Matarumbúðir úr pappa hafa minnsta kolefnissporið

Fernur og aðrar matvælaumbúðir úr pappa hafa lægra kolefnisspor en aðrar umbúðir til sömu nota, þ.m.t. umbúðir úr gleri, áli og plasti. Þetta kemur fram í nýrri ritrýndri lífsferilsgreiningu (LCA) sem Tetra Pak í Eyjaálfu hefur látið gera. Glerumbúðir koma verst út með 5-12 sinnum stærra kolefnisspor en fernurnar. Áldósir sem ekki eru úr endurunnu áli koma álíka illa út og glerið, en dósir úr 70% endurunnu áli eru um tvöfalt „verri“ en fernurnar. Léttar plastflöskur úr 100% endurunnu efni eru nokkurn veginn á pari við fernurnar en flöskur úr nýju plasti hafa a.m.k. tvöfalt stærra kolefnisspor. Greiningin náði til allra helstu umbúða af stærðinni 200 ml – 2 l utan utan um G-mjólk, ferska mjólk, ávaxtasafa, vatn og matvöru sem voru á markaði í Ástralíu og Nýja-Sjálandi 2019-2020.
(Sjá frétt PlanetArk í gær).

5% samdráttur í vínframleiðslu vegna loftslagsbreytinga

2935-160Gera má ráð fyrir að vínframleiðsla í heiminum verði 5% minni á þessu ári en hún var í fyrra. Ástæðan eru loftslagsbreytingar sem hafa leikið vínbændur grátt, einkum í Suður-Ameríku. Alþjóðasamtök vínræktenda (OIV) hafa reiknað út að heildarframleiðsla ársins verði 259,5 milljónir hektólítra, sem gerir árið 2016 af einu lakasta vínræktarári síðustu tveggja áratuga. Gert er ráð fyrir 35% samdrætti í Argentínu, 21% í Síle, 19% í Suður-Afríku og 12% í Frakklandi. Hins vegar er gert ráð fyrir 5% aukningu í Ástralíu og 35% aukningu á Nýja-Sjálandi. Ítalía stefnir í að verða mesta vínræktarland ársins.
(Lesið frétt The Guardian í gær).

Nýsjálendingar friða stórt hafsvæði

2000px-New_Zealand_location_map_transparent.svgNýsjálensk stjórnvöld hafa ákveðið að friða svonefnt Kermadecsvæði á hafinu norður af landinu, en á þessu svæði eru m.a. neðansjávareldfjöll og heimkynni sjávardýrategunda í útrýmingarhættu. John Key, forsætisráðherra landsins, tilkynnti um friðunina á fundi Sameinuðu þjóðanna í gær. Verndarsvæðið verður eitt af þeim stærstu í heimi, eða um 620.000 ferkílómetrar (sexföld stærð Íslands). Friðunin kom námufyrirtækjum í opna skjöldu, en nokkur þeirra höfðu uppi áform um vinnslu jarðefna af sjávarbotni á þessu svæði.
(Sjá frétt PlanetArk í dag).

Loftslagsflóttamaður sækir um hæli

KiribatiIoane Teitiota, 37 ára fjölskyldufaðir frá Kiribati, hefur farið þess á leit við áfrýjunardómstól í Auckland á Nýja-Sjálandi að hann snúi við fyrri ákvörðun um að synja Ioane um hæli sem loftslagsflóttamaður. Upphaflega ákvörðunin var byggð á því að lagarök skorti, þar sem lífi umsækjandans væri ekki ógnað þótt hann sneri til fyrri heimkynna. Ione heldur því fram að fjölskyldan sé ekki óhult á Kiribati, þar sem hækkað sjávarborð sé þegar farið að leiða til mengunar drykkjarvatns, uppskerubrests og eyðileggingar heimila í flóðum. Flóttamannalöggjöfin sé úrelt að því leyti að hún nái ekki til loftslagsógna. Kiribati er eyjaklasi á Suður-Kyrrahafi, og er meðalhæð lands þar aðeins um 2 m.y.s. Yfirvöld þar hafa keypt land á Fijieyjum þar sem áformað er að reisa byggðir fyrir fólk frá Kiribati. Einnig er unnið að menntunarátaki undir yfirskriftinni „þjóðflutningar með reisn“, sem ætlað er að búa íbúa sem best undir vistaskiptin.
(Sjá frétt PlanetArk 17. október).