Glýfosat í þvagi danskra stjórnmálamanna

1450513463_9fe7108f9d_o-160Glýfosat fannst í þvagi allra stjórnmálamanna í 25 manna hópi sem tekinn var til rannsóknar í tilefni af ráðstefnu um erfðabreyttar lífverur sem haldin var í Christiansborg í Kaupmannahöfn á dögunum. Meðalstyrkur efnisins var 0,89 ng/mg (nanógrömm efnis í milligrammi af þvagi) meðal þeirra sem tamið höfðu sér lífrænan lífsstíl en 1,45 ng/mg hjá þeim sem töldust hefðbundnir neytendur. Glýfosat, sem er m.a. virka efnið í plöntueitrinu Roundup, er flokkað sem krabbameinsvaldur, en engin leið er að segja til um hvort umræddur styrkur muni hafa áhrif á heilsu viðkomandi stjórnmálamanna. Niðurstöðurnar sýna hins vegar að efnið er orðið útbreitt í umhverfinu og í fæðukeðjunni, en vitað er að það er m.a. mjög skaðlegt fyrir vatnalífverur.
(Sjá frétt á heimasíðu Náttúruverndarsamtaka Danmerkur í dag).

Frakkar hafna erfðabreyttri ræktun

73656 (160x107)Frönsk stjórnvöld ætla að nýta sér höfnunarkerfi Evrópusambandsins (ESB) til að viðhalda banni við ræktun á erfðabreyttum plöntum í landinu. Höfnunarkerfið, sem samþykkt var í mars, heimilar einstökum aðildarríkjum ESB að sækja um undanþágu frá öllum samþykktum sem heimila ræktun erfðabreyttra plantna í löndum sambandsins. Erfðabreytta maísafbrigðið MON810 frá Monsanto hefur hingað til verið eina erfðabreytta plantan sem ræktuð er í Evrópu, nánar tiltekið á Spáni og í Portúgal, en umsóknir um leyfi til ræktunar fleiri afbrigða bíða nú afgreiðslu hjá ESB. Þar á meðal er skordýraþolinn maís frá DuPont Pioneer og Dow Chemical, sem gengur undir nafninu 1507. Frakkar eru stærstu framleiðendur og útflytjendur korns í Evrópu, en Þjóðverjar hafa einnig ákveðið að beita höfnunarákvæðinu. Sama gildir m.a. um Letta og Grikki.
(Sjá frétt PlanetArk í dag).

Merkingin „100% náttúrulegt“ á útleið hjá General Mills

Nature-Valley-Trail-Mix-Bar.jpg.662x0_q100_crop-scaleDómsátt hefur náðst í máli samtakanna Center for Science in the Public Interest (CSPI) gegn General Mills, en samtökin hófu lögsókn á hendur fyrirtækinu árið 2012 vegna notkunar þess á merkingunni „100% náttúrulegt“. Dómsáttin felur í sér að General Mills hættir að nota merkinguna á vörur sem innihalda meira en 0,9% af tilbúnum efnum á borð við háfrúktósa maíssýróp, maltódextrín og natríumbíkarbónat. Þar að auki mun fyrirtækið ekki nota merkinguna á vörur sem innihalda meira en 0,9% af erfðabreyttu efni. CSPI bindur vonir við að lögsóknin gefi tóninn fyrir svipaðar málsóknir og stuðli að ábyrgðarfyllri merkingum.
(Sjá frétt TreeHugger í dag).

Bannað verði að merkja matvöru sem „náttúrulega“

natturulegtBandarísku neytendasamtökin Consumer Reports hafa krafist þess að bannað verði að merkja matvöru með áletruninni „náttúrulegt“ og að skylt verði að sérmerkja allar matvörur sem innihalda erfðabreytt efni. Þessi krafa kemur í kjölfar rannsóknar samtakanna, sem leiddi í ljós að algengar matvörur, svo sem morgunkorn, snakk og barnamatur, sem merktar höfðu verið sem „náttúrulegar“, innihéldu mælanlegt magn af erfðabreyttu korni. Um 64% Bandaríkjamanna telja að sé vara merkt sem „náttúruleg“ innihaldi hún ekki erfðabreytt efni, en um 75% bandarískra neytenda leitast við að kaupa vörur án slíkra efna. Þess vegna er áletrunin „náttúrulegt“ beinlínis villandi að mati samtakanna.
(Sjá frétt ENN 8. október).

