5% samdráttur í vínframleiðslu vegna loftslagsbreytinga

2935-160Gera má ráð fyrir að vínframleiðsla í heiminum verði 5% minni á þessu ári en hún var í fyrra. Ástæðan eru loftslagsbreytingar sem hafa leikið vínbændur grátt, einkum í Suður-Ameríku. Alþjóðasamtök vínræktenda (OIV) hafa reiknað út að heildarframleiðsla ársins verði 259,5 milljónir hektólítra, sem gerir árið 2016 af einu lakasta vínræktarári síðustu tveggja áratuga. Gert er ráð fyrir 35% samdrætti í Argentínu, 21% í Síle, 19% í Suður-Afríku og 12% í Frakklandi. Hins vegar er gert ráð fyrir 5% aukningu í Ástralíu og 35% aukningu á Nýja-Sjálandi. Ítalía stefnir í að verða mesta vínræktarland ársins.
(Lesið frétt The Guardian í gær).

Varnarefni í léttvíni

VínÍ rannsókn sem Landbúnaðarháskóli Svíþjóðar (SLU) gerði fyrir sjónvarpsþáttinn Kalla fakta á sjónvarpsstöðinni TV4 fundust varnarefnaleifar í fjórum af tíu mest seldu tegundum kassavíns í Svíþjóð. Evrópusambandið hefur ekki sett nein viðmiðunargildi fyrir leyfileg hámörk varnarefna í víni, en styrkur efnanna í umræddri rannsókn var allt að 55 sinnum hærri en leyft er í drykkjarvatni. Ein víntegund af þessum fjórum, Les Fumées Blanches, innihélt efnið Þíóphanatmetýl, sem talið er stuðla að krabbameinsvexti og ófrjósemi.
(Sjá frétt Sænska ríkisútvarpsins 24. nóvember).