns landbúnaðarlands milli ára

Í árslok 2016 voru 57,8 milljónir hektara landbúnaðarlands í heiminum komnar með vottun til lífrænnar framleiðslu, en þetta samsvarar 15% aukningu milli ára. Á sama tíma fjölgaði bændum í lífrænni framleiðslu úr tæplega 2,4 milljónum í 2,7 milljónir, eða um 12,8%. Lífrænn landbúnaður var stundaður í 178 löndum á þessum tíma og heildarsala lífrænna landbúnaðarafurða á heimsvísu árið 2016 nam 89,7 milljörðum Bandaríkjadala (rúmlega 9.000 milljörðum ísl. kr.). Á flestum stærri markaðssvæðum heimsins var veltuaukningin milli ára yfir 10% og í Frakklandi var hún 22%. Markaðshlutdeild lífrænt vottaðrar matvöru var hæst í Danmörku, 9,7%. Í 15 löndum var hlutfall landbúnaðarlands með lífræna vottun komið yfir 10%. Þessar tölur og margar fleiri koma fram í skýrslunni The World of Organic Agriculture sem kom út í tengslum við vörusýninguna BioFach sem haldin var í Nürnberg á dögunum.
(Sjá frétt á heimasíðu IFOAM 14. febrúar).

Loftslagsbreytingar ógna Evrópu

image_xlarge-160x90Vistkerfum, lýðheilsu og hagkerfum Evrópu stafar vaxandi ógn af loftslagsbreytingum að því er fram kemur í nýrri skýrslu Umhverfisstofnunar Evrópu (EEA). Sum svæði eru þó enn viðkvæmari en önnur. Þannig má búast við að suður- og suðausturhluti álfunnar verði illa úti vegna hækkandi hitastigs og þurrka, sem m.a. eykur líkur á uppskerubresti, skerðingu líffræðilegrar fjölbreytni, skógareldum og útbreiðslu sjúkdóma, m.a. vegna landnáms mítla og skordýra sem bera smit. Við Atlantshafið felst ógnin einkum í aukinni flóðahættu og stórfelldum breytingum á lífríki sjávar vegna súrnunar og svæðisbundins súrefnisskorts. Þá verða heimskautasvæðin hart úti vegna mikilla breytinga á lofthita og sjávarhita með tilheyrandi bráðnun íss og jökla. Jákvæð áhrif, svo sem vegna bættra ræktunarskilyrða, vega létt í þessum samanburði. Samkvæmt skýrslunni er brýn þörf fyrir betri og sveigjanlegri áætlanir um aðlögun að loftslagsbreytingum.
(Sjá frétt á heimasíðu EEA í dag).

Aukin vistnýtni í dönsku hagkerfi

grus-160Vistnýtni (e. eco-efficiency) í dönsku hagkerfi jókst um 21,6% á tímabilinu 2000-2014. Þetta þýðir að á árinu 2014 náðu Danir 21,6% meiri verðmætum út úr þeim náttúruauðlindum sem þeir nýttu en þeir gerðu árið 2000. Þetta samsvarar árlegum framförum upp á 1,41% og samkvæmt nýrri skýrslu Umhverfisstofnunar Danmerkur (Miljøstyrelsen) eru horfur á að nýtingin eigi enn eftir að batna, jafnvel þannig að vistnýtni verði 16% betri árið 2030 en hún var 2014. Í svona útreikningum er þó nauðsynlegt að hafa í huga að ólíkar atvinnugreinar eru misfrekar á náttúruauðlindir. Þannig tekur byggingariðnaður til sín tiltölulega mikið af auðlindum. Lítil umsvif hafa verið í þessari grein í Danmörku frá því á árinu 2009 og má rekja bætta vistnýtni til þess öðru fremur. Árið 2014 voru 113,2 milljónir tonna af hráefni notaðar í dönsku hagkerfi, þ.m.t. lífmassi, jarðefnaeldsneyti, málmar og önnur jarðefni. Þessi notkun skilaði þjóðarframleiðslu upp á u.þ.b. 1.837 milljarða danskra króna (DKK) sem samsvarar 16,2 DKK á hvert kg hráefnis.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen í gær).