Vaxandi sala á lífrænum matvörum í Bretlandi

Sala á lífrænt vottuðum matvörum í Bretlandi var 4% meiri á fyrri hluta þessa árs en á sama tíma í fyrra, þrátt fyrir að matvörumarkaðurinn hafi almennt átt mjög erfitt uppdráttar vegna mikilla þurrka og uppskerubrests. Þetta er 7. árið í röð sem sala á lífrænum matvörum vex og er heildarvelta þessarar sölu í breskum stórmörkuðum nú um 2,2 milljarðar sterlingspunda á ári (rúmlega 300 milljarðar ísl. kr.). Mest var söluaukningin í alls konar lífrænt vottuðu sælgæti og sérvöru, 27,8%, en þar á eftir kom lífrænt vottað vín og bjór með 8,7% aukningu.
(Sjá frétt The Guardian í dag).

15% stækkun lífræns landbúnaðarlands milli ára

Í árslok 2016 voru 57,8 milljónir hektara landbúnaðarlands í heiminum komnar með vottun til lífrænnar framleiðslu, en þetta samsvarar 15% aukningu milli ára. Á sama tíma fjölgaði bændum í lífrænni framleiðslu úr tæplega 2,4 milljónum í 2,7 milljónir, eða um 12,8%. Lífrænn landbúnaður var stundaður í 178 löndum á þessum tíma og heildarsala lífrænna landbúnaðarafurða á heimsvísu árið 2016 nam 89,7 milljörðum Bandaríkjadala (rúmlega 9.000 milljörðum ísl. kr.). Á flestum stærri markaðssvæðum heimsins var veltuaukningin milli ára yfir 10% og í Frakklandi var hún 22%. Markaðshlutdeild lífrænt vottaðrar matvöru var hæst í Danmörku, 9,7%. Í 15 löndum var hlutfall landbúnaðarlands með lífræna vottun komið yfir 10%. Þessar tölur og margar fleiri koma fram í skýrslunni The World of Organic Agriculture sem kom út í tengslum við vörusýninguna BioFach sem haldin var í Nürnberg á dögunum.
(Sjá frétt á heimasíðu IFOAM 14. febrúar).

Danir stefna að stórauknum útflutningi á lífrænum vörum

Samtök lífrænna framleiðenda í Danmörku (Økologisk Landsforening) gera ráð fyrir að útflutningur Dana á lífrænt vottuðum vörum muni nema um 3 milljörðum danskra króna á þessu ári (um 50 milljörðum ísl. kr.). Á síðustu fjórum árum hefur þessi útflutningur fjórfaldast. Í samræmi við þetta ætla Danir sér stóra hluti á hinni árlegu kaupstefnu BioFach sem hefst í Nürnberg í Þýskalandi nk. miðvikudag, þar sem þeir hyggjast leggja sérstaka áherslu á nýja vöruflokka.
(Sjá frétt á heimasíðu Økologisk Landsforening í dag).

Danir kaupa sífellt fleiri tegundir af lífrænum vörum

Danir hafa lengi keypt meira af lífrænt vottuðum vörum en aðrar þjóðir, sérstaklega vörum á borð við mjólk, egg, gulrætur og aðra ferskvöru. Nú virðist eftirspurnin hins vegar vera farin að ná til fleiri vöruflokka en áður, því að á nýliðnu ári varð gríðarleg aukning í sölu á unnum matvælum með lífræna vottun, svo sem ávaxtasafa, víni, ís, sælgæti og tilbúnum réttum. Söluaukningin í þessum vörutegundum nam allt frá 30% upp í nokkur hundruð prósent. Vísindamenn við háskólann í Árósum segja þessa þróun vera dæmi um svonefnd rúllustigaáhrif, sem lýsa sér í því að þegar neytendur eru einu sinni komnir á bragðið liggur leiðin aðeins upp á við. Hvatinn á bak við þessa öru þróun er m.a. talinn vera vilji neytenda til að forðast „E-efni“ sem ekki eru leyfð í lífrænni framleiðslu.
(Sjá frétt á heimasíðu Økologisk landsforening 16. janúar).

Lífræn matvæli geta brauðfætt alla jarðarbúa

Hægt verður að mæta allri fæðuþörf mannkynsins árið 2050 með lífrænt vottuðum matvælum, að því er fram kemur í nýrri þýskri rannsókn. Lífræn ræktun er sjálfbærari en hefðbundinn landbúnaður samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar, en þar sem hún er alla jafna landfrekari þurfi jafnframt að draga úr kjötframleiðslu og matarsóun. Þá felist stór áskorun í að útvega nægjanlegt köfnunarefni til notkunar í ræktuninni, en aukin ræktun köfnunarefnisbindandi belgjurta væri stórt skref í þá átt. Að óbreyttu stefni landbúnaður heimsins í öngstræti vegna mikillar losunar gróðurhúsalofttegunda, ofauðgunar og minnkandi líffræðilegrar fjölbreytni.
(Sjá frétt á Videnskap.dk 14. nóvember).

