Danskir vísindamenn eru þessa dagana að hleypa af stokkunum fjögurra ára rannsóknarverkefni undir yfirskriftinni Climate Feed þar sem ætlunin er að þróa fæðubótarefni úr þörungum sem gæti minnkað metanlosun frá mjólkurkúm um 30%. Verkefnið felur í sér þróun aðferða við að rækta þörunga sem hafa þessi áhrif og vinna úr þeim duft eða köggla sem auðvelt er að bæta í fóður nautgripa, án neikvæðra áhrifa á nyt kúnna eða bragð og gæði mjólkurinnar. Þörungar sem ræktaðir verða á dönskum strandsvæðum ættu m.a. að geta nýtt næringarefni sem skolast í sjóinn frá landbúnaði. Hreinni sjór og sjálfbærari landbúnaður gætu því orðið hliðarafurðir verkefnisins, auk þess sem varan ætti að draga úr fóðurþörf með því að draga úr orkutapi vegna metanlosunar. Háskólinn á Árósum sér um val á tegundum og þróun ræktunaraðferða, en verkefnið er styrkt um 11,7 milljónir danskra króna (um 217 millj. ísl. kr.) af danska nýsköpunarsjóðnum. Heildarkostnaður er áætlaður 17 milljónir DKK (um 315 millj. ísl. kr.).
(Sjá frétt vefmiðilsins Økologisk 6. september).
Greinasafn fyrir merki: fóður
Krybbur frekar en kjúklingar
Ræktun skordýra til manneldis hefur minni neikvæð áhrif á umhverfið en annað húsdýrahald að því er fram kemur í nýjum rannsóknarniðurstöðum vísindamanna við Kaupmannahafnarháskóla. Síðustu misseri hefur gjarnan verið talað um skordýr sem „fæðu framtíðarinnar“ en umrædd rannsókn er sú fyrsta þar sem helstu umhverfisþættir skordýraræktar eru greindir og lagt fræðilegt mat á umhverfisáhrifin. Rannsóknin byggði á samanburði krybburæktar við kjúklingarækt og meginniðurstaðan var sú að krybburnar kæmu talsvert betur út, einkum vegna þess að þær nýta fóður betur. Talið er mögulegt að minnka vistspor krybbubúskaparins enn frekar með aukinni nýtingu á úrgangsefnum og öðru fóðri sem ekki nýtist kjúklingum eða öðrum hefðbundnum húsdýrum. Krybbur hafa verið ræktaðar til matar í Tælandi í nær 20 ár og þar eru nú um 20 þúsund krybbubú. Um 2.000 tegundir skordýra eru nýttar til matar í heiminum. Flestar þeirra eru veiddar til matar en u.þ.b. 9 tegundir eru ræktaðar til manneldis eða fóðurframleiðslu.
(Sjá frétt ScienceDaily 11. maí).
ESB takmarkar notkun fóðurplantna í lífeldsneyti
Framvegis mega fóðurplöntur að hámarki standa undir 7% af allri framleiðslu lífeldsneytis í Evrópusambandinu samkvæmt nýju samkomulagi ráðherra orkumála ESB frá 13. júní sl. Notkun lífeldsneytis af fyrstu kynslóð hefur verið gagnrýnd þar sem eldsneytið er m.a. framleitt úr fóðurplöntum á borð við maís og sykurreyr sem gætu annars nýst sem fæða fyrir fólk og dýr. Jafnframt getur ræktun og landnotkun vegna framleiðslunnar haft í för með sér aukna losun gróðurhúsalofttegunda og hækkun á matvælaverði. Með því að draga úr notkun fóðurplantna til eldsneytisframleiðslu er brautin einnig rudd fyrir lífeldsneytisframleiðslu af annarri og þriðju kynslóð svo sem framleiðslu úr lífrænum úrgangi, hauggasi o.s.frv. Samkomulag ráðherranna verður nú lagt fyrir Evrópuþingið til endanlegrar afgreiðslu.
(Sjá frétt the Guardian 13. júní).
Skordýramjöl sem skepnufóður
Franska sprotafyrirtækið Ynsect vinnur að því að þróa fóður úr skordýramjöli, sem hugsanlega gæti komið í stað próteingjafa á borð við fiskimjöl, sojamjöl og kjötmjöl. Svarta hermannaflugan, húsflugulirfur, silkiormar og gulir mjölormar þykja hvað vænlegust sem hráefni í þessa framleiðslu. Skordýrin verða ræktuð á staðnum og síðan unnin í áfastri skordýramjölsverksmiðju, og standa vonir til að fyrsti hluti þessarar aðstöðu verði tilbúinn innan tveggja ára. Skordýrin eru auðveld í ræktun og hægt að ala þau á nánast hvaða lífræna úrgangi sem er. Skeljar og aðrar aukaafurðir frá vinnslunni geta nýst m.a. í lyfja- og snyrtivöruiðnaði, og skordýraskítur er ákjósanlegur áburður. Tilraunir benda til að hægt sé að nota engisprettumjöl til helminga á móti fiskimjöli sem fóður í fiskeldi án þess að það komi niður á árangri. Enn er ekki leyfilegt að nota skordýramjöl sem fóður í svínarækt og kjúklingaeldi innan ESB, en hugsanlegt er að slíkt leyfi fáist frá og með 2014.
(Sjá frétt PlanetArk í dag).