Vísindamenn við Háskólann í Delaware eru komnir áleiðis í viðleitni sinni til að framleiða samkeppnishæft þotueldsneyti úr lífmassa, nánar tiltekið úr beðmi og tréni úr viðarkurli og maískólfum. Einn helsti vandinn við nýtingu þessa hráefnis er sá hversu kolefniskeðjurnar eru orðnar stuttar og hlaðnar súrefnisfrumeindum þegar búið er að breyta lífmassanum úr föstu efni í fljótandi. Til að búa til nothæft þotueldsneyti, sem m.a. þarf að halda eiginleikum sínum í miklu frosti, þurfa einkum tvenns konar efnaferli að eiga sér stað. Þar er annars vegar átt við afoxun sameindanna og hins vegar samtengingu þeirra. Nýjungin í aðferðum vísindamannanna í Delaware felst einkum í nýjum efnahvötum, svokölluðum „efnageitum“, sem m.a. eru framleiddar úr einföldu grafeni. „Geiturnar“ gera það mögulegt að keyra nauðsynleg efnahvörf við mun lægri þrýstingi og lægra hitastig en áður (um 60°C í stað 350°C), auk þess að skila mjög góðri nýtingu hráefnisins. Efnahvörfin taka auk heldur skemmri tíma en fyrri aðferðir og efnahvatarnir eru endurvinnanlegir.
(Sjá umfjöllun Science Daily 30. október).
Greinasafn fyrir merki: maís
Frakkar hafna erfðabreyttri ræktun
Frönsk stjórnvöld ætla að nýta sér höfnunarkerfi Evrópusambandsins (ESB) til að viðhalda banni við ræktun á erfðabreyttum plöntum í landinu. Höfnunarkerfið, sem samþykkt var í mars, heimilar einstökum aðildarríkjum ESB að sækja um undanþágu frá öllum samþykktum sem heimila ræktun erfðabreyttra plantna í löndum sambandsins. Erfðabreytta maísafbrigðið MON810 frá Monsanto hefur hingað til verið eina erfðabreytta plantan sem ræktuð er í Evrópu, nánar tiltekið á Spáni og í Portúgal, en umsóknir um leyfi til ræktunar fleiri afbrigða bíða nú afgreiðslu hjá ESB. Þar á meðal er skordýraþolinn maís frá DuPont Pioneer og Dow Chemical, sem gengur undir nafninu 1507. Frakkar eru stærstu framleiðendur og útflytjendur korns í Evrópu, en Þjóðverjar hafa einnig ákveðið að beita höfnunarákvæðinu. Sama gildir m.a. um Letta og Grikki.
(Sjá frétt PlanetArk í dag).
Framleiðsla á lífrænu plasti fjórfaldast!
Áætlað er að heimsframleiðsla á lífrænum plastefnum muni fjórfaldast á næstu fjórum árum eða úr 1,6 milljónum tonna í 6,7 milljón tonn, að því er fram kemur í ársskýrslu European Bioplastics. Aukningin verður væntanlega einkum í Asíu, þar sem Tæland, Indland og Kína munu standa fyrir um 75% af heimsframleiðslunni. Lífræn plastefni eru framleidd úr endurnýjanlegum auðlindum á borð við maíssterkju og sykurreyr og geta m.a komið í stað hefðbundins plasts í umbúðum. Þannig mun áhersla ESB á að draga úr plastpokanotkun stuðla mjög að stækkun markaðsins. Einnig hafa miklar tækniframfarir ýtt undir aukna framleiðslu á lífrænu plasti. Lífrænt pólýetýlenplast er lang stærsti hluti heimsframleiðslunnar, enda leggja fyrirtæki á borð við Coca-Cola síaukna áherslu á „grænar“ umbúðir.
(Sjá frétt EDIE 4. desember).
Erfðabreyttur maís veldur heilsutjóni í rottum
Rottur sem fóðraðar eru á erfðabreyttum Roundup-þolnum maís lifa að meðaltali skemur og fá frekar æxli í mjólkurkirtla en aðrar rottur, auk þess sem þeim er mun hættara við lifrar- og nýrnaskemmdum. Þetta kom fram í rannsókn franskra vísindamanna sem sagt var frá í grein í vísindatímaritinu Food and Chemical Toxicology í gær. Umrædd erfðabreyting er til þess gerð að hægt sé að eyða illgresi á maísökrunum með plöntueitrinu roundup án þess að skaða maísplönturnar. Heilsufarsáhrifin komu fram í rannsókninni hvort sem erfðabreytti maísinn hafði verið úðaður með roundup eður ei.
(Sjá nánar á ScienceDirect í gær).