Ný ríkisstjórn í Þýskalandi boðar hertar reglur um merkingar erfðabreyttra matæla

Kýr GMO fodurNý ríkisstjórn kristilegra demókrata og jafnaðarmanna í Þýskalandi, sem tekur væntanlega formlega við völdum í desember, hyggst beita sér innan Evrópusambandsins fyrir hertum reglum um merkingu erfðabreyttra matvæla. Samkvæmt drögum að stjórnarsáttmála vill ríkisstjórnin að skylt verði að merkja sérstaklega afurðir dýra sem alin hafa verið á erfðabreyttu fóðri. Ef af verður mun hátt hlutfall kjöts sem framleitt er innan sambandsins verða merkt með þessum hætti, þar sem mikið er af erfðabreyttu soja af bandarískum uppruna í fóðri evrópskra húsdýra.
(Sjá frétt PlanetArk 26. nóvember).

Varúðarreglan sannar gildi sitt

Warning EEAVarúðarreglan á nær alltaf rétt á sér við þróun nýrrar tækni. Umhverfisstofnun Evrópu hefur skoðað 88 tilvik þar sem varnaðarorð þóttu ástæðulaus og komist að þeirri niðurstöðu að aðeins í fjórum tilvikum höfðu talsmenn varúðarinnar rangt fyrir sér. Oftar en ekki hafa menn hunsað vísbendingar um hættu þar til ekki var lengur hægt að komast hjá skaðlegum áhrifum á heilsu og umhverfi. Í skýrslunni „Late Lessons from Early Warnings, II“ eru 20 slík tilvik rakin ítarlega, þ.á.m. tilvik sem varða kvikasilfursmengun frá iðnaði, frjósemisvandamál vegna notkunar skordýraeiturs, hormónaraskandi efni í algengum plastvörum og lyf sem hafa áhrif á vistkerfi. Einnig er hugað að vísbendingum varðandi tækni sem nú er í notkun, svo sem farsíma, erfðabreyttar lífverur og nanótækni. Í skýrslunni er sérstök áhersla lögð á mikilvægi þess að vísindin taki tillit til samverkandi þátta í stað þess að einangra einn þátt og einblína á áhrif hans. Mál þurfi að skoða í þverfaglegu samhengi og bregðast fyrr við hættumerkjum, sérstaklega þegar um er að ræða tæknibyltingar af einhverju tagi. Þeir sem valda skaða til frambúðar ættu að bæta hann og menn ættu að varast að mistúlka orðin „engar vísbendingar um skaðsemi“ sem „vísbendingar um enga skaðsemi“.
(Sjá frétt á heimasíðu Umhverfisstofnunar Evrópu í fyrradag).

Erfðabreyttur maís veldur heilsutjóni í rottum

Rottur sem fóðraðar eru á erfðabreyttum Roundup-þolnum maís lifa að meðaltali skemur og fá frekar æxli í mjólkurkirtla en aðrar rottur, auk þess sem þeim er mun hættara við lifrar- og nýrnaskemmdum. Þetta kom fram í rannsókn franskra vísindamanna sem sagt var frá í grein í vísindatímaritinu Food and Chemical Toxicology í gær. Umrædd erfðabreyting er til þess gerð að hægt sé að eyða illgresi á maísökrunum með plöntueitrinu roundup án þess að skaða maísplönturnar. Heilsufarsáhrifin komu fram í rannsókninni hvort sem erfðabreytti maísinn hafði verið úðaður með roundup eður ei.
(Sjá nánar á ScienceDirect í gær).