Nýjar byggingar franska ríkisins að hálfu úr timbri

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, hefur tilkynnt að frá og með árinu 2022 skuli allar nýbyggingar sem fjármagnaðar eru af franska ríkinu vera að minnsta kosti að hálfu leyti byggðar úr timbri. Þetta er liður í viðleitni ríkisstjórnarinnar til að ýta undir sjálfbæra borgarþróun. Áður höfðu borgaryfirvöld í París lýst því yfir að timbur verði notað í auknum mæli sem byggingarefni fyrir Ólympíuleikana í París 2024. Þannig verða allar byggingar sem reistar verða í tengslum við leikana, og eru 8 hæðir eða minna, alfarið reistar úr timbri.
(Sjá frétt Planet/Ark Reuter 7. febrúar).

Ólympíuleikarnir í Ríó fá sjálfbærnivottun

Rio2016logoSl. miðvikudag fékk undirbúningsnefnd Ólympíuleikanna í Ríó afhent skírteini sem staðfestir að leikarnir standist kröfur staðalsins ISO 20121 um sjálfbærni viðburða. Umræddur staðall var tekinn í notkun árið 2012 og voru Ólympíuleikarnir sem haldnir voru í London það ár fyrsti viðburðurinn sem fékk vottun skv. staðlinum. Staðallinn gerir ýmsar kröfur til þeirra sem standa fyrir viðburðum af þessu tagi. Til að fá vottun þarf að standast ítarlega óháða úttekt á fjölmörgum þáttum sem varða umhverfismál og samfélagsmál í tengslum við viðkomandi viðburð, svo sem hvað varðar úrgangsforvarnir, orkunotkun og álag á nærsamfélagið.
(Sjá frétt á heimasíðu Alþjóðaólympíunefndarinnar 28. janúar).

Loftmengun dregur úr fæðingarþyngd

beijing_160Börn sem fæddust mánuði eftir Ólympíuleikana í Peking 2008 voru um 23 g þyngri en börn sem fæddust á sama tíma árs árin 2007 og 2009. Í aðdraganda leikanna og á meðan á þeim stóð gripu stjórnvöld til margvíslegra aðgerða til að draga úr loftmengun í borginni, svo sem með því að takmarka umferð, loka stóriðjuverum og stöðva byggingarverkefni. Þessar aðgerðir höfðu í för með sér 60% samdrátt í styrk brennisteinstvíoxíðs (SO2), 48% minni kolsýring (CO), 43% minna köfnunarefnistvíoxíð (NO2) og samdrátt í magni svifryks. Raundæmarannsókn Læknaseturs Háskólans í Rochester benti til að meiri fæðingarþyngd á þessu tímabili væri afleiðing af aðgerðum til að draga úr loftmengun. Loftmengun getur haft mikil áhrif á vöxt og þróun fósturs á síðasta stigi meðgöngu, enda fer mikið af líkamlegum vexti, þróun miðtaugakerfis, hjarta- og æðakerfis og vöðvakerfis fram á þessu stigi.
(Sjá frétt Science Daily í dag).

Umhverfismál í ólestri í Sochi

sochiUmhverfisverndarsamtökin WWF gagnrýna skipuleggjendur vetrarólympíuleikanna í Sochi harðlega og hafa hætt samstarfi við þá vegna þess sem þeir kalla „innantóm orð“ um umhverfismál. Heimamenn í samtökunum Echo Waschta taka undir þessa gagnrýni og telja yfirlýsingar um græna og mengunarlausa leika lítils virði þegar við blasa ólöglegir ruslahaugar, byggingarúrgangur í nærliggjandi vatnsföllum og eyðilögð svæði innan þjóðgarðs. Verst mun ástandið vera í ánni Mzymta sem sér stórum hluta af Sochi fyrir drykkjarvatni. Sagt er að áin hafi verið algjörlega eyðilögð vegna framkvæmda við vegi og járnbrautir.
(Sjá frétt Miljöaktuellt 8. janúar).

Ólögleg urðun við Sochi

Sochi urðunSvo virðist sem Rússar standi ekki við fyrirheit um að vetrarólympíuleikarnir í Sochi verði þeir grænustu í sögunni. Þar átti eingöngu að nota endurnýjanlegt efni og engum úrgangi átti að farga, hvorki byggingarúrgangi né öðru. AP-fréttastofan komst hins vegar að því á dögunum að mikið magn af blönduðum úrgangi hefur verið flutt á urðunarstað sem rússnesku járnbrautirnar reka við þorpið Akhshtyr, án starfsleyfis. Reyndar fylgir sögunni að starfsleyfi myndi ekki fást þótt sótt væri um það, þar sem urðunarstaðurinn sé á vatnsverndarsvæði. Haft er eftir talsmanni Greenpeace að þarna snúist „úrgangsforvarnir“ um að koma úrgangi úr augsýn.
(Sjá frétt NewsDaily í gær).