Lífrænar vörur flæða yfir Danmörku

Sala á lífrænum vörum fer enn vaxandi í Danmörku og stefnir í samtals 14 milljarða danskra króna (um 235 milljarða ísl. kr.) á þessu ári. Þetta samsvarar 16% aukningu frá fyrra ári. Kannanir sýna að næstum því annar hvor Dani kaupir lífrænt vottaðar vörur í hverri viku. Til skamms tíma einskorðaðist neysla þessa varnings einkum við höfuðborgarsvæðið og aðra stærstu bæi, en nú er eftirspurnin orðin dreifðari. Þarna koma líka ákveðin snjóboltaáhrif við sögu, því að eftir því sem framleiðendum og vörutegundum fjölgar verða neytendur meðvitaðri um úrvalið.
(Sjá frétt á heimasíðu Økologisk Landsforening 13. október).

Lífræn matvæli stuðla að betri heilsu

Neysla lífrænna matvæla bætir heilsu og styður við þroska ungbarna, minnkar líkur á sykursýki og offitu fullorðinna og dregur úr hættu á uppvexti lyfjaónæmra baktería að því er fram kemur í skýrslunni Human health implications of organic food and organic agriculture, sem unnin var fyrir Evrópuþingið og felur í sér samantekt á rannsóknarniðurstöðum síðustu ára. Þessi ávinningur byggir m.a. á því að notkun varnarefna er bönnuð í lífrænum landbúnaði, álag vegna kadmíummengaðs áburðar er hverfandi og áhersla á dýravelferð gerir það að verkum að þörf fyrir sýklalyf í húsdýrahaldi er mun minni en ella, auk þess sem strangar reglur gilda um lyfjanotkun. Í skýrslunni kemur einnig fram að neysla lífrænna matvæla dragi úr líkum á hjarta- og æðasjúkdómum, fækki ofnæmisvandamálum og stuðli að minni losun gróðurhúsalofttegunda. Í þessu felst þó ekki sönnun þess að lífræn matvæli séu hollari en önnur, m.a. vegna þess að aðrir þættir í lífsstíl „lífrænna neytenda“ kunna að eiga þátt í betri heilsu þeirra.
(Sjá frétt FoodTank 31. desember 2016).

Mikil aukning í lífrænni ræktun

oeko-mark-med-koeer_web160Samtals sóttu 1.128 danskir bændur um styrki til aðlögunar að lífrænni ræktun þetta árið. Sótt var um vegna landsvæða sem eru samtals 40.000 hektarar að flatarmáli, en það samsvarar öllu flatarmáli eyjanna Langalands og Samsø. Með þessu eru danskir bændur að bregðast við gríðarlegri aukningu í eftirspurn eftir lífrænt vottuðum vörum. Salan á þessum vörum í dönskum verslunum hefur tvöfaldast síðan á árinu 2007 og er nú komin í u.þ.b. 7 milljarða danskra króna á ári (um 120 milljarða ísl. kr.). Sala til stóreldhúsa hefur þrefaldast á 5 árum og útflutningur á lífrænt vottuðum vörum frá Danmörku hefur sjöfaldast á 10 árum. Gert er ráð fyrir að þörf sé á að taka aðra 40.000 hektara í aðlögun á næsta ári til að halda í horfinu.
(Sjá frétt á heimasíðu Økologisk Landsforening 28. október).

Svíar og Danir kaupa mest lífrænt

matkasse-160x82Svíar kaupa nú hlutfallslega jafnmikið af lífrænt vottuðum vörum og Danir, en Danir hafa hingað til verið fremstir í heimi hvað þetta varðar. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá Ekoweb, sem um árabil hefur sérhæft sig í að greina markaðinn fyrir lífrænar vörur. Í skýrslunni kemur fram að um mitt ár 2016 hafi markaðshlutdeild lífrænt vottaðrar vöru í stærstu matvöruverslunarkeðjunum og í Áfengisverslun ríkisins (Systembolaget) verið komin í 9%, sem er sama hlutfall og í Danmörku. Salan í Svíþjóð hafði þá aukist um 23% frá sama tímabili 2015. Forsvarsmenn vottunarstofunnar KRAV í Svíþjóð hafa sett sér það markmið að Svíar verði komnir upp fyrir Dani á þessu sviði í árslok og þar með orðnir „bestir í heimi“. Úrslitin í þeirri keppni verða hugsanlega ljós 26. janúar 2017. Hvað lífræna framleiðslu varðar eiga Svíar lengra í land, en þar trónir Austurríki í toppnum.
(Sjá frétt á heimasíðu KRAV í dag).

Sjálfbærni í brennidepli á NorthSide tónlistarhátíðinni

northsideUm 80% af öllum mat og rúmlega 50% af öllum kranabjór sem seldur var í sölubásum á NorthSide tónlistarhátíðinni í Árósum sl. sumar var lífrænt vottað auk þess sem meira en helmingur þess úrgangs sem féll til á hátíðinni var flokkaður til efnisendurvinnslu. Mikil áhersla hefur verið lögð á að auka sjálfbærni viðburðarins með sérstakri áherslu á orkunýtingu, endurnýtingu, úrgangsflokkun og lífrænar matvörur. Aðstandendur hátíðarinnar segja að kröfurnar verði enn strangari á næsta ári, enda sé stefnt að því að allur matur og drykkur verði lífrænt vottaður og að hátíðin verði úrgangslaus (þ.e.a.s. að enginn blandaður úrgangur falli til).
(Sjá frétt Økologisk landsforening 11. janúar)